Jólabarnið Jóhanna festir sig ekki í hefðum.

Róleg jólastemmning heima.

Flestir þekkja Jóhönnu V Þórhallsdóttur sem söngkonu og kórstjóra sem var hennar aðalstarf um árabil. En á meðan hún stjórnaði kórum og kom fram opinberlega í ýmsu samhengi notaði hún tímann í myndlistarnám, bæði hér heima og erlendis. Hún stofnaði og stjórnaði Léttsveit Reykjavíkur um árabil en hætti í því starfi 2012 og sneri sér að myndlistinni. Og nú geta aðdáendur Jóhönnu séð 10. einkasýningu hennar í Gallerí Göngum í Háteigskirkju sem opnaði í gær, 1. desember og ber yfirskriftina Ástin er græn. Sýningin verður opin áfram og Jóhanna ætlar að vera sjáf við í galleríinu um helgar frá 13-15.

Jóhanna er mikið jólabarn en segist aldrei hafa fest sig lengi í sömu hefðunum. ,,Ég hef búið víða um ævina og tekið upp hefðir landanna þar sem ég hef verið hverju sinni,“ segir hún. ,,Ég bjó til dæmis lengi í Englandi og þá bakaði ég alltaf enska jólaköku, hafði appelsínuönd í matinn og svo framvegis. Ég hef líka búið á Ítalíu og i Svíþjóð og Danmörku og þar lærði ég þeirra siði. Síðan hef ég búið til mína eigin siði og þeir markast af því besta sem ég hef kynnst hjá öðrum þjóðum. Ég hef til dæmis ógurlega gaman af því að bjóða vinum i danska ,,flæskesteg“ fyrir jólin. Þá finn ég einhvern danskan góðan kokk á Youtube sem ég horfi á  og fer í mikið jólastuð. Danskt rauðkál er til dæmis alger draumur um jólin. Þá læt ég danska tónlist í botn og er í miklu stuði,“ segir Jóhanna og hlær. ,,Svo liggur leiðin oft til Svíþjóðar og ég hef ógurlega gaman af að halda sænska jólaveislu með sænskri jólaskinku að hætti Ingmar Bergmanns og þá fer sænsk tónlist á fóninn. Nu er det jul igen…

Ég hef reyndar minnkað mikið allt matarsússið og stressið í desember. Það er auðvitað alltaf mikið að gera hjá mér en ég reyni frekar að njóta aðventunnar, fara bæði á tónleika eins oft og ég get,  og svo er ég að mála og kannski að baka og dunda mér í einhverjum skemmtilegheitum. Ein athöfnin sem mér þykir ómissandi er að fægja silfrið og  þá hugsa ég til undirbúnings jólanna hjá mömmu og pabba. Mamma er enn lifandi, en dottin í aðra veröld, þannig að hún er ekki með í jólaboðunum lengur. Með því að hugsa um þetta gamla sem maður ólst með kemur jólastemmningin. Ég byrja í desember að finna jólaskrautið og taka eitt og eitt upp. Þá finn ég jólakúlu frá ömmu og fallegu kirkjuna sem pabbi smíðaði og með þessum hugsunum hellast jólin yfir mig. Ég held að ég hafi breyst á þann hátt að ég stressa mig miklu minna fyrir jólin en áður. Í tíð pabba og mömmu og afa og ömmu byrjaði undirbúningurinn bara rétt fyrir jólin, en nú er maður farinn að sjá jólaskrautið í nóvember og jólaviðburðir byrja fyrr. Ég fór alveg í gegnum tímabil þar sem allt átti að vera fullkomið, allt hreint og skúrað og margar smákökusortir bakaðar. Á sama tíma var ég með marga tónleika og skil ekki núna hvernig ég komst yfir þetta allt. Enda var maður komin í stresskast á Þorláksmessu. Nú er ég mikið í galleríinu, bæði á Laugavegi og í Göngum, set upp sýningar, og reyni að vera meðvituð um hvað

Í skerjagarðinum í Svíþjóð þangað sem jólaskinkan var sótt.

skiptir máli. Svo skiptir máli að hitta fólkið sitt en ekki að vera með of metnaðarfullar veislur, hafa nóg, en kannski færri tegundir og vera búin að undirbúa daginn áður. Ég passa mig á því að festast ekki vana eins og ég gerði áður heldur tek ég til í einni skúffu í einu ef ég er í stuði en helli mér alls ekki í stórhreingerningu,“ segir þessi hressa og skemmtilega kona sem hefur sannarlega prófað jólastress en kýs nú frekar að njóta en þjóta.

Ritstjórn desember 2, 2022 14:34