Þær mynda samhentan hóp kvenna sem nærir sálina og styrkir líkamann saman. Upphafið að klíkunni má rekja til þess að þær hófu að þjálfa hjá Helgu Guðrúnu Gunnarsdóttur fyrir fjórtán árum. Sumar þekktust áður, aðrar hittust aftur eftir langan aðskilnað og enn aðrar kynntust hér sálufélögum og mynduðu djúpa vináttu. Þær ferðast saman, fara í bíó og leikhús, spila brids, kínaskák, fara á kaffihús og hvaðeina sem býðst skemmtilegt undir kjörorðinu „Höfum gaman saman“. Lifðu núna hitti sex úr hópunum nýverið og innti þær eftir hvað væri eiginlega í vatninu í Kópavogslaug.
Þær Margrét Sveinsdóttir, Ingunn Þorvaldsdóttir, Sólrún Einarsdóttir, Sigrún Sveinsdóttir, Íris Bragadóttir og Ingibjörg Haraldsdóttir voru að fá sér hádegismat þegar við trufluðum þær og spurðum fyrst hvort þetta væri sundleikfimi sem þær stunda?
„Þetta er þjálfun í vatni,“ svarar Íris.
„Það er rétta orðið,“ bætir Ingibjörg við og Margrét tekur við og heldur áfram.
„Við gerum styrktaræfingar með núðlum, jafnvægisæfingar og þolæfingar. Eini munurinn er að við erum með vatnið til stuðnings í stað dýna á gólfi.“
„Og með dúndurmúsík undir sem á við okkar aldur,“ segir Ingunn.
„Já, og við erum sko 68 kynslóðin,“ skýtur Sigrún inn í. „Við vorum að þjálfa okkur undir I can‘t get no satisfaction í morgun. Við hlustuðum á Bítlana og Rolling Stones, engin harmonikkutónlist fyrir okkur.“

Sólrún, Margrét, Ingunn, Ingibjörg og Sigrún.
Allir syngja með
Þær stöllur eru allar fæddar í kringum 1950 og það kemur glampi í augun þegar minnst er á Rolling Stones og Bítlana. Sennilega gamlar minningar og tilhugsunin um Mick Jagger, Paul McCartney og fleiri hljómsveitarmeðlimi á yngri árum.
„Stundum syngja bara allir með og svo heyrist hvíslað; oh mig langar á ball,“ segir Ingunn. „Í morgun voru reyndar íslensk lög og allir kunnu textann.“
„Já, Helga velur músíkina fyrir okkur og hún skapar stemninguna,“ segir Margrét. „Ef henni finnst of rólegt skiptir hún um lag og hleypir meira fjöri í leikinn.“
„Það er hún sem laðar að,“ heldur Sigrún áfram. „Hún er fjörkálfur og stórkostlega skemmtileg.“
Hitta gamla vini og mynda ný vináttubönd
Það er stutt í glens og gleði í þessum hópi enda eru þær nýbúnar að æfa hláturvöðvana. Helga klárar nefnilega alla tíma með svolitlu hláturjóga.
„Þetta eru einstaklega skemmtilegir tímar og við mikið stemmningsfólk,“ segir Ingibjörg. „Það er ekki bara verið að þjálfa skrokkinn heldur kemur maður upp úr endurnærður bæði á sál og líkama.“
En hvernig er það hittust þið fyrst þarna eða þekktust þið áður?
„Við hittumst fyrst í skúrnum hjá Helgu fyrir um það bil 11 árum þegar við komum í þjálfun þar,“ segir Ingunn.
„Þrjár okkar bjuggu við sömu götu alla æskuna, nokkrar í hópnum voru skólasystur í Kvennó og hafa haldið hópinn allar götur síðan,“ bætir Ingunn við.
„Ég hitti líka aftur gamla skólasystur, Nínu,“ segir Ingibjörg. „Við höfðum ekki hist síðan í átta ára bekk.“
Fara í leikhús og bíó, spila og ferðast
Límið í sambandinu er ekki eingöngu líkamsþjálfunin. Þær gera mun meira en það.
„Við förum saman í bíó og leikhús, á blústónleika, hittumst einu sinni í viku til að spila brids og kínaskák og ferðumst til útlanda og allt saman,“ segir Sigrún. „Við fórum til Taílands fyrir nokkrum árum og það var ævintýraferð. Við vorum með fararstjóra og sigldum á pramma eftir ánni Kwai og margt fleira.“
„Við förum líka einu sinni á ári hringinn í kringum landið,“ bætir Margrét við. „Ingunn hefur aðgang að sumarbústað í Hjaltastaðaþinghá, og við reynum að stíla inn á að gista þar. Erum jafnvel í viku fyrir austan og förum ýmist norður- eða suðurleiðina þangað og þá hina til baka.“
Í hópnum sem æfir í Sundlaug Kópavogs eru um 100 manns á góðum degi. En ekki tilheyra allir þessum þétta kjarna.
„Við erum allar einhleypar svo að félagslega skiptir þessi vinátta okkur miklu máli,“ segir Ingibjörg. „Er ekki alltaf verið að tala um einmanaleika meðal aldraðra. Þetta vinnur sannarlega gegn því. Það liggur við að fjölskyldan þurfi að hringja og panta tíma. Börnin mín kvarta stundum yfir því þegar ég segist vera upptekin á hinum og þessum dögum.“
Sáluhjálparatriði og kærleikskeðja
Vináttuböndin eru greinilega traust og þetta orðið mjög ríkur þáttur í lífi ykkar.
„Ójá, þetta er sáluhjálparatriði,“ segir Ingunn. „Sannkölluð kærleikskeðja.“
Vatnsþrek eða þjálfun í vatni eru morguntímar þrisvar í viku í sundlaug Kópavogs. Bara að mæta. Þurfið þið að borga fyrir þjálunina?
„Nei, þetta er í boði Kópavogsbæjar og er forvörn af bestu gerð,“ segir Ingunn. „Bærinn er að tryggja sig til framtíðar og gera líf okkar skemmtilegra.“
„Þetta er svona hálfsdags vinna þrisvar í viku, því við þurfum að ræða þjóðmálin í pottunum eftir tímann og í kaffi eftir. Þar leysum við bæði heimsmálin og íslenskan vanda. Við höfum heyrt því fleygt að eldra fólk tuði svo mikið, en við könnumst bara ekkert vð það og höldum í gleðina,“ segir Sigrún.
„Lífið er til að hafa gaman af því,“ segir Ingibjörg og það verða lokaorðin. Þær eru þegar farnar að ræða hvaða bíómynd eigi að sjá næst og hvert að fara í ferðalag. Nú og svo bíða mörg alvarleg mál lausnar og veitir ekki af að auka ljósið í heiminum þessa dagana.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.