Hvað gerir ástríðufullur antíksafnari og sérfræðingur í kínversku postulíni þegar hann rekst óvænt á einstæða gersemi innan um drasl á sveitamarkaði? Svarið við því er að finna í Banvænn fundur eftir þá Anders de la Motte og Måns Nilsson. Þetta er önnur bókin um Peter Vinston lögreglumann frá Stokkhólmi. Hann er í fríi vegna ofþreytu og hefur fengið inni í sumarbústað í eigu fyrrverandi eiginkonu sinnar og nýja mannsins hennar. Peter á að nafninu til að vera að slaka á og bindast fullorðinni dóttur sinni traustari böndum en morð hafa lag á að flækjast fyrir því.
Peter er staddur í Österlen-héraði og þar er sumar og sólskin. Dagarnir ættu að líða við notalega afslöppun úti á verönd og engar skyldur að kalla nema sú að opna af og til sardínudós fyrir köttinn Plútó. Þegar Peter berst það til eyrna að stór antíkmarkaður sé í Degeberga ákveður hann að skella sér þangað bæði til að hitta Amöndu, dóttur sína, og til að fá einhverja tilbreytingu í lífið. Markaðurinn hefur hins vegar varla verið opnaður þegar maður finnst látinn og Peter er fyrr en varir kominn á kaf í rannsókn málsins.
Í ljós kemur að Nalle, antíksalinn myrti, er óprúttinn og ósvífinn í viðskiptum. Hann á því marga óvini og ekki gott að segja hver þeirra er banamaður hans. Tove Esping, rannsóknarlögreglukona í Simrisham, er ekki ánægð með að Peter skuli enn og aftur flækjast inn í hennar morðrannsókn en þau tvö eru góð saman og fyrr en varir er lausn í sjónmáli þótt ýmsar flækjur komi upp og setji rannsóknina úr skorðum.
Þetta eru stórskemmtilegar sakamálasögur og myndu sennilega frekar flokkast í hóp þess sem kallað hefur verið stofukrimmar en undir skandinavískt myrkur eða Scandinavian noir. Anders de la Motte er fyrrum lögreglumaður en frá árinu 2010 hefur hann eingöngu helgað sig ritstörfum eftir að fyrsta bók hans, Geim, kom út. Österlen-seríuna skrifar hann hins vegar í félagi við Måns Nilsson, reyndan handritshöfund, dagskrárgerðarmann í sjónvarpi og gamanleikara. Måns hafði áður skrifað barnabækur en saman tekst þessum tveimur að skapa stórskemmtilegar afþreyingarbækur þar sem fléttan er undin í sniðugum krókum og bugðum til þess gerðum að leiða lesandann afvega allt þar til rétta lausnin finnst.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.