Árni Sigfússon gaf út yfirlýsingu um að hann væri hættur í stjórnmálum þegar hann var 65 ára. Lifðu núna ræddi við Árna af þessu tilefni. Hann skilgreinir sig ekki sem eldri borgara en er mjög sáttur við að vera búinn að ná þessum aldri og veit að það byggist fyrst og fremst á honum sjálfum hversu skemmtilegt þetta tímabil getur orðið.
„Hvert ár, hvert tímabil í lífi okkar getur verið upphafið að einhverju nýju og spennandi,“ segir Árni. „Ólíkt forfeðrum okkar þekkjum við í dag gildi hreyfingar og góðs mataræðis og getum gert allnokkuð sjálf til að okkur líði vel þegar árunum fjölgar,“ segir Árni. „Nú vitum við til dæmis að sykur er ein stærsta ástæða lífsstílssjúkdóma og við verðum að huga betur að sem samfélag. Við getum auðvitað sjálf hugsað hvert og eitt um fyrirbyggjandi aðgerðir til að efri árin verði sem ánægjulegust,“ segir Árni en þau hjónin hafa verið dugleg í gegnum tíðina að beina athyglinni að heilsunni og skemmtilegum verkefnum sem þau vita að skipta máli fyrir samfélagið og afkomendur sína.
Samvera og framlag til barnabarna er gefandi og nærandi og gefur stöðugt til baka. „Ég hvet alla sem þess eiga kost og eiga barnabörn að njóta sem mest samvista við þau, fylgjast með þeim þroskast og dafna. Það er mikilvægt að vera virkur afi og amma, eiga vini í barnabörnunum og tækifæri til að verða betri manneskja í dag en í gær. Barnabörnin eru okkur mjög hjartfólgin og stundirnar með þeim gefa margfalt. Við Bryndís hlökkum til að eldast með þeim og það er okkur sterkur hvati að viðhalda hamingju og heilbrigði,“ segir Árni.
Minnkuðu við sig
Eiginkona Árna er Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur. Þau byggðu sér nýlega hús á einni hæð í Innri Njarðvík þar sem þau leggja kapp á að lifa og njóta með fjölskyldu og vinum. Með flutningnum var markmiðið m.a. að minnka fermetrafjölda íbúðarhúsnæðisins um leið og allt það sem þau telja að skipti máli til framtíðar var vel skipulagt í húsinu. Útsýni er stórkostlegt og aðstaða til útivistar við sjávarsíðuna í Reykjanesbæ. Öll aðstaða til að viðhalda heilsusamlegu líferni og slökun í framhaldi af góðri hreyfingu var mikilvæg í þeirra huga. Þá er góð aðstaða fyrir börnin og barnabörnin að gista þegar þau koma en það kemur sér vel þegar elsta dóttirin, Aldís Kristín, kemur með sitt fólk í heimsókn frá Bretlandi þar sem þau búa. Hin börnin þrjú, Védís Hervör, Guðmundur Egill og Sigfús Jóhann, búa nær en barnabörnin sækja mikið í „sveitina“ til ömmu og afa.
Munaður að geta unnið áfram við skemmtileg verkefni
„Ég hét því þegar ég hætti í pólitíkinni að nú skyldi ég vinna bara við það sem ég hef gaman af,“ segir Árni. „Það er mikill munaður. Ég sé auðvitað alls ekki eftir þessum árum sem fóru í pólitíkina og hafði meira og minna gaman af öllu sem ég kom að. Mig dreymdi um að hafa áhrif á samfélag sem ég vildi sjá með ákveðnum hætti og þá eru stjórnmálin auðvitað góð leið til að hafa slík áhrif. Ég byrjaði mjög snemma að marka mér þessa leið og sé ekki eftir því.“
Árni segist hafa brynjað sig snemma fyrir skítkasti sem oft fylgi stjórnmálunum, en öðru máli gegndi um fókið í kringun hann, eins og stjórnmálamenn komist gjarnan að. „Það komu þeir tímar þegar ég þurfti að staldra við og ræða við mína nánustu um það hvort þetta væri eftirsóknarvert. Niðurstaðan var sú að ég hélt áfram og sé ekki eftir því. Þetta er búinn að vera langur tími eða allt frá 1986. Ég fór út í nám 1984 þar sem ég nam opinbera stjórnsýslu, til 1986 og fór þá í borgarstjórn í Reykjavík og hef verið viðloðandi stjórnmálin síðan.“
Reykjanesbær kallaði
Eftir að Árni hætti í borgarstjórn 1999 nálguðust hann málsmetandi aðilar á Reykjanesi með ósk um að hann yrði bæjarstjóraefni sjálfstæðismanna í kosningunum vorið 2002. Árni segir að það hafi tekið nokkrar vangaveltur með fjölskyldunni á þeim tíma, en hann sá strax tækifærin sem blöstu við, en það var ekki sjálfsagt að söðla svona um.
