Stórfínn Stormur í Þjóðleikhúsinu

Ég elska þig stormur orti Hannes Hafstein og hvatti landsmenn til að taka móti stormum lífsins af hugrekki og karlmennsku. Ég held hins vegar að enginn elski hugstormana sem geisa í hugum ungs fólks á árdegi lífsins. Engan langar að vera aftur orðinn unglingur, nema þá helst með lífsreynsluna í farteskinu með fullvissuna um að lífið verði upp og ofan og flest megi leysa. Söngleikurinn Stormur fjallar um einmitt þetta tímabil. Þegar vinirnir eru sá kjarni sem allt hverfist um, stuðningur þeirra verðmætastur alls.

Söguhetjur Storms eru vinahópur nýútskrifaður úr menntaskóla og þetta sumar verður örlagaríkt í lífi þeirra. Þau hafa mismunandi hæfileika og bakgrunn. Elísabet sem Una Torfadóttir túlkar hefur sent frá sér lag sem hefur slegið í gegn og hún er komin með umboðsmann, plötusamning og útgáfutónleikar eru í bígerð. Hún stendur á toppi öldunnar en er ekki viss um að hún kunni vel við hvert bylgjan ætlar að bera hana. Besta vinkona hennar, Helga, er dúxinn, sú sem allt gerir vel en þar kraumar sjálfsefinn og óttinn undir niðri líka. Hið sama á við Tomma. Hann vitnar í Shakespeare, Stein Steinarr og önnur stórskáld, þráir að skrifa en upplifði erfiðleika í æsku og í sálinni eru opin sár. Þau sár eru ekki síður blæðandi hjá bróður hans Davíð. Þeir bræður eru komnir í mikil vandræði og ekki víst að þeir nái að leysa þau farsællega.

Berglind Alda Ástþórsdóttir leikur Helgu og nær gersamlega að heilla áhorfendur. Það er svo auðvelt að finna til með henni, skilja hana og fá löngun til að hugga og styðja þessa brothættu stúlku sem hefur svo margt til að bera. Jakob van Oosterhout leikur Tomma og hið sama á við um hann. Jakob sýnir ákaflega vel hversu auðveldlega ungmenni sveiflast frá gleði til dýpstu örvæntingar og hve erfitt er að leita sér hjálpar þótt innst inni viti menn að þeir stefni í ranga átt. Kjartan Darri Kristjánsson leikur Davíð og samleikur þeirra tveggja er frábær. Áhorfendur skynja vel bróðurkærleikann en jafnframt úrræðaleysi og ótta ungra manna sem ráða ekki við þær aðstæður sem þeir eru komnir í.

Ástin bæði flókin og ljúfsár

Öll eru þau í leit að ást og innan hópsins eru að myndast pör. Ástin hins vegar bæði ljúf og sár, alltaf flókin og aldrei hægt að vita hvort eigi að hrökkva eða stökkva. Elísabet og Helga verða gera upp við sig hvort þær séu eingöngu vinkonur eða hvort þessi sterka aðlöðun þeirra hvorri að annarri sé ást. Salka Gústafsdóttir á magnaða innkomu í hlutverki Maríönnu, sem er ástfangin af Tomma og reynir allt hvað hún getur til að styðja hann og bjarga honum. Hún hefur frábæra rödd og upplifun að heyra hana syngja.

En unga fólkið á það sameiginlegt að draumarnir eru innan seilingar en samt svo fjarlægir og jafnvel þegar þeir rætast eru þeir einhvern veginn ekki eins og maður hafði vænst. Já, svona eru unglingsárin og fyrstu skrefin út í fullorðinslífið. Stormur lýsir þessum tíma fanta vel. Persónurnar eru vel mótaðar og trúverðugar þótt aukapersónurnar hefðu mátt fá meira pláss og vera dregnar skýrari dráttum. Þó verður að nefna Marínó Mána Mabazza og Iðunni Ösp Hlynsdóttur og danssenur þeirra, eftir Lee Proud, þær eru einstaklega vel útfærðar og beinlínis heillandi. Hreyfingar þessara ungu listamanna eru svo fallegar að þær snerta mann djúpt og sýndu á táknrænan hátt þennan stökkpall draumana sem persónurnar standa á og hver hann ýmis heldur aftur af þeim eða gefur vængi.

Að vera sjálfum sér trúr

Einn sterkasti boðskapur verksins er þó að allir verða að vera trúir sjálfum sér þótt iðulega sé erfitt að öðlast hugrekki til að gera einmitt það og hann kemst mjög vel til skila. Margar senur eru mjög áhrifamiklar og koma út á manni tárunum meðan aðrar eru fullar af gleði, krafti og skemmtun. Tónlist Unu Torfa er heillandi, upplyftandi, fjörug, sorgleg, sönn og hittir mann alltaf í hjartastað.

Leikmynd Ilmar Stefánsdóttur er frumleg og flott og gefur persónunum færi á að hreyfa sig á skemmtilegan hátt um rýmið. Það var sérlega gaman að fylgjast með hvernig þau nýttu hana. Inni í sviðsmyndinni situr hljómsveitin og þeir spila frábærlega undir í söng- og dansatriðum. Búningar Maríu Th. Ólafsdóttur undirstrika persónurnar á mjög afgerandi og skemmtilegan hátt og gefa sumum aukapersónum meiri lit og dýpt í augum áhorfenda. Unnur Ösp Stefánssdóttir og Una Torfa hafa skrifað fínt verk sem hreyfir við fólki en er jafnframt upplyftandi og fullt af von. Kvöldstund í Þjóðleikhúsinu með Stormi er vel varið og allir ættu að bjóða stálpuðum barnabörnunum sínum á þessa sýningu.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn maí 7, 2025 07:00