Ævintýri í Amsterdam

Að fljúga að Schiphol-flugvelli var mjög sérstök upplifun. Síkin þræða sig á milli akra og túna og fljótabátar líða eftir þeim eins risastórir kútar. Víðfeðm gróðurhús breiða úr sér og á stórum ökrum eru lítríkir traktorar að plægja eða uppskera. Alls staðar iðandi mannlíf.

Amsterdam er vinaleg og hlý við fyrstu sýn. Byggingastíllinn minnir að sumu leyti á Kaupmannahöfn og síkin ýta undir þá tilfinningu og stundum er engu líkara en verið sé að ganga niður að Nørrebro. Hollendingar eru greinilega miklir aðdáendur sætinda og hér eru bakarí, pönnukökuhús og sælgætisverslanir á öðru hverju horni.

Menn hjóla milli staða í þessari borg og það þarf virkilega að passa sig á hjólreiðamönnunum því þeir hægja ekki á sér og hjóla hiklaust áfram þótt gangandi fólk sé að reyna að komast yfir hjólastígana. En margt er óskaplega heillandi. Fallegar byggingar, síkin iðandi af bátum og lífi, notaleg stemningin yfir mannlífinu og ótal ostabúðir þar sem má smakka og anda að sér ilminum af eðalostum.

Glasaglaumurinn þagnaði

Veitingastaðurinn Pasta e Basta er með þeim vinsælustu í borginni og ekki að ástæðulausu. Þar þjóna söngnemar til borðs og bresta í söng milli þess sem þeir færa svöngum gestum rétti. Matseðillinn er fastur en hægt að velja milli þess að fá fjóra eða fimm rétti. Þetta er ítalskur matur og flestir ættu að geta notið hans. Allir söngvararnir voru frábærir og ekki bara vegna þess að raddir þeirra væru góðar heldur einnig vegna þess hve þau nutu þess að koma fram, gefa af sér.

Þau sungu slagara og vinsæl lög sem flestir þekkja. En svo var Sara kynnt til leiks. Hún er óperusöngkona og fyrst söng hún Si mi chiamano Mimi úr La Bohéme. Fyrir mér var það hápunktur kvöldsins. Um leið og fyrstu tónarnir heyrðust og tær, hljómfögur sópranröddin fyllti rýmið datt allt í dúnalogn. Glasaglaumurinn og diskaglamrið þagnaði og fólk hlustaði með andakt. „Sì. Mi chiamano Mimì, ma il mio nome è Lucia“ heitar tilfinningar og sorg endurspeglast í söngnum. Ung kona er að kynna sig fyrir ástvini sínum, hún leggur allt undir, mun hann skilja hver hún er, hvað hún hefur gengið í gegnum og samt elska hana? Það er óhætt að mæla með Pasta e Basta eigi menn leið um Amsterdam.

Ríkislistasafnið í Amsterdam er stórkostlegt og enginn ætti að sleppa því að fara þangað.  Safnið er gríðarstórt og ótrúlega margt fallegt þar að finna. Hápunktarnir voru auðvitað Næturverðir Rembrandts, Mjólkurkönnustúlkan hans Vermeer og dúkkuhúsin. Þau eru ótrúleg. Það var í tísku á sautjándu öld meðal ríkra kaupmannskvenna að innrétta dúkkuhús og búa til nákvæma eftirlíkingu af eigin heimili. Skáldsagan Smámyndasmiðurinn eftir Jessie Burton segir einmitt frá ungri stúlku, Nellie, sem giftist vellauðugum kaupmanni í Amsterdam og hann gefur henni slíkt hús í brúðkaupsgjöf og brátt taka að berast sendingar smámynda til hennar sem einmitt eru eftirlíkingar af innanstokksmunum heimilisins. Nellie er hins vegar ekki hamingjusöm og margt dularfullt á nýja heimilinu. En þessi hús eru einstök, bæði að utan sem innan. Annað þeirra er úr fágætum og vönduðum viði, innlögðum með málmskrauti. Hver einasti hlutur innan í því er svo haganlega smíðaður og unninn að unun er á að horfa.

