Eldra fólk er vannýtt auðlind

Guðrún Helga Sigurðardóttir blaðamaður skrifar:

„Ég held að það sjái enginn til enda í lífinu, þetta spilast bara einhvern veginn,“ segir sá ástsæli rithöfundur og tónlistarmaður Ólafur Haukur Símonarson, sem skemmt hefur þjóðinni með leikritum sínum, bókum og tónlist frá því um miðjan áttunda áratuginn. Það kann að koma mörgum á óvart að Ólafur Haukur er í grunninn innanhússarkitekt þó að hann hafi ekki starfað við það frá því rétt eftir nám.

 Ætlaði í myndlist

Ungur rithöfundur á uppleið.

Ungur rithöfundur á uppleið.

„Þegar ég var að alast upp þá þótti ekkert mjög tryggur atvinnuvegur að fást við listsköpun, það var hálft í hvoru það sem fyrir mér vakti þegar ég fór í innanhússarkitektúr í Kaupmannahöfn. Ég vildi koma mér upp einhverju sem ég gæti haft tekjur af og þess vegna fór ég í þetta nám. Ég vann svo í tvö ár á teiknistofu í Reykjavík og það var ágætt en ég gat ekki hugsað mér að vinna við það alla ævi. Ég var farinn að skrifa og gera hitt og þetta. Ég var alveg einn og óbundinn og mig langaði til að gera eitthvað annað en að vinna við innanhússhönnun og lét verða af því,“ segir Ólafur Haukur.Hann fór utan aftur og ætlaði sér reyndar í myndlist en fór svo að vinna með leikhússfólki og sú vinna tók yfir. Það vantaði barnaleikrit og lög í lítil barnaleikrit og þá fór hann að skrifa. „Þetta vatt upp á sig. Svo fór ég að lesa og sækja fyrirlestra varðandi leikhús og leikhússögu og annað slíkt og allt í einu var ég kominn á kaf í það. Ég hef skrifað sitt af hverju, skáldsögur, smásögur og gefið út talsvert af músík. Allt var það eiginlega aldrei ætlunin, það bara spannst áfram. Fyrst þetta gekk þokkalega þá hélt ég áfram og endaði með því að leikhúsið varð minn aðal vettvangur í áratugi. Ætli ég hafi ekki skrifað 30-40 leikrit, stór og smá. Það er kjarninn í því sem ég hef fengist við,“ segir hann.

Kvikmyndin Gauragangur.  Ólafur Haukur hefur skrifað fjölda bóka og leikrita sem sum hafa ratað á hvíta tjaldið.

Kvikmyndin Gauragangur. Ólafur Haukur hefur skrifað fjölda bóka og leikrita sem sum hafa ratað á hvíta tjaldið.

Lenti í góðum félagsskap

Ólafur Haukur er fjölhæfur listamaður. Hann telur að þeir sem séu liðtækur á einu sviði listanna geti náð árangri á öðrum sviðum líka. Hann segir að sér sýnist það svolítil tilviljun í hvaða listgrein menn endi. Tónlistin sé kannski sérhæfðust en það sé oft tilviljun hvort menn verði myndlistarmenn eða rithöfundar. Ólafur Haukur ólst samt ekki upp við listsköpun heldur á ósköp venjulegu alþýðuheimili. Pabbi hans var skipstjóri og móðir hans heimavinnandi framan af og vann svo tilfallandi störf eftir það. Sem ungur maður lenti hann í góðum félagsskap, inn í hóp fólks sem var áhugasamt um listir og hlustaði sérstaklega mikið á tónlist.„Ég fór ungur að heiman, 17 ára til Danmerkur. Ég hafði kynnst strákum eins og Hrafni Gunnlaugs, Sigga Páls, Kristni Einarssyni, Vilmundi Gylfasyni og öðrum sem voru að munda sig til að verða rithöfundar og urðu það sumir. Ég stóð í miklum bréfaskiptum við þessa stráka meðan ég var úti og þeir heima og svo fóru þeir margir til náms í Skandinavíu. Það þótti varið í að vera með skáldagrillur og nokkuð margir af mínum kunningjum enduðu í listageiranum, bjuggu til hljómsveit, gáfu út tímarit eða bækur. Þetta var eins og í dag þegar allir krakkar vilja verða kvikmyndagerðarmenn,“ segir hann.

Frelsi og litríkara líf

Ólafur Haukur eru fæddur 1947 sem þýðir að hann er af 68-kynslóðinni. Sjálfur orðar hann það þannig að Kalda stríðið hafi verið að hringja út á þessum tíma. „Það var stemning fyrir því að lífið ætti að vera í litum, ekki svarthvítu. Fólk var að berjast gegn allskonar yfirvaldi, á vinnustöðum og í skólum. Þetta snerist líka um samgang kynjanna, strákar og stelpur máttu ekki umgangast á görðum háskólanna. Svo kom tímabil sem við köllum hippaskeið, menn vildu njóta frelsis og lifa litríkara og skemmtilegra lífi. Auðvitað rann það sitt skeið og við tók harðsoðið, pólitískt skeið. Menn urðu rosalega róttækir og aggressívir í pólitík og mikil harka í öllu,“ segir hann.Ólafur Haukur hefur alltaf verið sósíaldemókrat, það segir hann að sé djúpt í sínum genum. „Ég gat aldrei þrifist með virkilega hörðum klíkum í pólitíkinni. Það var mér alveg ofviða að trúa á Maó Tse Tung eða Karl Marx. Ég hef alltaf verið alþýðumaður og trúi á samtakamátt fólks og jöfnuð, þessi gömlu sósíaldemókratísku gildi. Það er mjög einfalt mál og hefur ekkert breyst,“ segir hann.

