Þarf ekki að standa yfir pottunum allan daginn

Úrval af tilbúnum veislumat verður sífellt fjölbreyttara. Það má nefna verslanir eins og til dæmis  Fylgifiska, Kjöt og fisk og Kjötkompaníið, sem bjóða uppá tilbúin veisluföng, sem fyrir leikmann, standast samanburð við heimaeldaða veislurétti.  Kvennakrimmaklúbburinn, er hópur kvenna sem eru í bókaklúbb og lesa glæpasögur eftir konur. Konurnar í klúbbnum bjóða mökum sínum eða fylgifiskum árlega til matarveislu. Ein slík var haldin um síðustu helgi og var þá boðið uppá einstaklega ljúffengan Bæuf de bourguignon sem aðalrétt. Gestgjafinn hvíslaði því að blaðamanni Lifðu núna að rétturinn hefði verið keyptur í Kjöt og fisk, verslun sem er rekin á Bergstaðastræti og hefur einnig haft útibú í Garðabæ. Það skal tekið fram að Garðabæjarútibúið er lokað eins og er, en þessir réttir frá Kjöt og fisk, eru einnig til sölu í Melabúðinni.

Konurnar í Kvennakrimmaklúbbnum keyptu þrjár krukkur af réttinum, en í hverri krukku er eitt kíló af mat. Það er ætlað fyrir þrjá til fjóra. Krukkurnar þrjár kostuðu 10.500 krónur. Þeim fannst þetta frábært. „Þetta er mjög handhægt þegar tíminn er naumur og ekki hægt að standa yfir pottunum allan daginn“, sagði ein þeirra. „Þetta er þekktur franskur réttur sem þarf að sjóða, ég veit ekki í hvað marga klukkutíma“ bætir hún við og segir hiklaust hægt að mæla með þessum rétti þegar halda á veislu. Hann er keyptur í glerkrukkum og ef menn vilja fara aftur í búðina og kaupa sama rétt, eða einhverja aðra sem hægt er að fá, geta þeir skilað krukkunum gegn 200 króna gjaldi.

 

 

Ritstjórn mars 16, 2018 13:18