Sölvi Sveinsson fyrrverandi skólameistari

Sölvi Sveinsson fyrrverandi skólameistari ákvað að hætta að vinna á meðan hann hefði enn vit og heilsu „sem ég tel mig hafa enn þá,“ segir hann glaðhlakkalega þegar Lifðu núna hafði samband við hann til að forvitnast um hvar hann væri nú.

Sölvi er sagnfræðingur að mennt, fæddur á Sauðárkróki. Hann lauk BA prófi í íslensku og sagnfræði frá Háskóla Íslands og cand mag prófi frá sama skóla. Hann starfaði hjá Alþingi og síðan við kennslu í Hagaskóla, Laugalækjarskóla og Fjölbrautaskólanum við Ármúla frá stofnun hans og var skóla­meistari þar frá árinu 1998 til ársins 2005 þegar hann varð skólastjóri Verzlunarskóla Íslands. Hann lét af störfum 2008 og fór að vinna hjá menntamálaráðuneytinu. Þá var hann kallaður til starfa hjá Landakotsskóla og var skólastjóri þar í fjögur ár. „Ég ætlaði alltaf að hætta að vinna þegar ég yrði sextugur því þá gat ég farið á eftirlaun. En svo var ég beðinn um að koma og stjórna Landakotsskóla og það gerði ég í fjögur ár. Þá fannst mér komið nóg og ákvað að hætta.“

Sölvi segir að honum hafi ekki þótt erfitt að hætta að vinna. „Ég hlakkaði til að fara að gera það sem hugurinn stóð til. Það er gott að ráða tíma sínum sjálfur. Afstaða manns til tímans breytist við það. „Í dag kemur fyrir að ég þurfi að að hugsa mig um þegar ég er spurður hvaða dagur sé.“

Skólameistarinn fyrrverandi hefur ekki setið auðum höndum síðan hann hætti í föstu starfi. Sölvi hefur skrifað fjöldann allan af greinum og fræðibókum um íslenskt mál. Má þar nefna Íslenska málsögu, Sögu orðanna, Táknin í málinu, Geymdur og gleymdur orðaforði svo einhverjar séu nefndar.„Svo hef ég verið að skrifa um merkilega Skagfirðinga greinar sem birst hafa í Skagfirðingabók. Ég skrifaði til dæmis um Harald Júlíusson kaupmann á Króknum og Ole Bang lyfsala. Maður þarf að hafa eitthvað fyrir stafni.“ Sölvi segist yfirleitt vera með tvær til þrjár bækur í smíðum í einu. „Maður sér svo til hvað verður úr þessu hjá manni. Hann segist hafa velt því fyrir sér að skrifa skáldsögu. „Þegar ég var að vinna gat maður ekki leitt hugann að því þá þurfti maður skrifa eitthvað sem var kaflaskipt. Það varð að vera hægt að sjá fyrir endann á verkefninu. Þá kom ekki til greina að hugsa um langan texta þar sem þarf að liggja yfir textanum endalaust og hugsa hann frá upphafi til enda.“

Sölvi er giftur Magneu Jóhannsdóttur og þau hafa mikið yndi af ferðalögum. „Fyrir allmörgum árum fórum við til Nepal að ganga. Síðan höfum við reynt að fara á staði sem eru ekki í alfaraleið, Jemen, Sýrland og Jórdaníu, Víetnam, Íran og í haust hjóluðum við Jakobsveginn. Við fórum ekki hina hefðbundnu leið sem flestir þekkja frá Roncesvalles í Frakklandi heldur fórum við Silfurleiðina svokölluðu en hún er 200 kílómetrum lengri og upphafsstaðurinn er Sevilla en endastöðin sú sama á báðum leiðunum, Santiago De Compostela. Þetta voru 1010 kílómetrar sem við hjóluðum á 15 dögum. Þetta var reglulega gaman og lærdómsríkt en andskotans puð. Síðast liðinn vetur dvöldum við í mánuð á Bali. Bali er dýrðarstaður hér á jörð og þar er einstaklega gott að vera.“

 

 

 

 

Ritstjórn desember 19, 2018 08:00