Nær 90% eldra fólks búa í eigin húsnæði en 6% leigja

 

Könnunin Greining á högum og líðan aldraðra á Íslandi árið 2016, var gerð af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands fyrir velferðarsvið Reykjavíkurborgar, velferðarráðuneytið og Landssamband eldri borgara. Þetta er landskönnun sem náði til 1800 manns  á aldrinum 67 ára og eldri.  Næstum 90% þeirra búa í eigin húsnæði, en 6% búa í leiguhúsnæði eins og sjá má í töflunni sem fylgir hér með.Þeir sem leigja, og eru samkvæmt könnuninni 6% þessa aldurshóps, eru flestir í leiguíbúðum í eigu félagasamtaka eða 31%.  28%  þessa hóps leigja á almennum markaði, en 25% eru í leiguíbúðum í eigu sveitarfélaga. 17% eru í annars konar leiguhúsnæði.  Fjöldi þeirra í landinu sem er 67 ára og eldri, telur um 40.000 manns. Samkvæmt því eru um 2400 í hópnum á leigumarkaði.

Samkvæmt könnuninni búa 34% eldra fólks ein. Sextíu prósent búa hins vegar á heimili, þar sem tveir búa saman. Einungis 6% búa á heimili þar sem eru þrír eða fleiri.

Þessi aldurshópur, fólk á aldrinum 67 ára og eldra, virðist ekki vera í þeim hugleiðingum að skipta um húsnæði á næstu árum. Rúmlega 70% svara spurningu um það neitandi. En 18% hópsins segjast hafa skipt um heimili á síðast liðnum fimm árum og  10% segjast  ætla að skipta um heimili á næstu fimm árum. Þegar þessi 10% eru spurð hvers vegna, segist rúmlega helmingur gera það til að minnka við sig, en 26 % vilja komast í hentugra húsnæði. Aðrir nefna fjárhagsástæður eða 16% og 14% segjast vilja minnka við sig vegna aldurs.

Ritstjórn maí 10, 2017 14:37