Þegar vinir og ættingjar hætta að koma í heimsókn

Margrét var ekki vön að eyða hátíðum og tyllidögum í einsemd. Áður fyrr naut hún þess að bjóða til sín fjölskyldu og vinum um hátíðar en eftir að faðir hennar neyddist til að flytja til hennar, vegna þess að hann þjáðist af Parkinsons,  hætti fólk að koma til hennar. Hún trúði sjálfri sér trú um að hana skorti orku til að hitta annað  fólk en fann samt að hún saknaði vina sinna sárt og þeirrar ánægju sem hún hafði haft af samskiptum við þá. Grein um þá sem hjúkra sjúkum og öldruðum ættingjum birtist á vefnum aarp.org, Lifðu núna þýddi og stytti.

 Að annast sjúkt fólk heima

Félagsleg einangrun er algeng hjá fólki sem annast veika fjölskyldumeðlimi. Fólk einagrast vegna þess að  vinir, nágrannar og jafnvel þeirra nánustu ættingjar draga sig smám saman í hlé. Kannski er fólk orðið langþreytt á því að heyra sífellt um erfiðleikana sem fylgja því að annast hinn sjúka. Hver svo sem ástæðan er, er  það oft sárt fyrir viðkomandi þegar hann eða hún kemst að því að vinirnir voru ekki vinir, heldur viðhlæjendur. Félagsleg einangrun getur líka verið val þess sem hugsar um hinn sjúka heima. Ummönnunin getur orðið svo stór hluti af lífi viðkomandi að nánast hver mínúta verður skipulögð með þarfir hins sjúka í huga og ekkert pláss verður eftir til að sinna samskiptum við aðra eða að eiga áhugamál. Aðstandendur geta líka orðið þjakaðir af sektarkennd, bregði þeir sér af bæ og hætta að eiga samskipti við annað fólk.

Að verja frítímann af hörku

Stundum geta hinir sjúku verið frekir og ósveigjanlegir. Sjúklingurinn getur mótmælt hástöfum þegar sá sem annast hann fer út af heimilinu. Í slíkum tilvikum er gott að setja fastar reglur. Sá sem tekur að sér að annast hinn sjúka getur til dæmis sett þá reglu að einu sinni í viku, á fyrirfram ákveðnum tíma, fari hann og geri eitthvað sem hann hefur gaman að. Frístundina gæti hann notað til að hitta vini, fara á veitingastað eða  kaffihús, í bíó, gönguferð eða bara hvað sem er. Þetta léttir lund þess sem heima er og dregur úr vanmáttartilfinningu hans.

Að velja skilningsríka félaga

Ekki eru öll félagsleg samskipti uppbyggileg. Það síðasta sem umannandinn þarf er „vinur“ sem vill ekkert skilja í þeirri alúð og trúmennsku sem viðkomandi sýnir sjúklingnum. Slíkt fólk ætti að forðast og leita frekar félagsskapar þeirra sem eru í líkri stöðu og skilja um hvað málin snúast. Þeir sem annast aðra mynda stundum stuðningshópa. Oft má finna upplýsingar um þá á sjúkrastofnunum, í kirkjum eða á netinu. Þá eru oft myndaðir stuðningshópar aðstandenda þeirra sem þjást af tilteknum sjúkdómum. Þátttaka í slíkum hópum getur veitt ómetanlegan stuðning.

Stutt og einfalt

 Til að brjóta upp dagleg leiðindi þeirra sem heima sitja þarf oft ekki meir en að hringja stöku sinnum í þau, senda þeim tölvupóst og leyfa þeim að fylgjast með vinum og fjölskyldu. Mikilvægast er þó að þessi litlu samskipti við umheiminn minna á að aðrir kunna að meta þann eða þá sem hjúkrar og það sem þau leggja á sig. Þó að þau upplifi stundum einsemd í sínu erfiða hlutverki eru þau samt ekki einsömul.

Ritstjórn apríl 6, 2015 11:42