Skemmtiefni tilverunnar!

Jón Karl notar tónlistina til að slaka á.

Jón Karl Ólafsson kannast margir við en hann hefur lengi verið áberandi í samfélaginu, ekki síst sem formaður fyrirtækja og ýmissa samtaka en líka uppi á sviði að spila á píanó. Hann er fæddur 1958 og fór ungur í tónlistarnám því þangað þótti honum leið sín liggja. Hann hætti þó í því námi þegar kennurum hans tókst ekki að láta hann fylgja nótunum fullkomlega. Hann vildi nefnilega spila lögin eftir eigin höfði en ekki eins og einhver annar sagði honum að gera. Það fór í taugarnar á kennurum hans og þá hætti Jón Karl bara í píanónáminu. Hann hafði samt lært nógu mikið til að geta haldið áfram að spila eins og honum þótti skemmtilegast. ,,Þegar ég var búinn að læra lagið nokkurn veginn þótti mér eðlilegt að ég túlkaði bara sjálfur hvernig það hljómaði,“ segir Jón Karl og brosir. Þetta viðhorf hans virðist hafa verið leiðarstef í gegnum lífið því Jón Karl hefur sannarlega farið eigin leiðir. Og þegar hann neyddist til að horfast í augu við óvelkominn gest í lífinu ákvað hann að takast á við hann sem ákveðið verkefni, sem þarf að sina. Hann fór samt að ráðum lækna og fékk frábæra hjálp og umönnun frá góðu fólki.  Með hjálp læknavísindanna náðist að sigra þennan vágest.

,,Auðvitað var þetta sjokk og það veit enginn hvernig hann bregst við svona frétt fyrir fram,“ segir Jón Karl sem fór í gegnum krabbameinsmeðferð í fyrra.  ,,Mér tókst þó að taka þessu þannig að þetta væri bara verkefni sem þyrfti að klára. Meðferðin gekk vel, ég var með frábæra sérfræðinga og fékk góða hjálp, en ég reyndi líka eftir fremsta megin að halda mínum takti, fór í ræktina, spilaði tónleika en var oft rosalega þreyttur. Það þýddi samt það að þegar ég var kominn úr út því versta var ég fljótur að ná mér á strik. Uppbygging eftir svona meðferð byggist mikið á því hvernig við erum undirbúin, bæði líkamlega og andlega og ég var heppinn,“ segir Jón Karl.

,,Af hverju þarf ég að liggja inni?“

Þegar læknar hófu meðferð Jóns Karls gerðu þeir ráð fyrir að skera úr honum æxli úr maga en áður en til þess kom var tekin ákvörðun um að reyna fyrst að vinna á þessu með

Jón Karl og eiginkona hans, Valfríður Möller, í einu af ferðalögum sínum.

lyfjameðferð. Nýjustu krabbameinslyf eru nú orðin svo öflug að von um bata er miklu meiri en bara fyrir örfáum árum svo frekar en taka stóran hluta úr maga Jóns Karls var lyfjaleiðin valin. ,,Ég hafði í raun ekki fundið fyrir neinum óþægindum nema því að ég var sífellt svangur. Jafnvel strax eftir máltíð gauluðu garnirnar úr hungri. Það var mjög óeðlilegt og í ljós kom þetta stóra æxli í maga mínum.

Jóni Karli var sagt að mæta á spítala strax eftir áramót í fyrra og hefja í lyfjameðferð. ,,Ég mætti á spítalann og mér leið í raun eins og ég væri fullhraustur.  Ég reyndi að labba gangana til að fá hreyfingu áður en meðferðin hæfist. Þar var ég innan um mikið veikt fólk og fannst ég vera svolítið fyrir og spurði lækninn af hverju ég þyrfti að liggja inni. Hún sagði mér þá að lyfin sem ég væri að fara fá væru mjög öflug, svo öflug að sá fjarlægi möguleiki væri fyrir hendi að lyfin myndu ráðast svo harkalega á æxlin að þau myndu jafnvel springa. ,,Og þá viltu ekki vera staddur niðri á Laugavegi,“ sagði læknirinn. Þá fyrst gerði ég mér grein fyrir því frammi fyrir hverju ég stóð og sagðist glaður þiggja að liggja þarna hjá þeim á meðan á þessu stæði. Þetta eru ný líftæknilyf, en ég fékk líka „hefðbundin“ fjölvirkari lyf, væntanlega til að fyrirbyggja sem mest. Þá missti ég hárið en það kom aftur,“ segir Jón Karl og brosir en hann hefur alltaf verið mjög hárprúður maður. ,,Mér verður fylgt eftir næstu þrjú árin en lifi lífinu eins og áður. Auðvitað endurmetur maður lífið og tilveruna á svona stundum og sér skýrar hvað skiptir máli og hvað ekki,“ segir Jón Karl.

