Konur og karlar skrifa

Gullveig Sæmundsdóttir fyrrverandi ritstjóri skrifar.

Þessi pistill birtist á Fésbókarsíðu minni nokkrum vikum fyrir jól. Þegar kom til tals að hann yrði líka birtur á þessum vef, Lifðu Núna, ákvað ég að endurskoða hann lítillega og bæta jafnframt við nokkrum bókum sem ég hef lesið síðan og vakið hafa athygli mína.

Frá því að ég man fyrst eftir mér hafa bækur verið stór hluti af lífi mínu og tilveru og ég hef alltaf lesið mikið. Á heimili foreldra minna voru bækur fyrirferðarmiklar og Bókasafn Hafnarfjarðar var til húsa beint á móti heimili mínu þegar ég var að alast upp. Þar var ég fastagestur um árabil. Vitanlega græddi ég heilmikið á því en viðurkenni samt, öllum þessum árum síðar, að trúlega hafa bókasafnsbækurnar tekið sinn toll og dregið úr því að ég læsi skólabækurnar af jafn mikilli athygli og mér bar að gera. Síðan giftist ég manni sem er mikill bókamaður – hefur alltaf lesið mikið en líka skrifað fjölda bóka. Ég er bókaunnandi en enginn sérfræðingur á þessu sviði. En ég hef hins vegar gaman af að velta fyrir mér hvað fyrir höfundum vakir og ræða þær bækur sem ég les.

Mér finnst skammdegismyrkrið þrúgandi og tengi tilhlökkun til jólanna ekki síður við þá staðreynd að um jólaleytið er sól aftur farin að hækka á lofti, með fyrirheitum um bjartari daga, en hina kristnu jólahátíð ljóss og friðar. Jólabækurnar koma því nánast eins og sólargeislar inn í líf mitt þegar myrkrið er svartast. Á liðinni bókavertíð náðu þær að fanga hug minn svo um munaði og ég hef týnt mér í heimi ólíklegustu bókmennta. Mér telst til að ég hafi lesið hátt á annan tug þeirra bóka sem út komu síðst liðið haust. Eins og vænta má eru þær misjafnar að gæðum en hafa samt allar glatt mitt geð á einn eða annan hátt.

Fyrsta bókin sem ég las í þessari lestrartörn heitir Hnitmiðuð kínversk- ensk orðabók fyrir elskendur og er eftir kínverska ritsnillinginn Xiaolu Guo. Stórkostleg bók og þýðing Ingunnar Snædal hreint þrekvirki. Aðalpersóna bókarinnar heldur til Englands og dvelur þar í eitt ár við enskunám. Sjálf hefur hún oftast orðið í bókinni og eins og vænta má talar hún frekar bjagaða og barnalega ensku sem Ingunn nær að snúa á trúverðugan hátt yfir á Íslensku. Mjög eftirminnileg bók – ekki hvað síst fyrir snilldarlega þýðingu Ingunnar,

Ég las líka bók Guðrúnar Evu Minervudóttur, Aðferðir til að lifa af, sem er merkilegasta íslenska skáldverkið sem ég hef lesið í ár. Bókin var tilnefnd til Íslensku Bókmenntaverðlaunanna en hlaut ekki náð fyrir augum dómnendarinnar. Guðrún Eva skrifar frekar knappan og hnitmiðaðan texta. Ekkert málæði eða vaðall hjá höfundi og ég naut hvers einasta orðs. Frábær og eftirminnileg bók.

