Miðaldra konur með nef fyrir morðum

Af einhverjum ástæðum er ákaflega vinsælt að byggja sakamálaþætti í sjónvarpi í kringum miðaldra eða eldri konur. Þær eru margvíslegar, allt frá miss Marple úr hugarheimi Agöthu Christie til Veru Ann Cleeves og svo nokkrar sem eiga sér enga stoð í bókmenntum. Ein þeirra er Harry Wild. Hún er fyrrum háskólaprófessor sem kann illa við að vera neydd á eftirlaun og þegar ungur maður reynir að ræna hana tekur líf hennar óvænta stefnu.

Þau verða vinir og hún áttar sig á að ömurlegar heimilisaðstæður hans urðu til að þess að hann reyndi rán. Ýmsar flækjur og tilviljanir koma svo til og þau gera sér ljóst að bæði hafa ákveðna hæfileika til að leysa sakamála. Þau taka höndum saman og stofna einkaspæjaraskrifstofu. Harry er nákvæmlega sama hvað öðrum finnst, segir það sem henni dettur í hug og hefur aldrei fyrir því að reyna að geðjast öðrum. Hún veður yfir son sinn, sem er lögreglumaður, sýnir tengdadóttur sinni fyrirlitningu en er ofurgóð við sonardóttur sína. Þrátt fyrir allt þetta tekst Jane Seymor að gæða þessa persónu lífi og gefa henni fleiri hliðar en þá sem blasir við.

Fergus félagi hennar er allt það sem Harry er ekki. Hann er kurteis og tillitsamur ungur maður. Móðir hans gekk út af heimilinu og skildi hann og unga systur hans eftir hjá drykkfelldum föður. Fergus tók að sér uppeldishlutverkið og sér til þess að litla systir hans, Liberty, býr við það öryggi og umhyggju sem hann skortir. Þættirnir eru umdeildir og fólk skiptist alveg í tvo hópa, annað hvort er það yfir sig hrifið eða þolir ekki persónuna, Harry Wild.

Geraldine McEwan í hlutverki miss Marple.

Hvers vegna miðaldra og eldri konur?

En hvað er það sem gerir það að verkum að miðaldra og eldri konur eru svona vinsælar þegar kemur að því að skapa spæjara? Í flestum tilfellum eiga þær sameiginlegt að vera miklir mannþekkjarar, með ríka athyglisgáfu og hafa lag á að ná upp úr fólki sannleikanum. Miss Marple lærði að feta sig um völundarhús mannsálarinnar með því að horfa á þorpsbúana í St. Mary’s Mead og Harry Wild öðlaðist djúpan skilning á tilfinningalífi fólks í gegnum bókmenntir. Vera er auðvitað reyndur lögreglumaður en hefur óneitanlega nef fyrir minnstu vísbendingum og hvert þær leiða.

Sagt er að Agatha Christie hafi byggt persónuna Miss Marple á móðursystur sinni. Sú hafi ávallt verið einstaklega pen og hegðun hennar óaðfinnanleg en eldskörp og fljót að sjá í gegnum falskheit. Hún hafi iðulega komið ættingjum sínum á óvart með athugasemdum um hvern mann ýmsir sem tengdust fjölskyldunni höfðu að geyma sem ávallt reyndist svo raunin. Hún hafi einnig haft óvenjulega góða athyglisgáfu og virtist alltaf vita hvað var í gangi í kringum hana þótt öllum öðrum væri það hulið.

Íslendingar muna svo örugglega eftir Jessicu Fletcher í Murder She Wrote. Angela Lansbury gerði henni góð skil og það var sama hvar sá glæpasagnahöfundur kom, alls staðar voru framin morð. En af þeim sem ekki hafa komið hingað má nefna Susan Ryeland. Hún er glæpasagnahöfundur eins og Jessica og leysir sakamál með hjálp spæjarans Atticus Pund en hann er hennar eigið hugarfóstur en henni svo raunverulegur að þau tala saman og leysa úr flóknustu flækjum í sameiningu. Fyrstu þættirnir um hana heita, The Magpie Murders og hin óviðjafnanlega Lesley Manville leikur hana.

Angela Lansbury lék Jessicu Fletcher í mörg ár.

Spennandi bækur um kvenspæjara

Ótal fleiri dæmi eru til um vinsælar bækur um miðaldra snillinga í lausn sakamála, bækurnar um Mrs. Polifax eftir Dorothy Gilman, sögur Elizabeth Peters um Jaqueline Kirby og bækur Evelyn Smith um miss Melville. Allt eru þetta snilldarvel gerðar persónur og skemmtilega skrifaðar bækur. Við hér á landi eigum svo Eddu á Birkimelnum eftir Jónínu Leósdóttur og hægt að fullyrða að hún gefur þeim enskumælandi ekkert eftir. En svo eru annas konar eldri konur að ryðja sér til rúms líka. Þær eru skarpar, harðar í horn að taka og víla ekkert fyrir sér. Þær Eve Polastri og Carolyn Martens í Killing Eve-þáttunum eru gott dæmi. Þær eru í senn bæði mannþekkjarar og meistarar blekkinganna. Sandra Oh og Fiona Shaw leika þær meistaralega og eru svo sannfærandi að áhorfandinn kaupir fyllilega ævintýralega atburðarrás þáttanna. Í Ameríku hefur svo Queen Latifah tekið yfir persónuna sem Edward Woodward gerði ógleymanlega í fyrstu Egualizer-seríunni. Denzel Washington hefur leikið Robert McCall í þremur kvikmyndum en nú er jafnarinnn mikli orðin miðaldra kona, Robyn McCall.

Tim McMullan sem Atticus Pund og Lesley Manville í hlutverki Jessicu Ryeland.

Hugsanlega eru miðaldra og eldri konur svona hentugir spæjarar vegna þess að iðulega litið framhjá þeim og þær ekki taldar hafa neitt merkilegt fram að færa en lífsreynsla þeirra og greind gera þær stórhættulegar þeim sem hafa einhverju að leyna. Þessar hetjur eru líka í flestum tilfellum einar á báti. Annað hvort ekkjur eða hafa aldrei gifst. Ef þær eiga börn eru þau flogin úr hreiðrinu og þeim hvergi fjötur um fót. Þær eiga það líka sameiginlegt að geta auðveldlega fengið fólk til að treysta sér, kunna að styðja þar sem stuðnings er þörf og þær njóta ákveðnar virðingar í samfélaginu þótt lögregluyfirvöld hlusti alls ekki á þær til að byrja með.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn júní 11, 2024 07:00