Sjálfsmynd þýsku kvennanna sem fluttu hingað eftir stríð

Saga þýsku kvennanna sem fluttu til Íslands eftir seinni heimsstyrjöldina til að vinna á íslenskum sveitabæjum, er afar áhugaverð, en á Árbæjarsafni stendur yfir sýningin HEIMAt – tveir heimar, sem fjallar um sögu þeirra. Í dag, laugardaginn 26.október klukkan 13 verður Dr. Nína Rós Ísberg með fyrirlestur þar sem hún mun leggja út af hugmyndinni um hugtakið heima.

Nokkrar þýsku kvennanna

Sýningin HEIMAt – tveir heimar fjallar um líf þýskra kvenna sem settust að á Íslandi fyrstu árin eftir stríð þegar vöntun var á vinnuafli í sveitum landsins. Margar þessara kvenna yfirgáfu heimkynni sín fyrir fullt og allt og sumar áttu aldrei afturkvæmt. Nína Rós leitast við að svara hvernig þessum konum gekk að búa sér til heimili í nýju landi og hvernig þeim gekk að aðlagast og tilheyra nýju samfélagi sem þær á endanum gátu kallað sitt heimili/heimat. Fyrirlesturinn fer fram í Kornhúsinu en þar er sýninguna einnig að finna.

Aðgangur er ókeypis og öllum opinn.

Nína Rós er með doktorspróf í mannfræði frá University of London. Doktorsrannsókn hennar fjallar um þýsku konurnar sem komu til Íslands um 1949, hvernig þær stofnuðu fjölskyldur hér á landi, bjuggu sér heimili og ólu upp börnin sín. En ekki síst fjallar rannsóknin um sjálfsmynd þeirra og hvernig þær settu saman eigin sögu byggða á minningum sínum á þeim tíma þegar rannsóknin var gerð.

Nánari upplýsingar um sýninguna er að finna hér

http://borgarsogusafn.is/is/arbaejarsafn/syningar/heimat-tveir-heimar

Ritstjórn október 25, 2019 07:40