Fólk sem er orðið það lasburða að það þarf að komast á hjúkrunarheimili þarf að sækja um það hjá svokallaðri færni- og heilsumatsnefnd, en þær eru átta á landinu, ein í hverju heilbrigðisumdæmi. Nefndin fer yfir umsóknirnar og reynir að meta vitræna og líkamlega færni umsækjenda og einkenni og horfur undirliggjandi sjúkdóma. Áður en hægt er að taka afstöðu til þess hvort fólk fái dvöl á hjúkrunarheimili eða ekki, er þess krafist að einstaklingurinn hafi farið í gegnum greiningu, meðferð og endurhæfingu í heilbrigðiskerfinu. Það er einnig hægt að sækja um tímabundnar hvíldar- og endurhæfingarinnlagnir á hjúkrunarheimili til nefndarinnar.
Biðtími lengri á vinsælum stöðum
Pálmi V. Jónsson öldrunarlæknir sem er formaður færni- og heilsumatsnefndar höfðuborgarsvæðisins segir að nefndin forgangsraði sjúklingunum, en á endanum sé það stofnunin sjálf sem velji fólkið inn, einn af tveimur tilnefndum í hvert skipti sem rými opnast. Biðtíminn geti farið eftir því hvort menn hafi sótt um „vinsælan“ stað, eða stað sem minni eftirspurn sé eftir. Það sé lengri bið eftir hjúkrunarheimilisdvöl , ef heimilið er vinsælt. Sömuleiðis lengir það biðtímann að jafnaði ef aðeins er sótt um einn eða fáa staði. Því mælir nefndin með því að fólk sæki sem víðast, enda er mannauðurinn sá sami, þó að húsnæðið sé á mismunandi aldri. Margt eldra fólk kann ekki síður vel við sig í eldra og minna rými en þeim stærri og nýrri, enda muna þeir sem elstir eru tímana tvenna.
Hvert getur fólk snúið sér?
Telji fólk að aldrað foreldri sé lasburða og geti ekki lengur búið í sjálfstæðri búsetu heima, þarf að grípa til viðeigandi ráðstafana:
- Fara má á heilsugæsluna í hverfinu eða til félagsþjónustunnar til að fá ráðleggingar.
- Einnig er hægt að leita á göngudeild öldrunarlækninga á á Landakoti eða leita til öldrunarlæknis á stofu Þá er foreldrið stundum lagt á sjúkrahús, einkum ef veikindi eru bráð eða færni tapast hratt.
- Áður en sjúkrahúsdvöl lýkur er efnt til fjölskyldufundar og þar er ástand og horfur ræddar og tekin afstaða til þess hvort foreldrið getur farið aftur heim, oft með auknum stuðningi heimahjúkrunar og heimaþjónustu, ásamt með reglulegum hvíldar- og endurhæfingarinnlögnum.
- Ef mat ættingja og teymis á sjúkrahúsi er að líkindi séu fyrir því að einstaklingurinn geti ekki bjargað sér heima með stuðningi, þarf að sækja um Færni- og heilsumat. Hægt er að sækja umsóknareyðublað á heimasíðu Landlæknis. Fagfólk í heilsugæslu- eða félagsþjónustu eða á Landspítala leiðbeinir einnig um þessi atriði.
- Færni og heilsumatsnefnd höfuðborgarsvæðisins er með aðsetur hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í Þönglabakka. Starfsmenn þar eru með símatíma alla virka daga milli kl. 11:00 og 12:00, í síma 585-1300.
Alla jafna er miðað við að ekki líði meira en fjórar vikur frá því að nefndinni berst beiðni um færni-og heilsumat þar til að niðurstaða liggur fyrir. Starfsmenn nefndarinnar óska eftir vottorðum frá fagfólki sem kemur að þjónustu við umsækjendur. Stundum dregst nokkuð að slíkar umsagnir berist. Starfsmenn nefndarinnar reyna að ýta á eftir umsögnum eins og kostur er, en fyrir kemur að þetta atriði leiði til tafa á mati umsókna.
Tekið skal fram að það er ólíklegt að viðkomandi fái inni á hjúkrunarheimili, ef hvorki læknir né félagsráðgjafi hafa komið að málinu og þá er fyrsta skrefið að leita eftir heildrænu öldrunarmati hjá þeim aðilum sem nefndir hafa verið hér að ofan.
http://www.landlaeknir.is/gaedi-og-eftirlit/notendur-heilbrigdisthjonustu/faerni-og-heilsumat/