Helga Thorberg leikkona

„Ég er að plana hvað ég eigi að taka mér fyrir hendur í framtíðinni. Maður er að komast á þennan göfuga aldur að þurfa ekki vinna launavinnu lengur,“ segir leikkonan og garðyrkjufræðingurinn Helga Thorberg.  „Ég hef verið í ferðabransanum undanfarin misseri, hef verið að selja erlendum ferðamönnum gistingu í 101. En nú stend ég tímamótum og er að reyna að ákveða hvað ég geri næst,“segir hún.

Helga hefur í gegnum tíðina lagt gjörva hönd á margt auk þess að vera leikkona þá hefur hún rekið blómabúð, ísbúð, skrifað bækur, sett upp leikrit og látið að sér kveða í pólitík. Svo er hún amma fimm barna á aldrinum 5 til 13 ára. „Mér þykir ömmuhlutverkið skemmtilegt og mikilvægt.Tvö barnabarnanna búa á Spáni og þess vegna er ég með annan fótinn þar. Ég hjálpa krökkunum með heimanámið. Mér finnst það svo merkilegt hvað skólakerfið er miklu betra á Spáni en hér. Þar er námið tekið fastari tökum en við eigum að venjast. Annað barnabarnið sem býr úti, átta ára strákur, hringdi í mig á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8.mars vegna þess að hann fékk það verkefni í skólanum að skrifa um ömmu sína og þurfti að spyrja hana nokkurra spurninga. Upp á síðkastið hef ég verið að hjálpa honum með stærðfræði. Það viðheldur spænskukunnáttunni minni og ég er orðin spennt að vita hvernig honum kemur til með að ganga í prófunum í vor. Annars eru þau svo upptekin þessi blessuð börn sérstaklega þegar þau komast á unglingsaldurinn að það er stundum erfitt að finna tíma til að gera eitthvað með þeim. Ég ætlaði að bjóða unglingunum upp á að koma og forrækta með mér lauka en það gengur illa að finna tíma fyrir það,“ segir Helga og bætir við að hún sé að hugsa um að stofna ömmublogg. „Í gegnum bloggið gætu ömmur kennt barnabörnunum leiðir til að kenna foreldrum sínum að flokka rusl. Það er eins og foreldrarnir kunni það ekki nógu og vel. Þetta gæti verið leið, til dæmis, fyrir Gráa herinn að búa til litla skæruliða sem tækju umhverfismálin föstum tökum,“ segir Helga og hlær.

Helga kom að  stofnun Kvennalistans og Kvennaframboðsins.  Henni finnst pólitíkin í dag orðin að brandara og segist ekki vita hvert menn séu að stefna. „Öll þessi skandalmál sem hafa komið upp á síðustu vikum til dæmis Klaustursmálið og Landsréttarmálið. Maður spyr, hvað næst? Ég verð róttækari með aldrinum,“ segir hún og bætir við að hún hafi miklar áhyggjur af umhverfis og loftslagsmálum. „Mér finnst stjórnvöld hér á landi sinna þessum málum illa, við gætum gert svo miklu betur. Ég vildi helst hella mér út í pólitík og leggja mitt lóð á vogarskálarnar.Við erum á óheillabraut og ég vona svo innilega að það komi fram sterk andstaða gegn því að eyðileggja náttúruna til sjós og lands. Við verðum að setja náttúruna í forgang. Mér finnst stundum erfitt að búa í samfélagi þar sem meirihlutinn stefnir í ranga átt.  Við megum þó ekki gleyma því að það eru ótrúlega margir kostir við Ísland hér eigum við kost á hollum fiski og góðu kjöti sem er ekki allt fullt af sýklalyfjum. Ég hef stundum velt því fyrir mér af hverju við notum ekki raforkuna okkar til að rækta allt það grænmeti sem við þurfum í staðinn fyrir að stofna gagnaver hér og þar um landið þar sem raforkunni  er sóað í að grafa eftir rafmynnt. Ég brenn fyrir umhverfis- og loftlagsmálum og velti því fyrir mér hvort ég geti ekki látið að mér kveða á því sviði á næstu misserum.“

Eins og áður sagði segist Helga standa á tímamótum. „Ég veit ekki alveg hvar ég á að festa rætur, kannski á ég bara ekkert að festa rætur,“ segir hún glettinn og bætir við að hún hafi vitkast mikið með aldrinum en ekki róast. „Maður getur ekki orðið meðvitundarlaust gamalmenni. Ég er mikil ástríðumanneskja en maður verður að finna sér sinn heim þar sem maður getur haldið andlega og líkamlega góðri heilsu.“

Ritstjórn mars 20, 2019 10:16