Sögur ofnæmislæknisins

Ofnæmi getur valdið miklum óþægindum og hastarleg ofnæmisviðbrögð endað með dauða sjúklingsins. Yfir 50 milljónir Bandaríkjamanna þjást af ofnæmi og árlega deyja þar í landi 5.400 manns af völdum lungnasýkinga sem rekja má til ofnæmis og um það bil 150 manns látast eftir að hafa fengið ofnæmislost. Talið er að 25-30% íbúa hér á landi séu með einhvers konar ofnæmi. Algengast er frjókornaofnæmi en það er hægt að þróa með sér ofnæmi fyrir ólíklegustu hlutum.

Paul Ehrlich er bandarískur ofnæmislæknir sem hefur helgað tuttugu ár af starfsævi sinni rannsóknum á ofnæmi. Hann er lærður barnalæknir en þegar sonur hans, Joshua, fékk asma ákvað hann að afla sér allrar þeirrar þekkingar sem hann gæti um sjúkdóminn. Hann segir að starf hans sé á stundum líkt og sambland af vinnu einkaspæjara og vísindamanns. Fólk geti haft ofnæmi fyrir nánast hverju sem er og því þurfi hann yfirleitt að útiloka ótal grunuð efni af löngum lista áður en hinn eini rétti ofnæmisvaldur finnist. Höfð er eftir honum saga nýgiftrar konu sem fékk útbrot í hvert sinn sem maður hennar skilaði sér heim úr vinnu á kvöldin. Útbrotin voru slæm fram eftir kvöldi og þeim fylgdi mikill kláði, undir nóttina fór hins vegar að draga úr þeim og venjulega var hún orðin góð að morgni.

Unga konan var að vonum örvæntingarfull yfir ósköpunum því það er lítið gaman að vera komin með ofnæmi fyrir eiginmanni sínum eftir fárra mánaða hjónaband. Að lokum komst Erhlich að því að maðurinn borðaði samloku með hnetusmjöri í hádegismat á hverjum degi en konan hafði ofnæmi fyrir því. Þegar hann kom heim á kvöldin og heilsaði með kossi var enn nægilega mikið af hnetusmjörinu eftir í munnvatni hans til að valda viðbrögðum hjá henni. Þegar leið á kvöldið og nóttina var hnetusmjörið horfið og konunni tók að batna. Málið leystist farsællega þar sem eiginmaðurinn ungi var tilbúinn að fórna samlokunum fyrir konuna.

Grátið eftir fjöruga nótt samstarfsmanns

Önnur saga ofnæmislæknisins er ekki síður undarleg. Kona nokkur vann á skrifstofu og skyndilega brá svo við að hún var ekki fyrr komin í vinnuna suma daga en leka tók úr nefi hennar og augum. Konuræfillinn hnerraði og grét allan þann dag en hugsanlega brá svo við næsta dag að hún fann ekki fyrir neinu. Paul Erhlich var settur í málið og eftir langa leit og mikla rannsóknarvinnu komst hann að því að vinnufélagi konunnar, sem sat á móti henni, átti nýja kærustu. Og hvað með það? spyrja hugsanlega sumir. Jú, kærastan átti kött og konan hafði heiftarlegt ofnæmi fyrir köttum. Í hvert skipti sem vinnufélaginn eyddi kvöldi og nóttu með kærustunni fann konan fyrir því. Það varð fljótlega helsta skemmtun starfsfólksins að fylgjast með viðbrögðum hennar á hverjum degi og ef tárin tóku að leka var honum miskunnarlaust strítt á því að nóttin hefði verið fjörug.

En ofnæmi er langt frá því að vera skemmtun fyrir þá sem þjást af því. Orsök ofnæmis er að ónæmiskerfið, sem venjulega bregst við hættulegum aðskotaefnum sem berast inn í líkamann, fer að telja meinlaus efni hættuleg. Til að verjast gefur líkaminn frá sér efnið histamín en það orsakar þessi venjulegu ofnæmisviðbrögð eins og hóstaköst, hnerra, nefrennsli, niðurgang, kláða í augum og útbrot. Einkennin eru mismunandi eftir því í hvaða líkamshluta er verið að bregðast við aðskotaefni og hversu mikið af því hefur borist inn í líkamann. Í sumum tilfellum nægir svo örlítið magn af ofnæmisvaldinum að ekki er einu sinni hægt að greina það í smásjá.

Þótt læknar viti ekki af hverju sumir fá ofnæmi en aðrir ekki vita þeir þó að erfðir hafa áhrif á líkurnar á því að menn fái ofnæmi. Hafi annað foreldri barns ofnæmi fyrir einhverju aukast líkurnar á að það finni fyrir slíku líka. Séu báðir foreldrar með ofnæmi fyrir einhverju, og þá skiptir ekki máli hvort það er sama efnið eða sitt hvort sem kallar á viðbrögð hjá þeim, aukast til muna líkurnar á því að barnið fái einhvers konar ofnæmi. Líkurnar á að fá asma aukast einnig ef mikið er um ofnæmi í fjölskyldunni og asmi getur byrjað hvenær sem er á ævinni.