Hagleikur og hugmyndauðgi mannsins

Það er líka merkilegt hvað það er mikil upplifun að líta með eigin augum listaverk sem maður hefur margoft skoðað ljósmyndir af. Það er einhvern veginn allt önnur skynjun. Birtan í verkunum, lífið í þeim og tilfinningin verður svo sterk. Það er magnað að fá að njóta þess að ganga um sali safna og eiga aðgang að þessum stórkostlegu sköpunarverkum.

Postulínið í safninu er aðdáunarvert. Litirnir, gljáinn, mynstrin og listfengið sem hefur þurft til að skapa þessa muni. Skipslíkönin eru líka óskaplega fallega unnin. Eitt þeirra var með aðstoð gervigreindar fyllt af áhafnarmeðlimum sem gengu um, skúruðu dekkið, fylltu tunnur, töluðu saman og dyttuðu að seglum. Það var stórkostleg reynsla að horfa á þessa mjög svo eðlilegu pínulitlu kalla ganga þarna um. Mér datt auðvitað fyrst í hug litlu karlarnir sem maður hélt sem barn að væru inni í útvarpinu að tala, þarna voru þeir sem sé komnir í fulla vinnu við hollenska galeiðu.

Garðarnir fyrir utan listasafnið eru yndislegir. Við vorum reyndar svo óheppin að túlípanarnir voru við það að klára sinn blómgunartíma en það hefði verið dásamlegt að vera nokkrum dögum fyrr og sjá þá nýútsprungna í allri sinni litadýrð. Engu að síður var óskaplega friðsælt og gott að rölta um garðana, setjast á bekk og njóta þess að horfa á gosbrunnana senda sína gusur upp í loftið.

Á siglingu í 118 ára báti

Allir ættu líka að rölta niður að bakka Amstel-árinnar og njóta útsýnisins. Áin er breið og mikil og sker borgina í tvo hluta. ferjur ganga fram og til baka milli bakkanna og það er ókeypis að taka sér far með þeim. Meðal þess sem við blasir er A’Dam-turninn, ein hæsta bygging í borginni en þaðan er útsýni yfir hana alla og sumir segja að á góðum degi megi sjá allt Holland. Efst á turninum trónir glerhýsi og þar er veitingastaðurinn Moon. Hann býður upp á fyrsta klassa máltíðir, ótrúlegt útsýni og rólur fyrir þá huguðustu sem vilja sveifla sér fram og aftur í 100 m hæð.

Þeir jarðbundnu kjósa frekar, og við vorum í þeim hópi, að panta sér siglingu með kvöldverði um síkin. Báturinn Henry Schmitz er 118 ára gamall og ber aldurinn einstaklega vel. Hann var byggður árið 1906 í skipasmíðastöð Jean Scmitz í Königswinter í Þýskalandi. Í fyrstu var hann nýttur í ferjusiglingar á Rínarfljóti en þegar eigandi hans keypti stærri bát einhvern tíma á sjöunda áratug síðustu aldar var Henry Schmitz lagt í slippstöðinni. Þar sat hann gleymdur og vanræktur í þar til Hollendingur nokkur kom auga á hann og fékk þá frábæru hugmynd að gera hann upp. Þetta var árið  2000 en öllu innra byrði bátsins var haldið eins og hægt var. Þegar vandað er til verka í upphafi er það þess virði en báturinn er allur innréttaður með mahóní og tekki. Barinn er koparlagður og hinn glæsilegasti.

Skipstjórinn okkar var endurskoðandi á eftirlaunum. Hann keypti sér skip þegar hann hætti störfum og seldi fyrirtækið sitt, sótti sér skipstjórnarréttindi en leiðsegir og siglir í svona túrum vegna þess að hann hefur gaman af því. Hann fer fimm túra í mánuði og kennir einnig í siglingaskóla í Amsterdam.

Andrúmsloftið um borð er notalegt og allir sitja það nálægt hver öðrum að óhjákvæmilegt er að kynnast aðeins sessunautum sínum og það eykur auðvitað ánægjuna. Næst okkur var par frá Washington DC í rómantískri ferð og við hliðina á okkur breskar mæðgur. Heimsókn til Hollands var á bucket lista móðurinnar. Þær voru greinilega alsælar með allt og gaman að fylgjast með þeim.