Ég hef töluvert hugsað um fimm bækur sem ég las síðastliðið haust. Annars vegar tveimur bókum eftir karlmenn, Urðarköttur eftir Ármann Jakobsson og Innflytjandinn eftir Ólaf Jóhann Ólafsson. Hins vegar eru þrjár bækur sem konur hafa skrifað: Systa, saga Sigrúnar Sveinbjörnsdóttur sem Vigdís Grímsdóttir skráði, Óstýriláta mamma mín, eftir Sæunni Kjartansdóttur og Tilfinningabyltingin eftir Auði Jónsdóttur. Ég tek þessar bækur hér saman af því að þær endurspegla ólík viðhorf kynjanna; ekki aðeins til menningar og lista heldur frekar lífsins og tilverunnar. Allir þessir höfundar hafa þörf fyrir að skrifa og skapa en konurnar virðast í meira mæli en þeir Ólafur Jóhann og Ármann hafa þörf fyrir að skilja; sjálfar sig og foreldra sína og hvernig atburðir í bernsku fylgja þér og móta þig upp á lífstíð. Reyndar er ærið verkefni að reyna að þekkja og skilja sjálfan sig – sem okkur tekst kannski aldrei. Enn flóknara er að reyna að skilja aðra.

Þær Auður, Sæunn og Systa (sem Vigdís skrifaði) fjalla allar að einhverju leyti um sjálfar sig í bókum sínum. Auður skrifar um skilnað sem hún hefur nýlega gengið í gegnum og leitar skýringa í fortíðinni á ýmsu sem upp á hefur komið í lífi hennar. Sæunn skrifar um móður sína, sem eins og titill bókarinnar ber með sér var sannarlega ekki auðveld, og veltir fyrir sér af hverju líf móður hennar var jafn erfitt og raun ber vitni. Sigrún, Systa, er á svipuðum nótum en nálgast efnið á allt annan hátt. Hún segir frá æsku sinni og uppvexti á góðu og kærleiksríku heimili. Inn á milli eru kaflar þar sem sálfræðingurinn Sigrún segir frá og saman sýnir hennar eigin saga og þeir kaflar mikilvægi þess að börn búi við ástríki og blíðu – séu elskuð og geti treyst foreldrum sínum.

Bækur Ólafs Jóhanns og Ármanns eru af allt öðrum toga enda skáldverk þar sem höfundar láta frjótt ímyndunarafl sitt og skáldlegt innsæi ráða ferðinni. Mér finnst alltaf gaman að lesa bækur Ólafs Jóhanns, ekki hvað síst af því að bækur hans bera með sér annan menningaheim en við búum í. Ég hafði líka mjög gaman af Urðarketti Ármanns Jakobssonar, skemmtileg spennusaga þar sem sögusvið er ólíkt því sem við eigum að venjast í slíkum sögum.

Undanfarið hef ég verið að lesa sögu Michelle Obama, Becoming, einstök saga mjög merkilegrar konu. Ég las bók Trevor Noha, Glæpur við fæðingu, þegar bókin kom út í íslenskri þýðingu á síðasta ári. Mögnuð bók sem gaf mér innsýn inn í menningarheim sem ég þekki lítið. Þessar tvær bækur eiga það sameiginlegt með bók Sigrúnar Sveinbjörnsdóttur og Vigdísar Grímsdóttur, Systu, að sögumenn segja frá einstaklega jákvæðum og góðum samskiptum sem þeir eiga við foreldra sína. Öll eiga þau foreldra sam hafa stutt þau með ráðum og dáð og haft mikil og jákvæð áhrif á líf þeirra með elsku sinni, umhyggju og hvatningu.

Ég get ekki látið hjá líða að nefna bók Péturs Gunnarssonar, HKL ástarsaga. Einstaklega vel skrifuð og læsileg bók. Ég kannaðist reyndar við ýmislegt sem fram kemur í bókinni en fannst nálgun Péturs athyglisverð og kveikja enn frekar áhuga á minn Halldóri Kiljan og verkum hans.

Nokkrar fleiri bækur gæti ég tínt til en læt hér staðar numið. Ég er bæði stolt og þakklát að tilheyra bókaþjóðinni og vona sannarlega að foreldrar og kennarar nái í ríkara mæli en nú er að kveikja áhuga barna sinna á því að lesa bækur. Þeir sem ekki hafa gaman af að lesa fara svo mikils á mis.

 

 

 

Gullveig Sæmundsdóttir febrúar 9, 2020 22:20