Mikill sparnaður fælist í auknum stuðningi við heyrnarskerta!

Kristján Sverrisson er forstjóri Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands en hann tók við því starfi 2013. Hann er sjálfur orðinn miðaldra, á sér áhugamál eins og tónlist, nýtur þess að syngja í kór, stundar útiveru og er almennt virkur í lífinu. Hann varð hins vegar fyrir slysi á heyrn fyrir nokkrum árum og hefur því kynnst á eigin skinni hvað heyrnarskerðing þýðir. Kristján var auðvitað mjög meðvitaður um heyrnarvernd en hvað varð til þess að hann missti heyrn á öðru eyra?

Kristján notar heyrnartæki sem auka lífgæði hans verulega.

,,Það var eitt af þessum slysum sem gerast í lífinu. Ég var á gæsaskytteríi með vinum mínum og við höfðum átt góðan dag. Þarna var orðið skuggsýnt og við sammæltust um að hætta að bíða eftir fuglinum. Ég var því nýbúinn að taka úr mér eyrnatappana og pakka byssunni þegar þrjár gæsir flugu hljóðlaust niður til lendingar skammt frá okkur. Aðeins einn okkar varð þeirra var, þreif upp byssuna og skaut fyrst einu skoti og svo öðru. Hann stóð vinstra megin við mig í lítilli fjarlægð og ég fann strax að heyrnin á vinstra eyra skaddaðist en það er einmitt svona sem slysin gerast,“ segir Kristján. Hann slær líka á létta strengi og bætir við að það hafi verið engu líkara en að æðri máttarvöld hafi lagt línurnar og sagt að til að hann áttaði sig nú á því hvernig best væri að þjóna heyrnarskertum væri best að skjóta úr honum heyrnina. Sem betur fer hefur Kristján tækifæri til að nýta sér tæknina og gengur með heyrnartæki. ,,Ég hvet alla til að bíða ekki of lengi með að gera það líka því heyrnartækjunum fylgja mikil lífsgæði þegar svona er komið.“

Heyrnarskerðing læðist oftast að

Kristján segir að heyrnarskerðing geti átt sér stað hvenær sem er á ævinni. ,,Hjá sumum er heyrnarskerðingin meðfædd en um 6-7 ára aldurinn hefur fjöldi barna með heyrnarskerðingu tvöfaldast. Ástæða þess geta verið margvíslegar eins og eyrnabólga, sýkingar og slys en aldurstengd skerðing byrjar að gera vart við sig upp úr fimmtugu. Það má reikna með að á aldursbilinu 50 – 60 séu um 20% fólks með heyrnarskerðingu, 60 – 70 er það um 30% og svo 70 – 80 u.þ.b. 40% og yfir 85 ára er helmingurinn orðinn verulega heyrnarskertur.“

Tíðni heyrnarskerðingar hærri hjá körlum

Kristján segir að heyrnarskerðing hjá körlum hafi í gegnum tíðina verið hávaðatengd á meðan ekki var gætt að heyrnarhlífum. Nú sé fólk almennt orðið meðvitaðra sem betur fer. ,,Karlmenn störfuðu auðvitað frekar þar sem hávaði var óhóflegur, óku stórum vélum, unnu á loftpressum, voru á sjó þar sem oft var mikill hávaði og svo framvegis. Það sama mælist meðal annarra þjóða svo líklega hefur erfðafræðin eitthvað með þetta að gera líka.“

Skyndilegt heyrnartap tilfinnanleg fötlun

Ef fólk missir heyrn skyndilega vegna slysa, hávaða eða veikinda segir Kristján að flestir bregðist við strax og reyni að fá eins mikla bót og hægt er. ,,Við finnum svo tilfinnanlega hvað heyrnarleysið er mikil fötlun ef heyrnin hverfur skyndilega,“ segir Kristján og talar af reynslu. ,,Vandamálið er aftur á móti þessi hæga og rólega, aldurstengda heyrnarskerðing sem við eigum öll á hættu að verða fyrir. Fólk gerir sér almennt ekki grein fyrir skerðingunni, hækkar bara í tækjunum og biður fólk um að endurtaka það sem sagt var o.s.frv. Svo smám saman verður umhverfið pirrað og skerðingin er orðin að risa vandamáli sem ekkert er gert í til að laga. Það er augljóst að fólk leitar allt of seint til okkar eftir aðstoð. Oft er það ekki fyrr en það hættir að vinna og getur þá rakið vandamálið aftur um 20 ár. Þá hefur viðkomandi gjarnan dregið sig inn í rólegt starf þar sem hefur ekki reynt á heyrnina en svo þegar vinnunni sleppir og fólk ætlar að fara að taka þátt í félagslífi er það ekki fært um það, nýtur þess til dæmis ekki lengur að fara í leikhús eða tónleika því öll hljóð renna saman.“

