Orðinn of gamall fyrir starfið?

Bandaríski frumkvöðullinn Bill Heacock rekur fyrritæki og kennir fólki hvernig á að búa til námskeið fyrir vefinn og kenna þau. Hann hefur áhyggjur af því að hann þyki of gamall fyrir þetta starf, segir í grein á vefsíðu aarp samtakanna í Bandaríkjunum.

Kennir kennslutækni á vefnum

Bill hefur eytt nánast helmingi ævinnar í að þjálfa þá sem kenna á námskeiðum. Síðustu 13 ár hefur hann ásamt eiginkonu sinni rekið fyrirtækið Heacock, Perez og félagar. Það má segja að hann sé ofurkennari, þar sem hann kennir kennurum eða fyrirlesurum að verða betri í sínu starfi. Hann heldur bæði þriggja og fimm daga námskeið, þar sem hann kennir fólki að búa til og kenna námskeið á vefnum.

Hvað ætli gamlinginn kunni?

Heacock sem er rúmlega sextugur er stoltur af því að vera í fremstu röð þeirra sem kenna kennslutækni á vefnum, en hefur áhyggjur af því að aldurinn dragi úr trúverðugleika hans meðal unga fólksins sem sækir námskeiðin. „Tekur unga fólkið mark á manni með gráan hármakka og yfirskegg? Aldursmunurinn er svo augljós“, segir hann. „Maður finnur fyrir þessari gjá og ég hef áhyggjur af því að þau hugsi „Hvað ætli svona gamall karl kunni fyrir sér?“ “

Þreyttur á hótelmat og hótelherbergjum

Ferðalögin eru líka farin að verða íþyngjandi. Heacock sem býr í Florida, er á stöðugum ferðalögum. Það hljómar kannski spennandi, en hann er orðinn dauðþreyttur á hótelmat, hótelherbergjum og þrengslum í flugvélum „Stundum þrái ég ekkert heitar en að fá mér bara pizzu uppá herbergi“, segir hann. Bill er mjög ánægður með starf sitt og er hreint ekki á þeim buxunum að fara að hætta, sérstaklega ekki núna þegar hann þarf að kosta son sinn til mennta. Hann telur ekki að hann hafi orðið af viðskiptum vegna aldursins, en hefur áhyggjur af að það kunni að líða að því.

Hvað segir vinur hans?

Skólafélagi Bills, segist skilja að hann hafi áhyggjur. Það sé almennt álitið að menn séu hræddir við nýja tækni þegar aldurinn færist yfir. Hann veltir hins vegar fyrir sér hvort aldurinn sé í raun og veru vandamál, eða hvort þetta sé bara kvíði. „Bill er sterkur. Hann hleypur 9-12 kílómetra á viku. Hann borðar hollan mat og er líklega léttari en þegar við vorum í skóla. Hann hefur útlitið með sér, með allt þetta hár“, segir hann. „En ég myndi ráðleggja honum að lita á sér hárið“.

Sérfræðingurinn segir…

Roy Cohen markþjálfi í New York segir að Bill sé greinilega að bjóða fram þjónustu sem fyrirtæki hafi enn fullan áhuga á. Það gæti verið að hann væri að dæma sjálfan sig of hart. „Hann er með mjög flott viðskiptamódel“ segir Roy. „Kannski ætti hann að ráða nýjan starfsmann. Hann gæti líka endurskoðað það hvernig hann auglýsir sig. Hann ætti að beina sjónum minna að sjálfum sér, en meira að þeim árangri sem fyrirtækið hefur náð. Og hann ætti kannski að raka af sér skeggið – en ekki lita á sér hárið.

Niðurstaðan

Bill segir að hann muni breyta auglýsingum sínum og leggja meiri áherslu á það sem hann sé að gera, en sína eigin persónu. Og hann er búinn að raka af sér yfirskeggið! Það mikilvægasta er, að hann er að hugsa um að ráða nýjan kennara. „Það verður erfitt, viðurkennir hann, „En ég held að ég geti þjálfað hann þannig að ég verði sáttur“.

Ritstjórn júní 25, 2015 16:11