Stórar peysur, hlýir sokkar og leggings

Að komast í frí er oft langþráð. Ef fólk er að ferðast um langan veg með flugvélum er rétt að undirbúa ferðina sem allra best. Flestir hafa upplifað að vera annaðhvort allt of heitt eða allt of kalt í flugi eða þá að skórnir sem voru svo ljómandi þægilegir þegar lagt var í hann eru allt í einu orðnir of þröngir vegna þess að fæturnir bólgna í fluginu.

Best er að hugsa ferðina frá upphafi til enda. Leiðindin byrja oftast í öryggishliðinu, þar þarf að fara úr skóm, taka af sér skartgripi, belti, finna síma og tölvur og gæta að því að vera ekki með neinn vökva sem er meira en 100 ml.  Það er sniðugt að vera með litla skjóðu til að setja allt smádótið í svo maður týni því ekki eða gleymi einhverju.

Hitastig á flugvöllum og í flugvélum getur verið afar breytilegt. Það er því gott að vera í nokkrum lögum af fatnaði úr efnum sem anda. Þannig er hægt að koma í veg fyrir að manni sé annaðhvort allt of kalt eða heitt. Stórar peysur, túnikur og þægilegar leggings eða buxur úr efnum sem gefa eftir er góður ferðafatnaður. Það er líka mjög gott að taka með sér stórt sjal til að vefja um sig. Takið svo hlýja og góða sokka ef þið eruð á lengri flugleiðum það getur verið afar notalegt að smeygja sé í þá. Vandið líka valið á skónum vel. Fæturnir bólgna oft í flugi og þá er gott að vera í rúmum skóm. Háir hælar eru smart en þeir eru kannski ekki hentugasta skótauið á ferðalögum.

Svo þarf að huga vel að því að vera með vatn til að drekka í fluginu og nóg af því. Gott rakakrem er nauðsynlegt fyrir andlitið, varasalvi og góður handáburður það kemur í veg fyrir að fólk þorni um of.

Ritstjórn mars 26, 2019 11:10