Kristján segist sjá sama vandamálið um allt og nefnir sem dæmi þegar hann fari á fundi hjá ýmsum klúbbum þar sem eru samankomnir karlar sextugir og yfir. ,,Í 40 manna hópi ættu 30 – 40% viðstaddra að vera með heyrnartæki en það er alls ekki. Það segir mér að þeir heyrnarskertu mæta ekki á samkomur. Þeir hafa dregið sig í hlé.“

Skömmin sem fylgir því að eldast

Hluti vandamálsins segir Kristján auðvitað vera afneitun fólks því það fylgi því skömm að eldast. ,,Aldurstengda heyrnarskerðingin vindur upp á sig því hún læðist að okkur og er ósýnileg. Það átta sig allir á vandanum ef við erum hölt eða í fatla en það sér enginn heyrnarskerðinguna. Það styður síðan þöggunina og skömmina og gerir að verkum að margir halda að heyrnarskerðingin sé lítilvæg fötlun sem engin nauðsyn sé að veita athygli.“

Hraðari vitræn skerðing

Áhrif öldrunar má lýsa á þennan myndræna hátt og allir vilja forðast í lengstu lög.

Kristján segir ótrúlega algengt að fólk kaupi sér rándýr heyrnartæki en noti þau ekki. ,,Þessi tæki eru í dag orðin öflugar snjalltölvur sem hægt er að laga að skerðingu hvers og eins og eru fyrst og fremst stíluð inn á að við getum greint talað mál. Það vita allir að það skiptir okkur svo miklu máli þegar við eldumst að geta heyrt og fylgst með. Rannsóknir sýna mjög skýrt að jafnaldrar, með svipaða heyrnarskerðingu, þar sem annar aðilinn hefur notað heyrnartæki en hinn ekki, að vitræn elliglöp verða hraðari hjá þeim sem ekki nota heyrnartæki. Með tækjunum fær heilinn örvun og gerir fólki kleift að taka þátt í félagsstarfi þar sem er líka örvun. Öll þátttaka skiptir gífurlegu máli við að halda okkur við. Það er svo sorglegt að fylgjast með því að sumir heyra sífellt minna og enda að lokum í einangrun þegar heyrnartækin gætu gert lífið svo miklu ánægjulegra, bæði fyrir þann heyrnarlausa og aðstandendur,“ segir Kristján.

30 til 40 þúsund Íslendinga með heyrnarskerðingu

Á Íslandi segir Kristján að megi reikna með að séu 30 til 40 þúsund manns sem þurfi einhverja hjálp vegna heyrnarskerðingar. ,,Af þeim eru svona u.þ.b. tveir þriðju sem hafa eignast heyrnartæki og 20% af þeim sem aldrei nota þau. Það er því ekki nema helmingur af þeim sem þurfa hjálp sem búið er að ná til svo það er einfalt að sjá hvað vandamálið er útbreitt.“

Tækin grípa röddina sem er næst 

Kristján segir  að tækin átti sig á því þegar notandi setjist inn í bíl eða fari inn á hávært kaffihús. Þá skipti þau sjálfvirkt um kerfi, ýta frá umhverfishljóðum og reyna að grípa röddina sem er næst. ,,En það er auðvitað nauðsynlegt að kunna að nota þau. Við fáum ítrekað mjög illa heyrandi fólk til okkar sem við sjáum, þegar við tengjumst tölvunni í  heyrnartækjunum, að hefur ekki eða lítið verið að nota þau. Þá kemur í ljós að af því að viðkomandi hefur sáralítið notað tækin hann nær ekki að venjast þeim. Áreitið verður svo mikið þegar tækin eru sjaldan notuð að fólk gefst upp. Staðreyndin er sú að það er nauðsynlegt að halda út með tækin í 6-8 tíma samfellt á dag til að byrja með. Þegar hljóðin koma skyndilega inn með hjálp heyrnartækjanna finnst fólki áreitið of mikið eftir að hafa fengið að vera ,,í friði“ í mörg ár. En heilinn sorterar út og stillir sig inn á þetta nýja hljóðumhverfi á örfáum vikum. Allt of margir þrauka ekki og setja rándýr tæki bara ofan í skúffu.“

Umhverfið verður að taka þátt

Kristján nefnir hversu erfitt sé fyrir heyrnarskert börn að fóta sig í lífinu. ,,Börn eru svo fær að fela og fljót að átta sig á því hvernig þau geta þóst heyra eins og aðrir. Hljóðvist í umhverfi barna skiptir mjög miklu máli svo að þau heyri vel. Það sama á við um eldra fólk en oft kemur sparnaður á byggingartíma niður á hljóðvist hjúkrunarheimila og skóla og útlit byggingar látið ganga fyrir.“

Norðmenn sér á báti

30% allra sem náð hafa 60 ára aldri glíma við heyrnarskerðingu sem hægt er að ráð bót á með heyrnartækjum.

