Hljómsveitin the Kinks kom til Íslands árið 1965. Þeir voru á hátindi ferils síns og því þótti þetta sannarlega tíðindum sæta í Reykjavík. Í raun voru þetta fyrstu alvöru rokktónleikarnir hér á landi og íslensk ungmenni létu ekki sitt eftir liggja, öskruðu, veifuðu og dönsuðu. Gott ef ekki leið yfir einhverjar unglingsstúlkur rétt eins og gerðist þegar Bítlarnir komu til Ameríku. En lagið Waterloo Sunset kom ekki út fyrr en tveimur árum seinna og hefur því ekki hljómað í Austurbæjarbíói.
Ray Davies söngvari og einn helsti lagahöfundur sveitarinnar er höfundur þessa magnaða lags. Waterloo er nafn á borgarhluta í London. Ray segist eiga góðar minningar þaðan. „Þegar ég var barn fór pabbi með mig þangað að sjá Festival of Britain árið 1951. Við vorum að horfa á Skylon-turninn þegar hann sagði: „Ég held að þetta eigi að vera framtíðin.“ Þrettán ára slasaðist ég og frá deildinni sem ég lá inni á í St. Thomasar-spítalanum var útsýni yfir ána og þinghúsið. Ég á um það sterkar minningar. Að auki skipti ég um lest í Waterloo-stöðinni þegar ég var nemendi í Croydon College of Art og ég gekk eftir Waterloo-brúnni með kærustunni minni þegar ég var unglingur.“
Þessar minningar voru að þvælast um í hugskoti Ray árum saman að hans sögn þar til skyndilega að lagið spratt fram. Honum fannst nánast eins og það hefði samið sig sjálft. Hann hefði ekkert þurft að hafa fyrir því. Hann átti stóra fjölskyldu, sex eldri systur og einn yngri bróður. Þær voru af kynslóð kvenna sem ekki gat vænst neins betra en að giftast og eiga börn. Ef þær fóru út á vinnumarkaðinn beið ekki annað er verksmiðjurnar og verkakvennalaun. Ray er fæddur árið 1944. „Þær áttu ekki að skara fram úr sem einstaklingar,“ sagði Ray seinna í viðtali, „þess vegna samdi ég lagið fyrir þær.“
Kærasti handa systurinni
„Terry meets Julie
Waterloo Station
Every Friday Night“
Segir í textanum og flestir héldu að þar væri verið að vísa til Julie Christie og Terence Stamp en þau höfðu þá nýlega slegið í gegn í kvikmynd gerðri eftir sögu Thomas Hardy, Far from the Madding Crowd. Ray hafði hins vegar í huga systur sína og framtíðar kærasta hennar. Hann fann upp þetta ágæta nafn á hann og sá fyrir sér að með honum kæmist systir hans í örugga höfn. Að auki segist hann hafa verið að fjalla um eigin kulnun. Á þessum tíma hafi hann verið kominn í þrot gagnvart vinnu sinni og lífi, fundið hversu viðkvæmur hann væri og auðsærður. Áin var táknmynd þessa stöðuga afls sem kyrrir veröldina og Ray er að telja í sig kjark. „But I don‘t need no friends. As long as I gaze on Waterloo sunset I am in Paradise.“
Svo mjög hafði hann sett sál sína í textann að hann sýndi ekki samstarfsmönnum sínum afraksturinn strax. „Ég vildi ekki sýna þeim það ef þeir færu að flissa Í staðinn spilaði ég það fyrir Jackie, frænku mína, og Rosie, systur mína, og þegar ég sagði þeim að ég vildi að þetta yrði gefið út á lítilli plötu virtust þær alveg skilja af hverju. Þegar við tókum það upp sannaði Dave, bróðir minn að hann getur stundum gert eins og ég segi honum því hann spilaði yndislegar, áhrifamiklar gítarlínur til að undirstrika veika rödd mína. Eftir það hringdi Penny Valentine, blaðamaður á Disc-tímaritinu í mig og sagði: „Þú verður að gefa þetta út á lítilli plötu þetta á eftir að vera massívur smellur.““
Og það gekk eftir. Lagið hefur yfirbragð sakleysis, hreinleika og viðkvæmni en eftir því sem líður á vex styrkurinn. Mick Avery var trommuleikari The Kinks og hann segir að þrátt fyrir að oft væri ósamkomulag og innbyrðis deilur í hljómsveitinni hafi menn verið algjörlega sammála þegar kom að Waterloo Sunset. Þeir hafi allir komið saman og einhver samhljómur skapast. Fyrst var reynt að taka lagið upp með píanóundirspili en því var skipt út fyrir gítarinn og Dave, bróðir Ray spilaði.
„Lagið hefur yfirbragð sakleysis, hreinleika og viðkvæmni en eftir því sem líður á vex styrkurinn. Mick Avery var trommuleikari The Kinks og hann segir að þrátt fyrir að oft væri ósamkomulag og innbyrðis deilur í hljómsveitinni hafi menn verið algjörlega sammála þegar kom að Waterloo Sunset.“
Heillaði Jimi Hendrix
Lagið skaust strax upp í fyrsta sæti vinsældalistans og hefur fyrir löngu orðið ein af klassískum perlum rokksögunnar. Ray minnist þess með hlýju að skömmu eftir að lagið kom út hitti hann Jimi Hendrix í Top of the Pops-þættinum sem þá var mjög vinsæll í Bretlandi. Jimi sagði við hann: „Maður, ég elska lagið þitt.“ Og spilaði svo Waterloo Sunset á gítarinn. Það var sannarlega ekki lítið afrek að ná að heilla sjálfan snillinginn, Jimi Hendrix.
En þrátt fyrir að Waterloo Sunset hafi skapað Ray Davies bæði nafn og umtalsverðan auð hefur það ekki að öllu leyti verið honum til gæfu. Hann segir að það hafi staðið honum að vissu leyti fyrir þrifum eftir að hann hóf sólóferil sinn. Öll lög sem hann hafi samið og flutt eftir að það kom út hafi verið borin saman við það og ýmist sagt að þau nái nú ekki þeim hæðum sem Waterloo Sunset hafi náð eða að þau standi því nærri jafnfætis
Þegar Rolling Stone valdi fimm hundruð bestu lög allra tíma var það númer 42 og London Time valdi það lofsöng Lundúnaborgar enda segja menn sem þekkja og unna borginni að þetta lag endurspegli algjörlega sólarlagið á Thames-ánni og útsýnið frá brúnni. Að ganga þarna um að kvöldlagi með ástinni sinni sé bæði rómantískt og ógleymanlegt.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.