Starfshópur um framgang og eflingu dagdvala á landsvísu

Rannsóknir hafa sýnt að fólki líður almennt betur og það heldur lengur heilsu sé því fært að búa á eigin heimili langt fram eftir aldri. Liður í því að tryggja að fólk geti verið heima er að það hafi aðgang að dagdvöl. Stað þar sem það getur verið yfir daginn, notið félagsskapar, aðstoðar og matar. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur skipað starfshóp til að vinna að framgangi aðgerðar A.3 í áætluninni Gott að eldast sem fjallar um eflingu og þróun dagdvala á landsvísu. Fréttatilkynning þess efnis birtist á síðu stjórnarráðsins í dag. Í henni segir:

Áformað er að gera fleirum kleift að nýta dagdvalarþjónustu, m.a. með öflugu samstarfi milli dagdvala og heimaþjónustu sveitarfélaga. Markmiðið er að koma sem best til móts við þarfir eldra fólks sem býr heima og fjölskyldur þess, sem eykur möguleika einstaklinganna á að búa lengur heima í stað þess að flytja á hjúkrunarheimili.

Gott að eldast, er aðgerðaáætlun stjórnvalda vegna áranna 2024-2027 um þjónustu við eldra fólk, sem samþykkt var á Alþingi þann 10. maí 2023. Alls telur hún 19 aðgerðir sem eru ýmist á ábyrgð heilbrigðisráðuneytisins eða félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins sem standa saman að aðgerðaáætluninni. Sveigjanlegri þjónusta

Starfshópnum er m.a. ætlað að endurskilgreina hlutverk dagdvala og markmið þjónustunnar þannig að hún styðji betur við þarfir fólks. Einnig að skýra hverjum þjónustan er ætluð og hvernig mat á þjónustuþörf skuli framkvæmt. Hópurinn á einnig að greina þörf fyrir almenn og sérhæfð dagdvalarrými og sömuleiðis þörf fyrir dagdvalarþjónustu með sveigjanlegan og/eða lengri opnunartíma. Á þessum grunni verði unnið að samningum um sveigjanlegum dagdvölum um allt land og að minnst 100 slík rými verði komin í notkun fyrir árslok 2027.

Starfshópurinn er þannig skipaður:

  • Þura B. Hreinsdóttir, fulltrúi Gott að eldast, formaður hópsins
  • Stefán Jóhannsson, tilnefndur af Sjúkratryggingum Íslands
  • Sigurjón Norberg Kjærnested, tilnefndur af Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu
  • Hrönn Ljótsdóttir, tilnefnd af Landspítala, félagsráðgjafasviði
  • Lilja Petra Ólafsdóttir, tilnefnd af velferðarsviði Reykjavíkurborgar, heimaþjónustu
  • Berglind Magnúsdóttir, fulltrúi Gott að eldast
  • Elsa B. Friðfinnsdóttir, án tilnefningar.

Starfsmaður hópsins er Herdís Björnsdóttir, fulltrúi Gott að eldast

Starfshópurinn skal taka til starfa 1. nóvember 2024 og skila tillögum sínum til ráðherra eigi síðar en 1. mars 2025.

Ritstjórn nóvember 2, 2024 07:00