Í Noregi segir Kristján að heyrnarskerðing sé viðurkennd fötlun. ,,Heyrnartæki og allur hjálparbúnaður er ókeypis fyrir norska borgara. ,,Heildarniðurgreiðslur íslenska ríkisins í málaflokkinn eru nú um 300 milljónir. Bætur hafa verið að dragast aftur úr hér hjá okkur og hafa ekki hækkað í takti við vísitölu. Það þýðir að heyrnartækin eru alltaf að verða flóknari og dýrari en greiðsluþátttakan hefur mikið til staðið í stað. Þegar ég kom hingað til starfa fyrir 11 árum var niðurgreiðslan 35 þúsund krónur á  hvort eyra. Þá kostuðu ódýr tæki kannski um 100.000 krónur. Tækin hafa síðan haldið áfram að hækka í verði og eru nú komin upp í mörg hundruð þúsund. Greiðsluþátttakan hefur lítið hækkað svo nú er orðið gífurlegt ósamræmi á kostnaði og þátttöku ríkisins í þessum dýru tækjum. En á meðan ráðamönnum finnst heyrnarskerðing engin fötlun eru þeir ekki tilbúnir að greiða hana niður. Stéttarfélög og atvinnurekendur taka stundum þátt en það er ekkert samræmi í því. Allt of mörg bíða með að gera eitthvað í málunum þangað til þau eru hættir að vinna og búin  að missa réttindi til styrkja og þá hafa þau ekki efni á þessum dýru tækjum.“

Fullorðnir kvarta síður

,,Svo er annað sem er alveg fáránlegt og ég komst sjálfur að,“ segir Kristján. ,,Það  er að ef þú heyrir lítið á öðru eyra en vel á hinu færðu ekki styrk því hann er miðaður við heyrnina á því eyra sem þú heyrir betur með. Að sama skapi er kuðungsígræðsla þannig að við græðum kuðung í bæði eyru á börnum sem fæðast heyrnarlaus og þau verða fullheyrandi. Fullorðnir sem missa heyrn á báðum eyrum, til dæmis vegna heilahimnubólgu, fá bara kuðungiígræðslu í annað eyrað og skýringin er sparnaður. Vandamálið er auðvitað ekki síst að þetta er þögull hópur fullorðinna sem vill ekki kvarta og á meðan náum við ekki eyrum þeirra sem þurfa að skilja þennan risastóra vanda. Þegar heyrnartæki eru sett í samhengi við vitræna skerðingu ætti valið um styrki að vera einfalt,“ segir Kristján en bætir við að yngra fólk sé nú orðið meðvitaðra um lausnir sem eru til, svo þrýstihópurinn gæti orðið sterkari innan fárra ára. Við séum bara ekki komin þangað enn.

Kaupendur plataðir

Heyrnartæki eru miskostnaðarsöm.

Kristján segir að eftirlit með heyrnartækjum á Íslandi sé ekki neitt í dag sem segi sína sögu. Hann segir frá því að á markaðnum hafi t.d. verið til sölu mjög ódýr heyrnartæki sem hafi magnað öll hljóð. ,,Heyrnarskertir þurfa ekki að magna hljóð sem þeir heyra. heldur bara þau sem þeir heyra ekki. Ég kvartaði undan þessu en fékk bágt fyrir og var sakaður um að vera að standa bara vörð um okkar viðskipti. Ég er fulltrúi fyrir ríkisstofnun og við eigum ekki að þurfa að vera í samkeppni um vörur. Heyrnar- og talmeinastöðin er að hluta til fjármögnuð af hagnaði af sölu heyrnartækja, sem hefði aldrei átt að vera komið á. Ríkisstofnun á að vera rekin af almannafé og við ættum að vera óbundin af því að keppa á markaði. Við eigum að vera þjónustufyrirtæki við heyrnarskerta Íslendinga en þegar búið er að blanda þessu saman er orðin til mikil hætta. Okkur er gert að vera sjálfbær að einhverju leyti en það er svo langt frá því að við getum það því sparnaður hefur komið niður á þessari ríkisstofnun eins og öðrum. Okkur hefur því ekki haldist á sérfræðingum og getum illa keppt við einkarekin fyrirtæki.

Ætlar að láta illa þangað til skilningur eykst

Kristján Sverrisson berst fyrir réttindum heyrnarskertra og notar sjálfur heyrnartæki til að auka lífsgæði sín. Hann ætlar að halda áfram að gera ráðamönnum ljóst hversu mikill sparnaður felist í því að styðja við þá sem þurfa aðstoð við heyrnarskerðingu í líkingu við það sem gert er í Noregi.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn mars 15, 2024 06:00