Útileikir með barnabörnunum um helgina

„Komdu að leika!“ er yfirskrift sýningar í Árbæjarsafni og tengist líka dagskrá sem boðið verður uppá í safninu um verslunarmannahelgina. Safnið hefur sent frá sér tilkynningu um dagskrá helgarinnar.

Um verslunarmannahelgina verður venju samkvæmt blásið til fjölbreyttrar útileikjadagskrár á Árbæjarsafni. Dagskráin er ætluð krökkum, en hún er að sjálfsögðu opin öllum þeim sem ætla að njóta þess sem Reykjavík hefur upp á að bjóða, þessa mestu ferðahelgi ársins.

Bæði sunnudag og mánudag 4.-5. ágúst geta krakkar til að mynda keppt í pokahlaupi, stultuhlaupi og reiptogi milli kl. 13-16. Á safninu er fjölbreytt úrval af útileikföngum sem krökkum býðst að nota að vild, svo sem húla-hringir, snú-snú, kubb og stultur. Á gamaldags róluvelli eru rólur, vegasalt og sandkassi með leikföngum. Og ekki má gleyma leikfangasýningunni „Komdu að leika!“

Messa í Árbæjarsafnskirkju

 Á sunnudeginum 4. ágúst kl. 11 verður messað í litlu fallegu safnkirkju Árbæjarsafns. Sr. Þór Hauksson frá Árbæjarkirkju þjónar fyrir altari og prédikar og Krisztina Kalló Szklenár spilar á orgel. Félagar úr kór Árbæjarkirkju leiða söng.

Ritstjórn júlí 31, 2019 10:52