Það er ógaman að verða fyrirvaralaust persóna í skáldverki þar sem allt er meira og minna fært í stílinn. Margir þekkja sögu Einars Kárasonar um Eyvind Jónsson Storm, sem lengi bjó í Danmörku og var lýst sem heldur vafasömum karakter. Í frásögninni var margt úr lagi fært og nú vill Stormur leiðrétta missagnir. Við grípum hér niður í Passíusálmum Einars Kárasonar þar sem Stormur hefur orðið.
Ég varð til að byrja með mjög hugsi yfir því þegar ég hafði lesið bókina hvaðan þessi höfundur, Einar Kárason, hefði fengið allar upplýsingarnar sem þar birtast. Eins og ég segi þá bjó hann hér í Damnörku um tíma, fyrir þrjátíu árum þegar ég bjó hérna fyrst, en alveg á hinum kanti landsins, í Kaupmannahöfn. Hann kom í heimsóknir hingað til Árósa, þekkti meðal annars Sigurbjörn Einarsson, ég held þeir hafi verið saman í menntaskóla eða einhverju, nema það hafi verið KFUM eða skátarnir; þetta eru svona gæðadrengir af smáborgaralegum heimilum. Ég vissi að Einar þessi var eitthvað að fikta við að skrifa, hafði gefið út ljóðabók svona eins allir skáldfuglar ganga með í vasanum á duffelcoat-úlpunum sínum og eru að pranga inn á fólk á börum og kaffihúsum, og svo að hittast í einhverjum kjöllurum til að lesa uppúr þessu hver fyrir annan. Hann hafði skrifað skáldsögu og gefið Sigurbirni vini sínum eintak af henni, man ekki hvað hún hét, Gauji asni eða eitthvað; það var löng áritun á titilblaði í eintaki Sigurbjörns, með allskonar einkahúmor þeirra; ég man að Bjössi var þar beðinn um að vara sig á allskonar ösnum, líka öðrum Íslendingum sem byggju í Árósum, það sá ég þegar Sigurbjörn hafði lánað mér bókina. Mér fannst þessi höfundur meira en lítið góður með sig. En ég las hana samt, og þetta var svosem ósköp ljúft og gott og svona gamansamt, en algerlega sárasaklaust auðvitað, hefur örugglega passað fínt á þessum kjallarakvöldvökum ungskáldanna þegar þau eru að hittast til að lesa upp þessa vinnustaðabrandara – eða skólabrandara – sína hvert fyrir annað.
Hann bauð svosem ekki af sér slæman þokka; var með svona frekar sítt hár, oft með arabaklút eins og Jasser Arafat vafinn um hálsinn; ég hitti hann eins og ég segi bæði hér í Árósum og líka í Köben þegar maður átti leið þangað og lenti í partíum og Íslendingasamkomum. Og það var svosem allt í fínu að hafa hann í kringum sig, hann var frekar svona hláturmildur, ég fann að hann sótti alltaf dálítið í að vera nálægt mér, heyra hvað ég væri að segja; auðvitað hlýtur það að gagnast manni sem er að fikta við að skrifa að heyra hvað einhver sem kynnst hefur lífinu hefur að segja.
En hitt er annað mál að þótt maður sæi að Einar þessi, og fleira svona skáldfuglar úr vinakreðsum í Köben, væru stundum að draga upp bréfsnifsi eða glósubækur og að hripa eitthvað hjá sér, þá hefði hann aldrei getað snapað af sjálfsdáðum upp allar þessar insæd upplýsingar sem bókin Stormur er morandi í, um líf mitt og okkar hér í Gellerup og víðar.