Á veturna hefur fólk meiri þörf fyrir afþreyingu en á sumrin. Litríkur gróður, hlýrra veður og birtan dregur flesta út meðan á síðarnefndu árstíðinni stendur en myrkrið, kuldinn og lægðirnar sem ganga yfir landið kalla á einhverja skemmtun þegar sú fyrrnefnda er allsráðandi. Í vetur gæti verið gaman að nýta sér eitthvað af eftirfarandi.
Töfrar leihússins
Í Borgarleikhúsinu eru margar frábærar sýningar í gangi, m.a. Ungfrú Ísland og Köttur á heitu blikkþaki. Hið sama má reyndar segja um Þjóðleikhúsið, þeir sem ekki hafa séð Saknaðarilm ættu að drífa sig því líklega fer sýningum að fækka. Yerma er einnig hádramatískt og áhugavert verk.
Matur og drykkur með þínum allra bestu
Fátt er skemmtilegra en að elda og njóta matar með sínum nánustu. Salt eldhús gefur fólki færi á að læra eitthvað nýtt sem síðan má kynna fjölskyldunni eða hreinlega fara saman nokkur og takast á við nýjar áskoranir í matargerð. Í nóvember og desember eru mörg mjög spennandi námskeið í boði hjá þeim og Jóla – Galdrar er námskeið sem einmitt er tilvalið til að koma mönnum af stað í jólaundirbúningnum. Sigríður Björk Bragadóttir, einn eiganda Salt eldhúss, kennir hvernig búa má til kjúklingalifrarpaté, biscotti, karamellusósuog fleira gómsætt á jólaborðið. En þetta eru einnig fallegar og skemmtilegar jólagjafir.
Helgarferðir
Vetrarfegurð er mikil víða á Íslandi og finna má ótal notalega og þægilega gististaði allt í kringum landið. Það er ævintýri að gerast túristi í eigin landi og upplifa norðurljósin, heitu pottana, nútíma íslenska matargerð og gestrisnina. Oft eru mjög hagstæð tilboð á kvöldmat og gistingu í vefverslunum og sniðugt að hafa augun opin fyrir slíku og halda svo af stað.
Út að borða
Margir hafa mikla ánægju af að fara út að borða. Velja sér flottasta, nýstárlegasta eða viðurkenndasta veitingastaðinn og smala svo saman vinahópnum eða fjölskyldunni og fá sér eitthvað verulega gott. Veitingamenn mæla með að fólk panti borð.
Ljúfir tónar
Sinfóníutónleikar, óperur, söngleikir, hljómsveitir, kvartettar, tríó, dúettar og sólólistamenn allt þetta er að finna inn á tix.is þar sem listafólk auglýsir tónleika og uppákomur. Fátt er meira nærandi en að hlusta á góða tónlist og um að gera að skella sér inn á tix og finna eitthvað virkilega skemmtilegt.