Það var komið að því að skila heyrnartækinu sem ég fékk lánað í viku. Það kom mér á óvart hvað það var einfalt að nota það og líka að það skyldi ekkert sjást. Verð samt að viðurkenna að einn daginn, gleymdi ég að setja það í eyrað áður en ég fór í vinnuna. En alla hina dagana prófaði ég tækið við mismunandi aðstæður og það gekk eins og í sögu. Það var ekki spurning að ég heyrði mun betur. Það voru engin aukahljóð í tækinu og það eina sem ég tók sérstaklega eftir, var að ég heyrði skrjáf í blaði við hægra eyrað mun hærra eftir að ég fékk tækið. Ég var ekki alveg viss um það heldur að það sæti rétt í hlustinni. Á endanum var ég hætt að taka eftir því að ég væri með heyrnartæki, gleymdi því hreinlega. Kannski var það af því að tækið er svona fullkomið? En þegar ég hætti að nota það eftir vikuna, fann ég virkilega fyrir því hvað heyrnin minnkaði þegar ég tók það úr eyranu. Það var eins og eyrað lokaðist til hálfs.
Að fá sér heyrnartæki sem fyrst
Á meðan ég prófaði tækið heyrði ég alls kyns hugmyndir fólks um hvenær það væri tímabært að fá sér heyrnartæki. Sumir sögðu að það ætti að fá sér tæki nógu snemma, aðrir sögðu að menn ættu ekki að fá sér tæki fyrr en í lengstu lög, því það gæti gert ill verra. Þegar ég skilaði heyrnartækinu til hans Björns Víðissonar í Heyrnartækni, sagði hann það vera kerlingabækur að menn ættu að bíða sem lengst með að fá sér heyrnartæki. „Það er allt sem mælir með því að fólk geri þetta sem fyrst, nýjustu rannsóknir sýna fram á það með margvíslegum hætti“, sagði hann. „Það er erfiðara að aðlagast breytingum eftir því sem fólk eldist og það er líka meiri hætta á heyrnarhnignun, gangi fólk lengi með skerta heyrn, því heilinn hættir að nema boðin“. Björn sagði að það væru líka tengsl milli heyrnarskerðingar og vitrænnar hnignunar. „Þeir sem gera ekkert eiga á hættu að eldast hraðar og verr. Heyrnin hefur áhrif á að heilinn haldi fullri virkni“, bætti hann við.
Fólk þarf að vera tilbúið
Björn sagði að það sé betra að byrja sem fyrst, ef menn væru með mikla heyrnarskerðingu. Þegar ég spurði hann hvort ég ætti kannski að bíða með að fá mér heyrnartæki, sagði hann ekkert vit í að bíða, það gæti bara orðið erfiðara fyrir mig að byrja aftur. En hann sagði jafnframt að það væri mikilvægt að sá sem fengi sér heyrnartæki væri tilbúinn í það. Vissulega horfi menn í kostnaðinn og svo þurfi að venjast tækinu. „Heyrnartækið má ekki enda niður í skúffu“, sagði hann. Það væri að vísu minna um að það gerðist í dag en áður, vegna þess að tækin hefðu batnað svo mikið. „Almennt finnst mér fólki ganga vel með tækin og menn nota þau. Sumir gera þetta hins vegar ekki á réttum forsendum. Fá sér kannski heyrnartæki vegna þrýstings frá maka eða fjölskyldu og finna svo alls kyns afsakanir fyrir að nota þau ekki“. Björn segist ráðleggja fólki að gera eitthvað, sé það komið með mikla heyrnarskerðingu, ekki vegna þrýstings frá öðrum, heldur vegna þess að það sé sjálft tilbúið að fá sér heyrnartæki. Hann segir útilokað að það geti haft slæm áhrif á heyrnina.
Góð heyrnartæki, betri og best
Mér var orðið ljóst þegar hér var komið sögu, að ég ætti að fá mér heyrnartæki fyrir hægra eyrað, sem er orðið ansi latt, enda hefur það lítið haft að gera undanfarin 15 ár. En þá var það spurning um hvaða tæki ég ætti að velja. Ég hafði prófað það dýrasta af OPN tækjunum sem fást í þremur tegundum, en það kostar 275.000 krónur. Björn sagði að almennt væri það þannig að gæðin fylgdu verðinu. Því dýrari sem tækin væru, þeim mun öflugri væru þau og betri í að greina raddir frá umhverfishljóðum. Það gilti í raun reglan, gott, betra, best, í þessum efnum. En hann taldi að OPN tækið númer 2, myndi líka henta mér prýðilega, en það kostar 235.000 krónur. Síðan er hægt að fá ódýrari tæki, allt niður í 104.000 krónur stykkið. Sjúkratryggingar greiða ekkert í heyrnartækjum fólks, sem hefur góða heyrn á öðru eyranu, þó heyrnin sé léleg á hinu, þannig að það er ljóst að ég fæ engan heyrnartækjastyrk á þeim bæ. Það eru hins vegar einhver stéttarfélög sem veita styrki til heyrnartækjakaupa. Þeir sem þurfa tvö heyrnartæki fá hins vegar 50 þúsund króna styrk frá Sjúkratryggingum fyrir hvort eyra.
Ég er þess fullviss um að líf mitt með heyrnartækinu mun verða frábært og þegar ég fer að missa meiri heyrn vegna aldurs, verð ég orðin þrautþjálfuð í að nota slík tæki. Þetta hlýtur því að vera hárrétt ákvörðun.