Ekki hægt að búa einn heima án góðrar þjónustu

„Mikið hefur verið rætt að undanförnu um að það skorti hjúkrunarrými fyrir eldra fólk, um að Landsspítalinn sé yfirfullur og að fjármuni vanti til að reka hjúkrunarheimili. Þessi umræða snýst öll um eldri kynslóðina, þá sem byggðu upp þetta samfélag“ Þetta segir í ályktun sem Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni samþykkti í dag. Þar segir einnig að flestir að þessari kynslóð hafi ákveðið að fylgja þeirri opinberu stefnu að fólk skuli búa heima eins lengi og kostur er. Gildi þess að búa heima sem lengst sé mikið, en til þess að það sé unnt verði að tryggja að það sé mögulegt, þegar heilsan fer að bila. Að heimaþjónusta, heimahjúkrun, sjúkraþjálfun dagþjálfun og hvíldarinnlagnir séu til staðar og virki áður en að að því kemur að fólk þarf að fara á hjúkrnarheimili.

Brotalamir í þjónustunni

Í ályktuninni segir að ef þjónustan sé ekki til staðar sé stefnan um að búa heima sem lengst, orðin tóm. Því miður séu brotalamir í þessu kerfi og úrræði vanti. Ennfremur segir orðrétt:

Það er til dæmis eins árs biðtími eftir dagþjálfun á Múlabæ. Hvíldarinnlagnir eru ekki nægjanlega margar og bið eftir þeim. Skortur á hjúkrunarheimilisrými er þó það sem kemur verst niður á elstu kynslóðinni, því rýmum í Reykjavík hefur ekki fjölgað árum saman. Mörg loforð hafa verið gefin, en innistæða fyrir þeim er engin. Þeir sem eru komnir með færni- og heilsumat þurfa oft að bíða mánuðum saman, sérstaklega ef fólk sækir um vistun á einum ákveðnum stað.

Stjórn Félags eldri borgara skorar á stjórnvöld að standa við það sem stendur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. „Aldraðir skulu njóta öryggis og velferðar og öllum skal tryggð hlutdeild í þerri verðmætasköpun sem Ísland og íslenska þjóðin gefur af sér“.

 

Ritstjórn janúar 12, 2016 19:02