Horbrúin og miðalda flutningaskip

Skipstjórinn benti okkur á ýmsar merkilegar byggingar og sagði frá sögu þeirra. Meðal þeirra var sjóminjasafn þeirra Hollendinga. Glæsileg bygging og þar innandyra má fræðast um 500 ára sjóferðasögu Hollendinga. Þarna er að finna muni tengda sjóferðum, kort, siglingatæki, myndir og frásagnir. Kóróna safnsins er þó án efa eftirgerð af Austur Indíafarinu Amsterdam sem stendur fyrir utan safnið. Þetta er glæsilegt flutningaskip og á mektarárum Austur-Indía félagsins voru þetta stærstu skip sem sigldu um heimsins höf. Þau voru kölluð carracks en ekki virðist til íslenskt orð yfir þessa tegund skipa.

Annað mannvirki sem hann benti okkur á er hin svokallaða, Horbrú, eða Magere Brug. Þetta brú yfir Amstel-ána. Fyrsta brúin sem byggð var á þessum stað var byggð árið 1691 og sagan segir að systur tvær sem bjuggu hvor á sínum árbakkanum hafi látið byggja hana til að gera heimsótt hvor aðra á hverjum degi. Fjárhagur þeirra var takmarkaður og þess vegna var brúin sem þær byggðu mjó eða þröng og þess vegna fóru borgarbúar fljótlega að kalla hana mögru brúna eða horbrú. Staðreyndin er hins vegar sú að upphaflega hafði verið teiknuð breið og glæsileg steinbrú sem til stóð að byggja. Það var á helstu velmektartímum Hollendinga en svo kom kreppa og borgaryfirvöld þurftu að skera verulega niður plönin. Þá kom nafnið til. Við látum hins vegar staðreyndir ekki flækjast fyrir góðri sögu. Sú sem nú stendur var vígð árið 1934 og er úr timbri. Hún var endurnýjuð árið 1969 og í dag er aðeins leyfð umferð gangandi og hjólandi um hana.

Það er merkileg tilfinning að sigla eftir hollensku síki. Báturinn líður áfram og það er varla að farþegar finni fyrir hreyfingunni. Víða við árbakkann eru bundnir húsbátar og stundum sést inn um gluggana fólk að borða, spila, horfa á sjónvarp eða láta líða úr sér í sófanum. Húsbátarnir eru vinsælar íbúðir og þeir dýrustu kosta í kringum 155 milljónir. Margir kjósa þennan búsetumáta og eru himinánægðir þótt plássið sé óneitanlega í flestum tilfellum heldur minna en í venjulegum íbúðum. Á fimm ára fresti eru húsbátarnir teknir upp, botninn hreinsaður og þeir yfirfarnir hátt og lágt. Eigendur bera kostnaðinn af þeirri skoðun og þetta viðhald er hluti af því ævintýri að búa um borð í bát. Sumir bátanna eru færanlegir og eigendur sigla á þeim um síkin af og til en aðrir eru einfaldlega fastir þar sem þeir eru.

Maturinn um borð Jewel Cruise Amsterdam, Henry Schmitz, var dásamlegur og nóg af ánægjulegum smáatriðum sem auka á vellíðunina. Tauservíettur á borðum í gylltum servíettuhringjum. Kampvínsglas í boði þegar komið var um borð með hnetusnakki og ólífum. Óvænt kom svo milliréttur, heit tómatsúpa og bitterballen, gómsætar hollenskar kjötbollur. Fyrst er búin til þykk kássa með osti, kjöti og hrísgrjónum, blandan fryst og tekin út. Þá rúllað upp í kúlur og þær djúpsteiktar. Þetta er einstaklega ljúffengt. Það var vel við hæfi að enda dvölina í Amsterdam á þessu og kveðja borgina frá þeim samgönguæðum sem byggðu upp blómlegt siglinga- og verslunarveldi Hollendinga á miðöldum.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn maí 9, 2024 07:00