Sofa ekki nóttina fyrir fyrirlestur

Sigrún Stefánsdóttir

Sigrún Stefánsdóttir

Sigrún Stefánsdóttir forseti hugvísinda- og menntasviðs Háskólans á Akureyri skrifar

 

Ég las í Fréttablaðinu á dögunum litla klausu sem bar yfirskriftina Að halda fyrirlestra. Þar var verið að tala um fyrirlestrakvíða sem væri æði algengur. Sagt var að æfing og endurtekning drægi  stundum úr kvíðanum en margir næðu aldrei að yfirvinna hann alveg.  Þarna voru gefin nokkur holl ráð til þess að læknast af kvillanum, svo sem góður undirbúningur, að tala hægt, vera í augnsambandi og eitthvað fleira.

Við lesturinn rifjaðist upp fyrir mér kafli í bókinni My life on the Road eftir bandarísku baráttukonuna Gloríu Steinem. Þar lýsir hún því hvernig hún hafi þjáðst af ótta við að koma fram, hvort sem það var að flytja ræðu eða koma fram í sjónvarpi. Hún sagðist hafa svikið svo oft loforð um viðtöl í fjölmiðlum að margir þáttastjórnendur hafi sett hana á svartan lista.

Ég þekki þetta fyrirbæri. Fyrirlestrakvíði hefur verið óvinur minn frá því ég man eftir mér. Einu sinni ætlaði ég að hætta í námi af því að ég átti að halda tíu mínútna fyrirlestur á námskeiði um fjölmenningu. Ég lét mig reyndar hafa það, en eftir á mundi ég ekki hvað ég hafði sagt og nóttin á undan var svefnlaus.

Þegar ég var í námi í Norska blaðamannaskólanum skrópaði ég vikuna sem bekkjarfélagar mínir voru í þjálfun hjá NRK – Norska ríkisútvarpinu. Ég myndi hvort eð er aldrei fara að vinna í útvarpi eða sjónvarpi. Ég sem ekki gat komið upp orði fyrir framan fólk.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan en ennþá er ég að glíma við þetta fyrirbæri. Það kostar alltaf sitt að fara í pontu og mig langar alltaf til þess að segja –nei, því miður – þegar ég er beðin um að halda fyrirlestur eða fara í viðtal. En lífið hefur leikið mig þannig að ég þarf oft að koma fram og ég nýti mér öll ráðin sem voru tíunduð í klausunni í Fréttablaðinu – en samt !

Margir þjást af þessum leiða kvilla, og þá sérstaklega konur.  Í gegnum tíðina hef ég haldið fjölmörg námskeið til þess að reyna að byggja upp sjálfstraust þátttakenda og gera þeim kleift að komast vel frá viðtali eða fyrirlestri. Þessi námskeið hafa alla vega hjálpað mér og ég leyfi mér aldrei að komast undan þegar ég er beðin um að koma fram.

Af hverju stafar þetta ? Er það uppeldið, feimni, fullkomnunarárátta eða eitthvað allt annað? Skólakerfið er öðru vísi í dag en þegar ég var í skóla. Þá var það helsta dyggð hvers nemenda að halda sig á mottunni og gefa ekki frá sér hljóð í kennslustundum.  Nú er farið að þjálfa börn í að tjá sig fyrir framan aðra en ég held að það þurfi að gera enn meira í þessum efnum. Ég er oft að fá nýnema í háskólanám sem treysta sér ekki til þess að tjá sig fyrir framan bekkinn.  Það staðfestir að við þurfum að vinna enn betur með börnin strax í leik- og grunnskóla. Það er nefnilega ótrúlega þungur kross að bera í gegnum lífið að þora ekki að koma skoðunum sínum á framfæri og treysta sér ekki til að vera virkur í samfélagsumræðunni nema með því að fórna nætursvefninum dýrmæta.

 

 

 

 

Sigrún Stefánsdóttir ágúst 29, 2016 10:37