Asmi getur valdið varanlegum skaða

Þótt asmi geti verið afleiðing öndunarfærasýkinga, reykinga eða áreynslu við íþróttaæfingar, er algengara að hann stafi af ofnæmisviðbrögðum sem valda bólgum í öndunarveginum og auka slímframleiðsluna. Öndunarvegurinn þrengist þá til muna og vöðvarnir í honum dragast saman, afleiðingin er hóstaköst, þrengsli fyrir brjósti og andardráttur með sogum. Þegar asmaeinkenna verður vart verður að bregðast við þeim strax því asmi getur valdið varanlegum skaða á öndunarfærunum.

Fram að þessu hefur hvorki fundist lækning við asma né ofnæmi en vonir standa til að nýtt mótefni sem kallast anti-IgE geti lagað einkennin verulega. Nýleg rannsókn sýndi að af 300 sjúklingum með asma á mismunandi alvarlegu stigi gátu 78% þeirra sem fengu stóra skammta af lyfinu minnkað asmalyfjaskammta sína verulega eftir að þeir fengu lyfið.  57% þeirra sem voru á minni skömmtum gátu gert það sama og eru rannsakendurnir bjartsýnir á að anti-IgE muni geta haldið niðri mörgum ofnæmisviðbrögðum líka.

Hætta að vinna vegna ofnæmis

Enn er verið að þróa meðferð með anti-IgE og flestir ofnæmissjúklingum nægir ekki eitt lyf eða ein tegund meðferðar. Hægt er að taka inn lyf eins og antihistamín sem slær á ofnæmiseinkennin og í sumum tilfellum er sprautað litlum skammti af ofnæmisvaldinum í sjúklinginn í ákveðinn tíma til að byggja upp þol gegn honum en þessi aðferð dugar alls ekki alltaf. Þriðja leiðin er hreinlega að forðast alveg það sem veldur ofnæminu. Því miður er þessi síðasta lausn ekki alltaf jafn aðgengileg og kannski virðist í fyrstu. Til að mynda er ekki nokkur önnur leið fyrir þá sem hafa ofnæmi fyrir frjókornum, til að forðast þau algjörlega, en að hætta að anda.

Í sumum tilfellum hefur fólk lokið löngu starfsnámi áður en það uppgötvar að ofnæmi hindrar það í að stunda starfið. Dýralæknar geta haft eða fengið ofnæmi fyrir dýrum, múrarar eiga sumir bágt með að þola steinrykið og bændur fá heymæði. Sjálfsagt þarf ekki að tíunda það hversu slæmt það er að þurfa að skipta um vinnu á miðri starfsævi vegna sjúkdóms. Ofnæmi er að því leyti ólíkt mörgum öðrum sjúkdómum að það veldur stöðugum óþægindum og lítil von er um bata. Ofnæmissjúklingar þurfa að beita sjálfa sig aga og vera á varðbergi gagnvart því sem komið getur sjúkdómseinkennum af stað. Besti árangur sem vonast má eftir er að hægt sé að gera líðan þeirra skárri og það í sjálfu sér er mikill sigur þegar ofnæmi er annars vegar.

Helstu ofnæmisvaldar:

Á Íslandi er grasfrjó helsti ofnæmisvaldurinn og um 15% unglinga hafa ofnæmi fyrir því, kettir, hundar, rykmaurar, heymaurar, birki og túnsúra koma næst. Um 2% ungbarna hafa fæðuofnæmi og líklega um 1% fullorðinna. Aðrir algengir ofnæmisvaldar eru skelfiskur, mygla, ryk, latex-hanskar, mjólk, súkkulaði, kettir, plástrar, borðvín og ull.

Matarofnæmi eða mataróþol?

Matarofnæmi er óalgengara en margir halda. Aðeins um 1% Bandaríkjamanna þjáist af matarofnæmi og lítil ástæða er til að ætla að það sé algengara annars staðar í heiminum. Líkami manneskju sem er með matarofnæmi framleiðir histamín þegar neytt er ákveðinnar fæðu og það leiðir til sárra verkja í kviðarholi, niðurgangs, flökurleika, útbrota, nefrennslis, hnerra og asma. Sjúklingur sem er mjög slæmur af matarofnæmi getur jafnvel lent í lífshættu við að neyta örlítils magns af þeim mat sem hann hefur ofnæmi fyrir. Helstu matarofnæmisvaldar eru: egg, hnetur, hveiti, fiskur, skelfiskur, soja og mjólkurprótein.

Flestir þeirra sem finna fyrir óþægindum eftir neyslu ákveðinna matartegunda hafa s.k. mataróþol eða eru viðkvæmir fyrir ákveðnum mat. Þetta stafar af skorti á ensímum sem nauðsynleg eru til að melta ákveðnar fæðutegundir. Þeir sem þjást af laktósaóþoli til að mynda skortir þau ensím sem brjóta niður laktósa í mjólkurvörum. Mataróþol getur líka stafað af sjúkdómum í meltingarveginum eins og ristilkrampa, of háu sýrustigi í maga o.fl. Algengar tegundir matar sem valda óþoli eru: laktósi, hveiti og margar grænmetistegundir, einnig getur verið um að ræða viðkvæmni fyrir litarefnum í mat og rotvarnarefnum.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.