Þegar kuldinn og myrkrið læðast að okkur á veturna, getur verið freistandi að sleppa því að fara út að hreyfa sig. Snúa sér á hina hliðina og sofa aðeins lengur. En það getur hins vegar verið árangursríkt að fara út að ganga og hreyfa sig úti í kulda. Þegar fólk gerir það, eyðir það viðbótar orku við að hita upp líkamann í kuldanum. Til viðbótar kemur síðan orkan sem fer í hreyfinguna.
Það má auðvelda sér vetrarhreyfinguna með ýmsu móti og þessi ráð af systurvef Lifðu núna í Bandaríkjunum (aarp) sem hér fara á eftir, geta hugsanlega nýst íslenskum göngugörpum, en göngur hafa orðið ein helsta líkamsrækt eldri kynslóðarinnar í Covid. Það má bæta við þessar ráðleggingar að fólk hér heima fari ekki í gönguferðir útivið ef það er ekki er stætt vegna ofsaveðurs. Það er líklega meira vandamál hér heima á Fróni en í Bandaríkjunum.
Að eiga hlý föt í skápnum
En galdurinn þegar kólnar er að klæða sig eftir veðri. Í þessari grein á aarp vefnum er fólki ráðlagt að klæða sig í eitt lag utan yfir annað. Mælt er með að fólk klæðist fötum næst sér úr efnum sem halda raka frá líkamanum. Þetta gildir um efni eins og polyester, merino ull, ull og silki. Þar næst ætti fólk að fara í flíkur úr gerviefnum, síðan flíkur úr flísefnum eða öðrum hlýjum efnum yst. Yfir þetta allt er gott að klæðast vindþéttum og vatnsheldum jakka ef á þarf að halda.
Það má ekki gleyma hvað húfur, vettlingar og sokkar úr gerviefni skipta miklu máli. Fólki ráðlagt að forðast bómullarsokka og aðrar flíkur úr bómullarefni. Bómull dregur í sig raka frá líkamanum eða vætunni úti og fólki líður eins og það sé blautt og kalt næst sér.
Ef það er frost úti er fólki ráðlagt að hafa trefil eða klút yfir nefi og munni, til að hita upp loftið sem það andar að sér. Grímur þjóni svipuðum tilgangi séu þær í notkun vegna Covid.
Skórnir þurfa að vera góðir og passa vel. Þeir eiga að veita góða einangrun og sólinn þarf að hafa gott grip. Það er hægt að kaupa mannbrodda til þess að setja yfir sólana, sem eykur gripið. Slíkt getur verið nauðsynlegt í hálku. Það er svo hægt að fá góðar ráðleggingar um skó í helstu útivistarbúðum og fyrir okkur sem búum í Reykjavík er mikið úrval mannbrodda til sölu í Skóbúðinni í Austurveri.
Byrja hægt og rólega
Ef fólk er að byrja að stunda gönguferðir er mikilvægt að taka stöðuna og reyna að átta sig á hvað hentar. Alls ekki byrja of bratt. Ef það er kalt úti, veldur það álagi á hjarta og lungu að fara út að ganga og það hentar kannski ekki öllum. Í slíkum tilvikum er ráðlegt að ræða við lækninn sinn, ætli menn að hefja göngur utanhúss. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma eða hafa nýlega fengið hjartaáfall eða þurft í uppskurð.
Það er hægt að lengja göngurnar smám saman. Mælt er með 30 mínútna göngu daglega alla virka daga. Fyrir þá sem eru ekki í góðu formi, má byrja á að skipta þeim niður í tvennt og ganga þá tvisvar á dag í 15 mínútur.
Öryggi skiptir máli í gönguferðum. Þannig er mælt með því að ganga í björtu veðri en ef gengið er í myrkri er sjálfsagt að vera með endurskinsmerki. Það er líka rétt að athuga veðurspána þegar menn ætla út að ganga og halda sig við þar til gerða göngustíga. Ef það er flughált er mælt með því að fólk sleppi því að fara í gönguferðir. Það er vegna þess að þá er hætta á að fólk á öllum aldri geti dottið. Það er meira mál fyrir eldra fólk en yngra að detta og því er hættara við beinbrotum.
Það er einnig mikilvægt að huga að vatnsdrykkju og að þorna ekki upp á göngunni segir í greininni. Þegar það er kalt er fólk ekki jafn þyrst eða tekur minna eftir því, þannig að mönnum er ráðlagt að drekka vel áður en þeir leggja af stað í göngu, sérstaklega ef þeir ætla í lengri göngu.
Ekki sleppa gönguferðinni
Útbúnaður og öryggisráðstafanir eru eitt, en það að hafa sig af stað er það erifðasta við göngur í köldu veðri að vetrarlagi. Hvað er hægt að gera í því? Sérfræðingur sem rætt er við, segir að þrjóska sé svarið. Hún hjálpi fólki að halda sínu striki þar til gönguferðin verði að vana. Það hjálpi líka að ganga með vinum sínum eða ganga í gönguklúbb í hverfinu, að því gefnu að fólk gæti að smitvörnum og noti til að mynda grímur.
Að tala við vinkonu eða vin í símann, er líka önnur leið til að hafa það skemmtilegt í gönguferðinni, en þá er mikilvægt að hafa heyrnartól í eyrunum til að hafa hendurnar lausar á meðan þú ert að spjalla.
Annar kostur er að njóta útsýnisins á meðan gengð er. Þannig verður gangan að enn ánægjulegri upplifun.
Að lokum, ekki gleyma að sú ákvörðun að byrja nýja hreyfingu er fjárfesting í betri heilsu, þó árangurinn komi ekki í ljós strax. Ef þú byrjar að ganga núna um miðjan vetur, verðurðu orðinn professional næsta sumar.