Við útgáfu Vatns á myllu Kölska.

Við útgáfu Vatns á myllu Kölska.

Á pínulitlum andapolli

Starfsævi Ólafs Hauks markast einkum af leikhúsinu. Þar segist hann hafa átt margar góðar stundir og starfað með frábæru fólki. „Ég tel mig afskaplega heppinn að hafa fengið að starfa í leikhúsinu. Það er ekki sjálfgefið í svona litlu þjóðfélagi þar sem lítið þarf út af bregða til að menn detti upp fyrir. Það skiptir miklu máli að það verði einhver samfella í því sem maður er að gera. Þessi pínulitli andapollur okkar er erfiður hvað það varðar. Það komast svo fáir fyrir á honum og það er mikil gæfa að eiga samfellda starfsævi á sviði listanna. Ég var svo heppinn að fólk kunni að meta það sem ég gerði og ég er þakklátur fyrir það,“ segir hann. Ekki er auðvelt að

setja saman leiksýningu sem á að hafa eitthvað bitastætt fram að færa en jafnframt að toga 10-50 þúsund manns inn í leikhúsið. „Sum verka minna eru náttúrulega nákomnari mér en önnur og þá gjarnan sprottin úr sárri eigin reynslu,“ segir hann og rifjar upp að það verk sem kom honum á flot í Þjóðleikhúsinu sem höfundi, þríleikurinn Milli skinns og hörunds hafi verið þess eðlis. „Það var ákaflega hugrökk ákvörðun af þáverandi leikhússtjóra að treysta mér upp á svið með þrjú heil leikrit í einu. En það var veðjað á þessi verk sem voru mjög persónuleg og tengd mér. Mér þykir líka afskaplega vænt um leikrit sem ég skrifaði miklu seinna eftir að móðir mín hafði fengið Alzheimersjúkdóminn. Græna landið varð til eftir þá reynslu.“

Ólafur Haukur , eiginkona hans Guðlaug María Bjarnadóttir leikkona og börnin Unnur, Freyr og Elín

Ólafur Haukur , eiginkona hans Guðlaug María Bjarnadóttir leikkona og börnin Unnur, Freyr og Elín

Þjóðhagslegt tap

Ólafur Haukur er kominn rétt undir sjötugt og því kannski spurning hvernig honum líkar það að eldast. Hann segir aldursskeiðið koma á óvart, honum finnist hann auðvitað alltaf vera 18 ára. En þjóðin sé að eldast hratt og því margir sem nái háum aldri i dag. „Ég hef á tilfinningunni að eldra fólk sé ótrúlega illa nýtt auðlind. Fólk hættir alltof snemma að vinna. Ég veit ekki hvaðan þessi hugmynd er komin að fólk eigi sjálfkrafa að draga sig í hlé skömmu eftir sextugt; það er fyrst á þeim aldri sem fólk er að fá smá vit í kollinn. Ég höfða til fólks að láta ekki segja sér að það sé ekki lengur nothæft eða hafi ekkert fram að færa vegna aldurs, það er svo fráleitt. Það er mikið þjóðhagslegt tap að missa fólk með gott andlegt og líkamlegt atgervi úr atvinnulífi og menningarlífi,“ segir hann.Ólafur Haukur er alltaf á fullum dampi. Hann er um þessar mundir að gefa út hljómplötu með Umhyggju, Félagi til stuðnings langveikum börnum, og fer platan í sölu á þeirra vegum auk þess sem hún fer líklega líka á almennan markað. „Ég fer að láta hana heyrast og sjást,“ segir hann og bætir við að platan sé unnin með Jóni Ólafssyni í Nýdönsk og fleiri góðum listamönnum. „Svo var ég að skrifa barnabók og skáldsögu. Ég er bara gera það sama og ég hef alltaf gert. Ég á mína lesendur og held áfram að gera það sem mér finnst sjálfum skemmtilegt. Leiðin til þess að finna aðra er að manni leiðist ekki sjálfum það sem maður tekur sér fyrir hendur,“ segir hann.

Hér fyrir neðan er Ólafur Haukur lítill drengur ásamt foreldrum sínum Elínu Friðriksdóttur og Símoni Guðjónssyni.  Á minni myndunum er hann ásamt vinum og listamönnum.

Barnæska ÓHS

 

 

 

 

Ritstjórn maí 22, 2015 12:28