Hvað næst í óveðri Covid?

Þórunn Sveinbjörnsdóttir

Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður Landssambands eldri borgara skrifar

Þessa dagana eru að opnast augu okkar fyrir því að afleiðingar af Covid-19 eru marvíslegri en þekkt var. Ýmsir hafa upplifað einangrun, ýmiss konar vanlíðan og ónóga hreyfingu síðustu mánuði og það er mikilvægt að brugðist verði við og því fólki hjálpað.  Slíkt getur leitt til að heilsan er ekki alveg eins og best verður á kosið.  Íslendingar þurfa virkilega að láta skoða þessa vá sem er að koma í ljós. Æ, fleiri hafa samband sjálfir til að biðja um hjálp eða ættingjar sem hafa áhyggjur af sínu fólki. Covid -19  er ekkert grín og hefur tekið völdin víða í umræðu og er til dæmis í nánast öllum fréttatímum. Þegar maður upplifði fréttatíma í sumar án umræðu um veiruna þá staldrar maður við og hugleiðir hvaða áhrif hafa allar þessar fréttir af veikindum og dauðsföllum og allri áhættu og mögulegum smitleiðum. Þörfin á að fræða fólk var mikil en svo má spyrja hvort farið hafi verið yfir strikið. Þá er átt við að slíkt geti leitt til vanlíðunar, ótta og öryggisleysis.

Hefur verið hugað nægjanlega að áhrifunum á andlegu hlið umfjöllunarinnar?

Nei ekki að mínu mati en vekja þarf athygli til dæmis á sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum sem er nýtt úrræði líka vegna covid álagsins.

Þá þarf einnig að hugsa um hvort sú einangrun sem mjög margt eldra fólk skipaði sér í til að smitast ekki hafi gengið of langt. Millivegurinn er vandfundinn en afar mikilvægur. Áhættan hræddi marga sem þótti erfitt að fara innan um annað fólk og stundum fannst fólki að gengið væri of nærri því og dæmi voru um mikið tillitsleysi víða. En jafnfram mikla tillitsemi, það getur verið erfitt að finna hinn gullna meðalveg. Það  vita ekki allir hvað má og hvað ekki.

Mjög margt fólk segist hafa misst svo mikið að fá ekki knús frá vinum og vandamönnum. Slík knús eru okkur í blóð borin sem og handabandið sem við notum til að heilsast.  Getum við lifað með þessum breytingum? Hvernig förum við til baka?

Nú þarf að bretta upp ermar og fá fjölda sjálboðaliða til að koma til liðs við eldra fólk. Símavinir, heimsóknarvinir, félagsvinir, gönguvinir og hundavinir. Rauði krossinn hefur verið í forsvari fyrir því að halda utan um slíka sjálfboðaliða og halda námskeið fyrir þá í byrjun. Þau leiðbeina líka ef fólk nær ekki nógu vel saman, þá er hægt að breyta. Tilraunir með símavini á vegum sveitafélaga og félaga eldri borgara voru víða sett í gang en hættu mörg þegar allt gekk betur í sumar. Hvað nú?  Á að taka það upp aftur eða koma þessu í eitt kerfi, t.d. hjá Rauða krossinum. Það er til umræðu þessa dagana.

Mikilvægi sjálboðaliða nú, er það sem við verðum að taka föstum tökum. Rannsóknir sýna að það að vera sjálboðaliði er mjög gefandi og margir hafa talað um að það gefi fólki hamingjutilfinningu að gera gagn og/eða hjálpa öðrum að líða betur.

Þjóðin eldist því stórir árgangar eru nú að ná eldri borgara aldri. Þeir sem hafa tök á að fara fyrr á eftirlaun eru oft að velta fyrir sér hvað taki við. Þar er svo mikilvægt að koma inn þessari snjöllu hugmynd: Komdu og prófaðu sjálfboðaliðaverkefni. Margt er í boði svo ekki einblína á einn valkost. Leitum í hjartanu líka að öldruðum frænda eða frænku sem þarf að hringja í eða bjóða í kaffi.

Stöndum öll saman gegn einsemd og félagslegri einangrun.

 

Ritstjórn október 13, 2020 08:01