Deild Q kvödd

Síðasta bókin um deild Q í kjallara lögreglustöðvar í Kaupmannahöfn er komin út. Það er svolítið erfitt fyrir aðdáendur að sætta sig við að svo sé en þeir hafa varla völ á öðru. Carl Mørck, Assad, Rose, Hardy og allir hinir munu ekki snúa aftur. Þegar fyrsta bókin, Konan í búrinu, kom út hér eignaðist Jussi Adler-Olsen strax harða aðdáendur og þeir eiga eftir að sakna þess sárlega að fá ekki að fylgja hinum félagslega hefta og skapvonda Carli Mørck eftir meðan hann leysir fleiri mál.

Sjö fermetrar með lás heitir lokhnykkurinn á sagnaflokknum. Carl Mørck er kominn í fangelsi. Hann er lokaður inni í sjö fermetra klefa og er í lífshættu. Hann hefur komið hluta samfanga sinna undir lás og slá og svo er augljóst að einhver ætlar sér að eyðileggja orðspor lögreglumannsins og rannsakandans snjalla og koma honum fyrir kattarnef.

Þrátt fyrir sérstæðan persónuleika nýtur Carl Mørck engu að síður virðingar og tryggðar samstarfsmanna sinna. Þau taka höndum saman og reyna allt hvað þau geta í kapphlaupi við tímann að sanna sakleysi hans. Nú og svo leggur Carl þeim sjálfur lið eftir bestu getu úr klefa sínum. Réttlætiskennd hans er stórlega misboðið og hann nagar sjálfan sig í handabökin fyrir að hafa tekið töskuna í geymslu fyrir Anker.

Líkt og venjulega tekxt Adler-Olsen að skapa flókna sögu með þræði sem liggja víða. Hann er einnig skarpur þjóðfélagsrýnir og bækur hans eru ávallt áhugaverður spegill á danskt samfélag. Lesendur fá ævinlega að kynnast öllum hliðum málsins og öllum persónum sem að koma. Hér er ekkert svart/hvítt bara ótal gráir skuggar.  Hann er einnig gersamlega miskunnarlaus gagnvart persónum sínum bæði þeim góðu og hinum vonda. Það er einn mesti styrkur Jussi sem höfundar.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn júní 22, 2024 07:00