Þorrinn og hakkabuffið

Nú er Þorrinn genginn í garð og margir gæða sér á gömlum íslenskum mat. Yngri kynslóðir hafa ekki vanist þessum mat og þykir hann ekki góður á meðan þeir eldri geta ekki beðið eftir að komast í súrsaðan og kæstan mat. Hann er í augum þeirra yngri skemmdur og vita ekki að ástæðan fyrir súrsuninni og kæsingunni var til að maturinn skemmdist ekki áður en ísskápar komu til sögunnar. Við, sem höfum náð miðjum aldri, kunnum að meta hefðirnar og fáumst til að smakka þótt hann falli seint undir uppáhaldsmat eins og hjá þeim enn eldri. Dæmi er matur eins og blóðmör, bringukollar, lundabaggar, kæstur hákarl, rengi, súrsaðir hrútspungar og sviðalappir. Þetta er matur sem fólk hefur orðið að alast upp með til að venjast bragðinu. En þorramatur er líka matur eins og flatkökur, hangikjöt, harðfiskur, laufabrauð og rúgbrauð og er líka matur sem forfeður okkar borðuðu og gaman er að halda í heiðri, þótt það sé bara einu sinni á ári í svokölluðu þorrablóti.

Gamli íslenski maturinn eins og mamma og amma elduðu fær marga til að slefa, svo góður þykir hann. En af því þetta fellur í flokk ,,gömlu réttanna“ eru marrgir óöruggir við eldamennskuna. Hér er uppskrift að girnilegu ,,hakkabuffi“ og nauðsynlegt er að hafa mikinn lauk með því. Sumum þykir gott að hafa sultaðan lauk en í uppskriftinni hefur laukurinn bara verið sneiddur og látinn malla í olíu og íslensku smjöri þar til hann hefur mýkst. Spælt egg hefur löngum verið borið fram með hakkabuffi og er þá gjarnan kallað ,,buff og spælegg“.

Hakkabuff með lauk fyrir fjóra

600 g nautahakk

1 1/2  dl brauðmylsna eða haframjöl

2 msk. olía

1/2 dl rjómi

1 dl mjólk

1 egg

1 laukur, smátt saxaður

2 tsk salt

svartur pipar

Blandið rjóma, mjólk og haframjöli eða brauðmylsnu og olíu saman í skál og látið standa í 5 mínútur. Setjið saxaðan lauk, egg, salt og pipar saman við og notið töfrastaf til að blanda öllu saman. Setjið að lokum nautahakkið saman við og blandið öllu vel saman með sleif. Mótið buff og steikið upp úr smjöri og olíu við háan hita þannig að þau brúnist. Raðið buffunum í eldfast fat og látið inn í ofn við 150 C í 10 mín.

Sultaður laukur

3 gulir laukar kornir þunnt

1/2 tsk. salt

tsk. sykur

pipar

olía og smjör til steikingar

Skerið laukinn þunnt niður. Bræðið smjör og olíu á pönnu og setjið laukinn á. Steikið við miðlungshita í 10 mínútur. Laukurinn á að mýkjast og fá smá lit. Setjið salt, sykur og pipar eftir smekk saman við undir lokin og látið laukinn fá smá lit.

 

Ritstjórn janúar 29, 2023 20:14