Sumarbækur Silju

Silja Aðalsteinsdóttir íslenskufræðingur og þýðandi er flestum sem eru komnir yfir miðjan aldur að góðu kunn. Lifðu núna bað hana um að benda á nokkrar bækur til að taka með í sumarfríið. Silja var að þýða síðustu bók Alice Munro, Dear Life, sem kemur út hjá Forlaginu í haust. Á meðan hún þýddi hana las hún sex önnur smásagnasöfn eftir hana til að kynnast henni betur. Gefum Silju orðið

„Ég get mælt með hvaða bók sem er af þeim sem ég hef lesið, það eru æðislegar sögur í þeim öllum. Alice Munro skrifar um fólk af öllu tagi, ungt og gamalt, börn, konur og karla, en sögur hennar af konum á miðjum aldri eru einstaklega áhugaverðar og skemmtilegar.

Fyrir utan Alice langar mig að benda á nokkrar nýlegar íslenskar sem er upplagt að taka með sér í fríið ef maður hefur ekki þegar lesið þær.

Við Jóhanna er frásögn Jónínu Leósdóttur af sambandi þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur, einlæg lýsing á löngu sambandi þeirra áður en það varð opinbert, erfiðleikum og tíðum sambandsslitum sem þó voru aldrei löng því þær gátu ekki lifað án hvor annarrar. Og svo sagan af því þegar þær urðu heimsfrægar sem fyrstu samkynhneigðu forsætisráðherrahjónin í veröldinni. Sú frásögn er ekki síður athyglisverð þó að þar sé tónninn allt annar.

Alla mína stelpuspilatíðer fyndin og fjörleg uppvaxtarsaga Sigríðar Kristínar Þorgrímsdóttur sem var yngsta dóttir Jakobínu Sigurðardóttur og Starra í Garði í Mývatnssveit. Fyrir utan skemmtileg kynni af Sigríði er þetta að líkindum það næsta sem við komumst því að fá að lesa ævisögu Jakobínu sem var einn merkasti skáldsagnahöfundur okkar á öldinni sem leið.

Dægradvöl, sjálfsævisaga Benedikts Gröndal skálds og fræðimanns, er óborganlegur lestur, ekki síst fyrir þá sem hafa gaman af að ganga inn í liðna tíð. Hún var skrifuð rétt fyrir aldamótin 1900 en kom ekki út fyrr en höfundur var löngu látinn. Nú var hún að koma út í kilju.

Eftir Dægradvöl er svo upplagt að lesa Sæmd, heillandi skáldsögu Guðmundar Andra Thorssonar þar sem Benedikt Gröndal er ein aðalpersónan.

Lífsmörk er skáldsaga eftir nýjan höfund, Ara Jóhannesson lækni. Hún gerist á Landspítalanum í Fossvogi og birtir lesanda iðandi mannlífið þar innan veggja, samskipti lækna og sjúklinga, starfsmanna innbyrðis og við sína nánustu. Spennandi og brýn saga úr Íslandi nútímans.

Ef þið viljið þyngri bækur í öllum skilningi get ég mælt með tveim ævisögum merkra íslenskra rithöfunda. Landnám er ævisaga Gunnars Gunnarssonar eftir Jón Yngva Jóhannsson, rosalega flott bók um einn af okkar merkustu rithöfundum, umdeildan höfund og mann á sinni tíð og æ síðan. Kamban – líf hans og starf eftir Svein Einarsson vekur af alvöru og þunga máls á höfundi sem er of mörgum gleymdur. Ný ópera um Ragnheiði biskupsdóttur vakti þó athygli á honum um svipað leyti og bókin.

Stúlka með maga eftir Þórunni Erlu- Valdimarsdóttur er skáldættarsaga byggð á heimildum úr fjölskyldu höfundar, ljúfsár og tregafull frásögn sem Þórunn leggur í munn móður sinni sem sjálf var skáldkona. Þórunn fékk Fjöruverðlaunin fyrir þessa merku bók.

Loks langar mig að nefna Afleggjarann eftir Auði Övu Ólafsdóttur. Hún er orðin nokkurra ára gömul en ef þið hafið ekki lesið hana þá er þetta einstaklega sjarmerandi og yndisleg saga um föður og unga dóttur sem valda straumhvörfum í litlu þorpi á suðlægum slóðum“.

 

Ritstjórn júní 13, 2014 23:45