Þegar tveir heyrnardaufir búa saman

Erna Indriðadóttir

 

Erna Indriðadóttir fjölmiðlakona skrifar

 

„Ég þarf endilega að senda þér skemmtilegt efni sem vinur minn sendi mér í tölvupósti“, sagði minn betri helmingur. Hann sat við skrifborðið i vinnuherberginu en ég var með mína tölvu í stofunni  og beið spennt eftir sendingunni. Og sjá – þarna datt hún inní pósthólfið mitt.  Tíu boðorð sem heyrnarskertir myndu óska að þeir sem umgangast þá myndu halda í heiðri – og þau eru svona:

  1. Þú skalt ekki tala við mig úr öðru herbergi.
  2. Þú skalt ekki snúa baki í viðmælanda þinn eða tala við hann þegar hann snýr frá þér.
  3. Þú skalt ekki tala á meðan þú gengur í burtu.
  4. Þú skalt ekki líta undan á meðan þú heldur áfram að tala.
  5. Þú skalt ekki tala ef umhverfishljóð (vatn að renna, útvarp, sjónvarp, samræður) eru jafn hávær og rödd þín.
  6. Þú skalt ekki byrja að tala fyrr en þú hefur náð athygli þess  heyrnarskerta og sá hinn sami er ekki að lesa, horfa á sjónvarp eða á annan hátt upptekinn.
  7. Þú skalt ekki tala ef andlit þitt er í skugga eða ósýnilegt viðmælanda þínum.
  8. Þú skalt ekki halda fyrir munninn á meðan þú talar.
  9. Þú skalt ekki tala of hratt og EKKI hrópa.
  10. Þú skalt sýna þolinmæði, stuðning og umhyggju ef heyrnarskertir eiga erfitt með að skilja það sem sagt er.

Ég var alveg agndofa. Kannski fyrst og fremst vegna þess að við sambýlingarnir erum farnir að heyra frekar illa. En það skal strax tekið fram að við erum ekki alvarlega heyrnarskert því þeir sem glíma við alvarlega heyrnarskerðingu þurfa sannarlega á tillitssemi umhverfisins að halda, eins og mér hefur verið bent á þegar ég ræði þetta mál. Það má frekar kalla okkur heyrnardauf.  En þarna var ekkert einasta boðorð sem snerist um það hvað sá sem er heyrnardaufur ætti að gera sjálfur til að auðvelda samskipti sín við aðra, já kannski jafnvel við aðra heyrnardaufa! Ég fór að missa heyrn á hægra eyra um fimmtugt og var svo framtakssöm að fá mér heyrnartæki fyrir rúmum tíu árum. Sambýlismaðurinn var ekki farinn að fá sér heyrnartæki og sá greinilega enga ástæðu til að gera það. Hann kvartaði mikið yfir þvi að ég talaði við sig úr öðrum herbergjum og það gengi auðvitað ekki, samanber boðorðin 10. Já og stundum var ég farin á hrópa sem maður má bara alls ekki að gera. Við ræddum þetta svolítið og eftir nokkrar vikur fór minn maður, ekki mjög glaður,  og fékk sér heyrnartæki, fyrir bæði eyrun. Þá gerði ég auðvitað ráð fyrir að nú rynni upp betri tíð með blóm í haga. En, nei hann notaði tækin sáralítið, næstum ekkert. Fyrst var það Covid, heyrnartækin áttu það til að flækjast í grímunum og það gekk auðvitað ekki. Enda kostar það ekkert smá að týna heyrnartæki. Nú eru það gleraugun, heyrnartæki og gleraugu fara ekki vel saman, þannig að heyrnartækin hvíla nú í nær eilífri hleðslu á náttborðinu. Koma að afar litlu gagni. Ég las í grein í norsku blaði um að það væri nauðsynlegt að nota heyrnartækin að staðaldri, til að heilinn vendist því að heyra með þeim. Það gerði sáralítið gagn að setja þau eingöngu í eyrun við hátíðleg tækifæri, þegar maður ætlaði  ekki að missa af  neinu. Ég ræddi þetta að sjáflsöguð við sambýlismanninn, sem lagði ekki mikinn trúnað á þessa kenningu og ætlaði ekki að hætta á að týna heyrnartækjunum, þegar þau flæktust í gleraugnaspöngunum.  En hvað gerist þá. Ég týni mínu eina heyrnartæki, sem ég hafði sett í töskuna mína þegar ég sótti það á snyrtistofu þar sem ég hafði verið í nuddi og þurft að taka það úr eyranu.  Ég fékk það innpakkað í lítinn plastpoka og setti það strax á vísan stað í töskuni. Siðan for ég ýmissa erinda, meðal annars í bakarí og út í búð til að kaupa í matinn. Þegar ég kom heim og ætlaði að taka tækið aftur uppúr töskunni var það horfið. Það hefur sennilega flækst í einhverju dóti sem ég var að taka uppúr töskunni og fokið út í veður og vind, enda afskaplega lítið og létt. Þó ég þræddi alla staði sem ég hafði farið á með töskuna, og að ég hélt tækið, bar það engan árangur. Og niðurstaðan er sú að við sambýlingarnir getum alls ekki talað saman milli herbergja, þó við höldum það stundum. Og heldur ekki alltaf þó við séum í sama herbergi, enda segir í boðorðunum sem eru rakin hér að ofan að maður skuli ekki snúa baki í viðmætalndann eða tala við hann þegar hann snýr frá manni. Tveir heyrnardaufir sem búa saman og heyra lítið í hvorum öðrum er ekki glæsilega framtíðarsýn.  Ég fer og kaupi nýtt heyrnartæki.

Erna Indriðadóttir ágúst 14, 2023 08:18