Stelpurnar hættu gersamlega að túpera hárið

Hver man ekki eftir bítlaæðinu fyrir rúmum fimmtíu árum. Flestir biðu með öndina í hálsinum fyrir framan útvarpstækið, eftir að heyra nýjustu Bítlalögin í þættinum Lög unga fólksins. Þvílík spenna. Stákarnir vildu láta hárið síkka og stelpurnar langaði í stutt pils.  Nýjar hljómsveitir skutu upp kollinum sem fluttu bítlamúsíkina fyrir unglingana, Dátar Tempó, Bravó, Toxic og hvað þær hétu nú allar þessar hljómsveitir, að ógleymdum Hljómum náttúrulega.  Þetta féll í misjafnan jarðveg hjá foreldrum og skólayfirvöldum. Í bókinni Rokksaga Íslands eftir Gest Guðmundsson segir meðal annars:

Það var flestum ráðgáta hvernig bítlatöffararnir náðu í fötin sín. Þau virtust ekki vera til sölu í neinni búð. Einn daginn bárust þó þær fréttir að bítlaskór fengjust í Rímu og P.& Ó var víst með jakkaföt eins og Bítlarnir báru á þekktri ljósmynd. En þau kostuðu margfalt meira en praktísku skólafötin sem mamma hafði valið á mann um haustið og á flestum heimilum voru háðar harðar sennur um það hverju væri tilhlýðilegt að offra á bólugrafna unglingana. Helstu bítlagæjarnir reyndust hafa sambönd við fólk sem fór til útlanda og á þessum misserum var það fulls ígildi að eiga liðlegan frænda í siglingum, hvað þá systur sem var flugfreyja. Um vorið var háð langvinn styrkjöld á flestum heimilum um sniðið á fermingarfötunum og flestir urðu að sætta sig við einhverja málamiðlun, í mesta lagi rúskinn á kragann á jakkafötunum frá Andersen og Lauth. Í affermingarpartíunum fengu krakkarnir að bregða bílaplötunum á fóninn í stofunni, en mamma kíkti af og til áhyggjufull inn og kom í veg fyrir að ljósin yrðu slökkt og ræskti sig með hávaða ef eitthvert parið var komið ískyggilega nærri hvort öðru.

Já svona var þetta, en London var hin ótvíræða höfuðborg unglingatísku í klæðaburði og fasi. Í Rokksögunni segir að þau fáu íslensku ungmenni sem komust til útlanda hafi helst lagt leið sína til Lonfon og keypt sér tískuföt einkum í Carnaby Street.

Þau sem heima sátu fengu sitt tækifæri í maí 1966 þegar Guðlaugur Bergmann opnaði verslun sína við Skólavörðustíginn, sem hann nefndi einfaldlega Karnabæ. Á næstu vikum yrðu köflóttar buxur og stórir jakkar, alsettir spendum og hnöppum, áberandi á götunum og á göngum skólanna. Stelpurnar fengu sér stutt pils eða kjóla úr léttum efnum og áhugamenn um fótleggi kvenna áttu góða daga. Illar tungur sögðu reyndar að Guðlaugur hefði keypt afganginn af tísku síðasta árs fyrir lítinn pening, en bítlatöffararnir létu þennan róg ekki aftra sér. Verslun Guðlaugs dafnaði og bauð uppá vaxandi vöruúrval og lét meira að segja sauma Karnabæjarföt hér á landi.

Sigurför Lundúnartískunnar takamarkaðist ekki við fötin, að því er fram kemur í Rokksögunni. Hárgreiðslan skipti engu minna máli.

Strákarnir greiddu síða hárið vandlega og nú þótti haddló að hafa topp niður í augu. Skipt var í miðju og um leið síkkaði hárið niður fyrir mið eyru. Stelpurnar hættu gersamlega að túpera hárið, en höfðu það hálfsítt, alltaf nýklippt og vel greitt.

Ritstjórn júlí 4, 2018 06:27