Eftir að hafa farið í bíltúr til Keflavíkur með fjölskylduna varð þó úr að hann ákvað að taka slaginn. „Strákarnir mínir tveir hristust aftur í og Bryndís í framsætinu. Eins og aðrir Íslendingar hafði ég farið ótal ferðir um Reykjanesbrautina til að fara til útlanda og til baka en alltaf fram hjá bænum. Þarna var ég kominn í rannsóknarleiðangur inn í bæinn með fjölskylduna og það er skemmst frá því að segja að ég villtist og var allt í einu kominn á holóttar, ómalbikaðar götur í gamalgrónum hverfum. Þá heyrðust lágróma raddir úr aftursætinu: „Pabbi, ertu alveg viss um að þetta sé góð hugmynd.“ Ég hugsaði þetta alveg öfugt, sá strax tækifærin sem blöstu við og hlakkaði til að takast á við þau og eftir samræður um möguleikana sem í þessu fólust varð úr að ég ákvað að fara í forystuframboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjanesbæ. Í framhaldi af öflugum sigri tók ég svo við starfi bæjarstjóra. Við höfðum þá þegar flutt til Reykjanesbæjar og hér hefur verið gott að vera,“ segir Árni.
Kennaramenntaður í grunninn
Árni segist hafa komið auga á, með fólkinu í bænum, að til að byggja upp þetta samfélag, sem var fjárhagslega illa statt, væri nauðsynlegt að byrja á byrjuninni og efla innviði, ekki síst menntakerfið á staðnum. „Sveitarfélagið hafði ekki komið vel út úr samræmdum prófum í áraraðir en okkur tókst vel til við að efla skólakerfið og aðbúnað barna. Ég er úr mikilli kennarafjölskyldu og fór fyrst í kennaranám. Mér var ljóst að til að laða fjölskyldufólk að bænum var nauðsynlegt að geta sýnt fram á öflugt grunnskólakerfi. Það tók okkur sjö ár að komast í hóp sveitarfélaga sem skilaði hvað bestum árangri í grunnnámi á landsvísu. Leikskóli og grunnskóli eru lykillausnirnar í að byggja gott framtíðarsamfélag. Fyrir bjuggu hér 11.000 manns en íbúafjöldinn er nú tæplega 20.000 því hér eru næg tækifæri fyrir öflugt fólk. Menntun er grunnur að því að skapa jöfnuð fyrir framtíðina. Barn sem fær gott atlæti og góðan grunn að málþroska og hugtakaskilningi, strax frá leikskólaaldri á bjarta framtíð.“
Varnarliðið fór og 1100 störf töpuðust
Árni segir að erfiðasta verkefnið í tíð sinni sem bæjarstjóri hafi verið að takast á við erfiða fjárhagsstöðu um leið og mjög mikilvægt var að hugsa til framtíðar og byggja upp. „Mitt í okkar vinnu varð samfélagið allt fyrir áfalli þegar um 1100 manns töpuðu vinnunni í einni svipan þegar Varnarliðið fór árið 2006. Alvarleiki málsins einkenndist að sjálfsögðu af því hversu margar fjölskyldur áttu allt sitt undir. Sveitarfélagið var fjárhagslega illa statt og hver ætlar að lána þeim sem eiga enga peninga? En þetta kallaði á miklar fjárfestingar. Áfram skyldi haldið og framtíðarmarkmiðin voru ennþá mikilvæg. Þetta var erfitt en skýr markmið og framtíðarsýn leiddi okkur áfram. Okkur tókst að styrkja alla grunninnviði og leggja mikilvægar stoðir til framtíðar og nú er staðan orðin ótrúlega góð miðað við þessa baráttusögu,“ segir Árni. „Það er hvergi betra að búa en hér að mati okkar Bryndísar,“ segir Árni og er ánægður með sinn heimabæ.
