Matur í félagsmiðstöðvum fyrir eldri borgara -nýtt æviskeið

Þráinn Þorvaldsson

Þráinn Þorvaldsson fyrrverandi framkvæmdastjóri skrifar:

Æviskeiðin eru mörg. Athuganir hafa verið gerðar á því hvenær fólki finnist það verða gamalt. Niðurstaða einnar athugunar sýndi að eldra fólki finnist að það muni verða gamalt 10 árum eftir núverandi aldur. Okkur hjónum, Elínu og mér, finnst við ekki við vera gömul á miðjum áttræðisaldri. Skv. þessu verðum við ekki gömul fyrr en um miðjan níræðisaldur.

Við teljum okkur hafa farið inn á nýtt æviskeið eldri borgara s.l. vetur þegar við uppgötvuðum félagsmiðstöðvar Reykjavíkurborgar. Á árinu sem einstaklingar verða 75 ára sendir Velferðarsvið Reykjavíkurborgar  þeim kynningarbækling um öldrunarþjónustu í Reykjavík. Við hjónin búum í Fossvoginum og höfðum ekki gert okkur grein fyrir þeim fjölda félagsmiðstöðva sem er í kringum okkur. Okkur hafði ekki dottið í hug að fara í félagsmiðstöðvar og snæða hádegisverð, sem kynntur var í bæklingnum.  Eins og segir þar: „Hægt er að kaupa heitan mat í hádeginu á virkum dögum í félagsmiðstöðvum Reykjavíkurborgar. Þar er einnig hægt að kaupa kaffi og meðlæti.  Hádegisverður á félagsmiðstöð er pantaður með því að hringja með fyrirvara, oftast fyrir kl. 9 sama morgun. Öllum er velkomið að borða á félagsmiðstöðvum borgarinnar óháð aldri og búsetu. Máltíðir eru niðurgreiddar fyrir eldri borgara og öryrkja. Einnig er hægt að skrá sig í fæði ákveðna daga. Þess ber að geta að eldhúsið á Vitatorgi við Lindargötu er opið alla daga ársins.“

Við völdum að snæða í félagsmiðstöðinni í Hvassaleiti 56/58. Við erum ekki í föstu fæði og mætum tvisvar til þrisvar í viku eftir því hvernig stendur á hjá okkur og einhver áhrif hefur matseðillinn sem gefinn er út fyrir fram prentaður út á staðnum eða fenginn af netinu. Smelltu hér til að sjá hann. Kostnaður er afar vægur. Fyrir eldri borgara og öryrkja kostar hádegisverður í lausafæði kr. 775, fastafæði 710 og fyrir aðra kr. 1.230.

Gæði matarins komu okkur verulega á óvart og hve vel er skammtað. Fiskur er yfirleitt tvisvar í viku og kjöt þrisvar, tvíréttað, grautur eða súpa og kaffi á eftir. Framleiðslan fer

Marcela Soto og Ingibjörg skammta á diskana hjá Steinari og Ingu.

fram í stóreldhúsi við Vitatorg þar sem hægt er að fá mat um helgar. Maturinn er góður, næringarríkur heimilismatur eins og við erum vön frá uppvexti okkar. Í eldhúsinu eru eldaðar yfir 1.000 máltíðir á dag. Af þeim fara um 550 heitar máltíðir í hitakössum í  17 félagsmiðstöðvar, um 300 kaldir bakkar í heimahús til upphitunar og 200 máltíðir eru afgreiddar í hádeginu við Vitatorg.  Sem dæmi um rétti var hádegisverðurinn á þriðjudag í síðustu viku fiskibollur með rækjusósu, kartöflum og salati og blómkálssúpa á eftir. Á föstudag var purusteik með sykurbrúnuðum kartöflum, grænmetisþrennu og frönsk súkkulaðikaka með jarðaberjarjóma á eftir. Sami matur er fram borinn á öllum félagsmiðstöðvum. Sumir borða aðalmáltíðina og hafa eftirréttinn með sér sem kvöldmat. Börn eldri borgara sem snæða koma stundum í heimsókn og greiða þá hærra verð fyrir máltíðina. Við brugðum okkur í kynnisferð í gær í félagsmiðstöðina við Vitatorg þar sem við borðuðum sunnudagssteikina og kynntumst nýjum borðfélögum.

Maturinn er vel útilátinn.

Kostirnir við þessa nýbreytni okkar eru ekki eingöngu þægindin að þurfa ekki að hafa fyrir heimaeldun einnar nauðsynlegrar heitrar máltíðar á dag, heldur ekki síst félagslegi þátturinn. Við hjónin erum svo heppin að hafa eignast góða borðfélaga sem við snæðum alltaf með, Ólaf Sigurðson og Hinrik Bjarnason sem báðir búa í húsinu og eru einstaklega viðfelldnir og skemmtilegir. Sagðar eru sögur frá uppvexti og lífsstarfi bæði í gamni og alvöru og kímnin er í hávegum höfð. Dægurmálin eru einnig rædd. Það er mikil tilbreyting á efri árum er vera í skemmtilegum félagsskap í hádeginu og snæða hollan og bragðgóðan mat sem aðrir hafa haft fyrir því að elda.

Yndislegt þjónustulundað fólk stjórnar félagsstarfinu í Hvassaleiti. Við höfum ekki enn tekið virkan þátt í almennu félagsstarfi enda aðallega fyrir „gamalt fólk“!  Hlýleg bros frá þeim sem afgreiða matinn til okkar bragðbætir hann eins og meðfylgjandi mynd af Marcela Soto og Ingibjörgu sýnir þegar Steinar og Inga línudansari fá hádegismatinn afgreiddan. Einnig fylgir mynd af okkur borðfélögum Elínu, Ólafi, Hinriki og undirrituðum og matnum á föstudaginn var.

Við hvetjum eldri borgara til þess að nýta sér þessa góðu þjónustu.

Þráinn Þorvaldsson september 3, 2018 09:39