Hver er stærsta gjöfin?

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifar:

Gjafir eru hluti af lífi flestra, bæði að fá gjafir og gefa gjafir. Einfaldara er að fá gjafir, maður tekur bara á móti þeim og þakkar kærlega fyrir. Erfiðara er að finna gjafir fyrir aðra. Með reglulegu millibili kemur upp spurningin: „Hvað á ég að gefa – maka, mömmu, pabba, dóttur, syni, barnabörnum, vinkonu og svo framvegis. Því stærri sem fjölskyldur og vinahópar eru þess oftar kemur þessi spurning upp. Málið verður líka æ vandasamara eftir því sem lengra líður. Því eldra sem fólk verður þess meira á það venjulega og því erfiðara að finna gjöf sem gleður.

„Góðar eru gjafir þínar, en meira þykir mér verð vinátta þín og sona þinna,“ sagði Gunnar á Hlíðarenda við Njál á Bergþórshvoli í hinu margfræga riti Brennu-Njálssögu.

Stundum er svo komið að nærvera er besta gjöfin. Þannig er því til dæmis háttað þegar fólk er að hverfa burtu úr þessu jarðlífi. „Til hvers eru þið að hlaða á mig gjöfum, dauðvona manninn,“ sagði maður mér náinn skömmu áður en hann dó. Sá maður vildi helst návist þeirra sem honum þótti vænt um og hennar naut hann sem betur fer.

Meðan á vegferðinni stendur eru gjafir þó mikilvægur hluti af tilverunni. Allir kannast við örvæntingarsvipinn sem kemur á fólk sem eigrar um stórverslanir til að finna gjafir fyrir þá „sem allt eiga“.

Slíkt á hins vegar ekki við um alla. Ungt fólk er í þörf fyrir ýmislegt fyrir sjálft sig og heimili sitt. Þannig gjafir er auðvelt að finna og skemmtilegt að velja.

Stundum slær fólk saman í gjafir og lætur þann sem gjöfina fær um að velja það sem hann vill. Það getur verið ágætt. Ekki eru þó allir ánægðir með slíkt fyrirkomulag, finnst það ekki nógu „persónulegt“, eins og það er kallað.

Auðvelt er að velja gjafir fyrir yngri börn – en þegar þau vaxa upp verður málið flóknara. Að gefa unglingum er ekki á hvers manns færi. Ömmur og afar komast oft í mikil vandræði þegar þar er komið sögu. Þá er gripið til peningagjafa.

Þegar fokið er í flest skjól fá karlmenn gjarnan sokka og nærbuxur en konur blóm, krem og súkkulaði. Gjarnan bera gjafir afstöðu gefandans glöggt vitni.

Ein sérstæðasta gjöf sem ég hef heyrt um var þegar maður gaf konu sinni efni í náttföt fyrir sjálfan sig „af því að þér þykir svo gaman að sauma,“ eins og hann orðaði það þegar eiginkonan tók upp „jólagjöfina“.

Þetta minnir á að hér áður fannst eiginmönnum heimilistæki góðar gjafir fyrir eiginkonuna. Það er af sú tíð, nú þykir það nánast móðgun ef eiginmaður gefur konu ryksugu, hrærivél og fleira í eldhúsið. Þá er gjarnan sagt, með svolitlum þóttasvip,  að slíkt sé „gjöf til heimilisins“.

Til eru ýmsar viðkvæmar hliðar á gjafamálinu – svo sem er hvort rétt sé að skipta gjöfum. Og ekki er síður viðkvæmt að gefa öðrum það sem manni hefur verið gefið. Slíkt getur skapað vandræði eða jafnvel sært upphaflega gefandann. Í raun endurspegla gjafir því allt tilfinningaspektrúm manneskjunnar, allt frá mikilli kátínu niður í dýpstu vanlíðan.

Þegar öllu er á botninn hvolft eru sennilega sígild fyrrgreind orð Gunnars á Hlíðarenda sem hann lét falla forðum á hlaðinu heima hjá sér „meira þykir mér verð vinátta þín og sona þinna.“ Vinátta, ást og nærvera er dýrmætasta gjöfin sem hægt er að gefa nokkurri manneskju.

gudrunsg@gmail.com

Guðrún Guðlaugsdóttir júní 11, 2018 10:11