Aðalfundur Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni hélt aðalfund sinn fyrir helgina. Það vakti mikla athygli og ánægju fundarmanna að alger viðsnúningur hefur orðið milli ára í fjármálum félagsins. Hagnaður af rekstri félagsins nam 15,8 milljónum á síðasta ári, en árið á undan var tap uppá rúmar 600.000 krónur. Það sem veldur, er m.a. fjölgun félga í FEB, en þeir eru nú orðnir 9.900 og hafa aldrei verið fleiri og einnig að á síðasta ári fengu félagsmenn sem það vildu að greiða 1000 krónur aukalega, sem fóru í að greiða niður lánið sem hvílir á húsnæði félagsins í Stangarhyl. Þannig söfnuðust rúmar 7 milljónir króna. Öflugra félagsstarf og gagnger tiltekt í rekstri félagsins stuðlaði einnig að betri rekstrarafkomu.
Ekki stéttarfélag
„Kjaramál hafa áfram verið í brennidepli og þar er gerð gríðarleg krafa til félagsins“,sagði Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður FEB þegar hún flutti skýrslu stjórnar á fundinum. „En menn verða að gera sér grein fyrir að Félag eldri borgara í Reykjavík er ekki stéttarfélag og hefur því ekki samningsrétt í þeim skilningi“. Fram kom að stjórn, starfsmenn og kjaranefnd félgsins unnu ötullega að því að fá kjörin bætt. Rætt var við ráðamenn, meðal annars við fjármálaráðherra. Menn bundu vonir við starf óformlegs hóps sem ráðherra skipaði með embættismönnum og fulltrúum eldri borgara, en þær urðu að engu þegar lögð voru fram gögn, sem áttu að sýna að eldri borgarar hefðu fengið meira í sinn hlut en launþegar í landinu.
Starfsemi í Árskógum
Það er öflugt félagsstarf hjá Félagi eldri borgara, sem fer fram í húsnæði félagsins í Stangarhyl í Reykjavík. Þórunn greindi frá því að til stæði að fara í samstarf við Reykjavíkurborg, um að félagið fengi aðstöðu í Árskógum í Mjódd og kæmi að rekstri félagsmiðstöðvar fyrir eldri borgara. Samstarf sveitarfélaga við félagasamtök eldri borgara er víða mun meira en í Reykjavík. Þá kom fram að á síðasta ári var Félag eldri borgara mun meira í fjölmiðlum, en verið hafði árið áður.