Þeir tekjuhæstu bjuggu annars staðar
Árni segir að áður hafi tilhneigingin verið sú að þeir sem stýrðu stóru fyrirtækjunum og höfðu hæstu launin bjuggu annars staðar. „Þetta voru fyrirtæki sem sneru að fluginu, stórum útgerðum upp úr 1970 og Varnarliðinu. Þeir bjuggu flestir í Garðabæ, Hafnarfirði eða Reykjavík. Venjulegur launamaður bjó aftur á móti hér sem þýddi að meðaltekjur voru lægri og útsvar sömuleiðis. Með eftirsóknarverðara samfélagi er þetta nú vonandi að breytast.“
Lífeyrismálin – verður að breyta fyrir 65 ára aldur
Árni og Bryndís eru dæmi um hjón þar sem annað hjónanna hefur verið tekjuhærra en hitt sem hefur skapað misræmi í lífeyrismálum. „Við fórum að velta þessu fyrir okkur þar sem við erum komin á þennan aldur og sóttum mjög gagnlegt fræðslunámskeið hjá Íslandsbanka. Við vissum að lífeyrisréttindi okkar væru gífurlega ólík en grunnurinn er sá að ég hef í gegnum árin safnað meiri lífeyrisréttindum en Bryndís. Þótt við séum jafnréttissinnuð á heimili þá bar hún börnin með tilheyrandi hléum frá vinnumarkaði og ég gat eðlilega ekki mikið komið þar að. Þar að auki tók hún að sér samfélagsverkefni sem ég studdi eindregið en þau voru ekki að skapa henni há laun eða háar lífeyrissjóðsgreiðslur. Þetta eru þó verkefni á sviði uppeldis og þroska fyrir íslensk börn sem við erum mjög stolt af. Þegar upp var staðið sat eftir mun minni grunnlífeyrir hjá henni en hjá mér. Við fengum þær upplýsingar að það væri hægt að jafna þessi réttindi og það er auðvitað ekkert nema sanngjarnt. Við höfum lifað saman öll þessi ár og þá á ekki að skipta máli hvar réttindin höfðu safnast. Við völdum að fara þá leið að jafna réttindin sem þýddi að ég lækkaði í lífeyrisréttindum og hún hækkaði. Líklega er þetta eitt stærsta jafnréttismálið sem hjón geta framkvæmt á eigin vegum! Það eru allt of fáir sem átta sig á þessu og enn og aftur er það hópurinn sem ber gæfu til að afla sér upplýsinganna sjálfur og svo hinn sem flýtur áfram óafvitandi um réttindi sín. Svo eru fleiri réttindamál sem eru þess eðlis að við þurfum sjálf að vera vakandi og leita eftir upplýsingunum. Það er með fjármálin eins og heilbrigðismálin að við þurfum sjálf að vera meðvituð og bera ábyrgð á eigin lífi. Gætum þess að undirbúa okkur vel og þá verða efri árin ánægjulegri,“ segir Árni. Hann er enn mjög virkur og hefur tekið að sér ýmis stefnumótunarverkefni á Reykjanesi, m.a. fyrir Bláa lónið og aðra aðila sem eru í merkilegu uppbyggingarstarfi á Reykjanesinu.
Ekki endalok, heldur skemmtilegt framhald
Árni segir að sífellt fleiri séu að átta sig á því að það eru engin endalok fram undan þótt árunum fjölgi, heldur skemmtilegt framhald ef rétt er á málum haldið. „Eins og sannast hefur sjáum við að margir hafa aukin tækifæri á þessum aldri með auknum þroska og þekkingu, fyrir utan það vonandi að vera efnalega ágætlega stæðir, eins og hagtölur sýna. Af hverju ættum við þá ekki að nýta allt þetta til að skapa samfélaginu aukin verðmæti frekar en senda fólk heim í aðgerðarleysi með tilheyrandi kostnað fyrir lífeyris- og heilbrigðiskerfið?“
Er bara 65 ára
Árni segir að það sé í raun fáránlegt að viðhorf til 65 ára fólks sé enn fremur neikvætt gagnvart störfum. „Nú sjáum við að stór hluti fullfrískra Íslendinga er að fara inn á þetta aldursskeið. Það þýðir að hærra hlutfall er að fara að sækja lífeyrinn sinn. Stór hópur er að fara af vinnumarkaði nema við breytum því og þeir eru annars allir að fara að sækja í „sjóðinn“ sem stöðugt færri standa þá undir. Þar er að verða til risavandamál sem ætti að knýja stjórnvöld til að galopna fyrir atvinnuþátttöku þeirra sem komnir eru á þennan aldur,“ segir Árni.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.
Viðtalið birtist fyrst á vef Lifðu núna í september 2021