Danskir eldri borgarar fá dýrtíðarstyrki

Dönsk stjórnvöld hafa ákveðið að bregðast við áhrifum hás orku- og matvælaverðs á kjör eldri borgara með því að greiða þeim 300 þúsund efnaminnstu í hópi ellilífeyrisþega í landinu sérstakan styrk uppá fimm þúsund danskar krónur, andvirði um 95 þúsund íslenskra króna.

Verð á mörgum lífsnauðsynjum, svo sem orku til húshitunar, eldsneyti og mat hefur hækkað hratt í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Ríkisstjórn Mette Frederikssen telur það vera sanngirnismál við þessar aðstæður að létta undir bagga með efnaminnstu ellilífeyrisþegunum með skattfrjálsri eingreiðslu uppá 5.000 danskar krónur.

Samkvæmt frétt á fréttavef danska ríkisútvarpsins, DR.dk, mun þessi aðgerð kosta danska ríkiskassann um 1,1 milljarða danskra króna, andvirði rétt rúmlega 20 milljarða íslenskra.

Samtök eldri borgara í Danmörku fagna þessu framtaki stjórnvalda. „Þetta er velkomin aðstoð sem mun koma sér mjög vel fyrir þau fjárhagslega verst settu í hópi eldri borgara. Margir eldri borgarar þurfa að lifa spart og þegar verð á nauðsynjum hækkar svona mikið þá kemur það illa niður á daglegu lífi fólks,“ segir í yfirlýsingu frá samtökunum Danske Seniorer.

Ritstjórn apríl 29, 2022 15:47