Rotary mikilvægur vettvangur

Jón Karl hefur lengi verið liðtækur í sjálfboðaliðsstörfum sem hann segir að sé viss forsenda þess að samfélög gangi vel. Hann er einn þeirra manna sem veljast til forystu en hann er fyrrverandi forstjóri hjá Icelandair, framkvæmdastjóri Isavia, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar og formaður Viðskiptaráðs. Hann var yfirmaður Icelandair í Evrópu á árunum 1994 til 2000, staðsettur í Frankfurt. ,,Þetta var meiriháttar tími og forréttindi að fá að taka þátt í flugævintýrinu á þessum árum,“ segir Jón Karl. ,,Það urðu gífurlegar breytingar frá því Lofleiðir fundu glufuna í markaðnum til og frá Ameríku með tengingu við Lúxembourg en þetta tímabil leið endanlega undir lok á tíma mínum í starfinu. Ég var til dæmis vondi karlinn, sem þurfti að loka skrifstofunni í Lúxembourg, en undan því varð því miður ekki komist.

Boðinn velkominn í Rotary 

Fjölskyldan saman komin í miðri krabbameinsmeðferð Jóns. Á myndinni eru: Guðrún Jónsdóttir, Jón Valur Jónsson (fyrir ofan Völu) Anna Sigrún Jónsdóttir (fyrir ofan Jón) og Edda Björg Jónsdóttir.

Þegar Jón Karl kom heim frá Frankfurt um aldamótin var honum fljótlega boðið að gerast meðlimur í Rotary. ,,Mér þótti strax spennandi þessi atvinnutenging því meðlimir koma inn í Rotary sem fulltrúar sinnar atvinnugreinar. Þar sá ég strax spennandi mögleika að tengjast inn í samfégaið eftir nokkra fjarveru og þarna myndaði ég strax góð sambönd. Síðar kynntist ég því hversu áríðandi sjálfboðaliðastarfi Rotary gegnir. Þetta eru risastór mannúðarsamtök og ég fann strax að mér leið mjög vel með það, fyrir utan hvað þetta er skemmtilegur félagsskapur og hefur gefið mér mikið. Við þurfum öll að taka samtalið um það hvernig við ætlum að manna ákveðna pósta í samfélaginu því fólk er sífellt tregara að taka að sér ákveðin verkefni. Við finnum mikið fyrir þessu t.d. hjá Fjölni þar sem ég hef verið formaður í bráðum 15 ár. Fólk spyr gjarnan ,,Bíddu, eru ekki starfsmenn, sem sjá um þetta“ og áttar sig oft ekki á, að þátttaka sem flestra er forsenda góðs sjálfboðaliðastarfs.   Þessi þróun virðist vera til staðar víða, í skólastarfi og í starfi félagasamtaka eins og Rótarý. Við verðum að selja fólki þá hugmynd að það sé spennandi og skemmtilegt að taka þátt í sjálfboðaliðastarf. Í mínum huga er þátttaka í slíkum félagsskap skemmtileg, gerir gagn og skilar árangri.  Innan Rótarý höfum við nú sett á stofn Rotaract klúbb, sem er klúbbur fyrir yngri aðila, sem vilja kynnast starfi Rótarý, en sjá sig ekki alveg í starfi hjá almennu klúbbunum.  Þessir aðilar hittast bæði á netinu og í „raunheimum“.  Við erum sem betur fer að sjá mikið af flottu, ungu fólki koma inn, og jafnvel fleiri ungar konur en karla. Það virðist vera  ákveðin fæling hjá fólki við aukna bindingu í erli dagsins. Einu sinni var skyldumæting í Rotary og fólk var jafnvel rekið fyrir slælega mætingu, eins og frægt er orðið með einn sem ætlaði jafnvel að skrifa bók og kalla hana ,,Rekinn úr Rotary“,“ segir Jón Karl og hlær. ,,Í klúbbunum eru vikulegir fyrirlestrar um ýmis málefni og eru þeir alltaf fróðlegir og áhugaverðir að hlusta á.  Þarna er iðulega verið að fjalla um málefni, sem  maður myndi annars ekki heyra um og maður er alltaf ríkari eftir. Svo skapast alltaf skemmtilegar umræður eftir erindin, sem maður græði líka á.“

Sjálfboðaliðastörfin mikilvæg

Laxveiði er eitt af skemmtiefnunum í lífi Jóns Karls.

Jón Karl er  formaður íþróttafélagsins Fjölnis í Grafarvogi, sem er stærsta íþróttafélag á Íslandi, og hefur nú tekið að sér að verða umdæmisstjóri Rotary á Íslandi. Bæði eru þetta sjálfboðaliðastörf sem hann segist fá mikið út úr.

Sjálfboðaliðsvinnan sem fer fram í Rotary hefur breytt lífi milljóna manna en hreyfingin var stofnuðu 1905 af bandarískum lögfræðingi Paul Harris. Í dag eru veittir námsstyrkir til einstaklinga og sjóðurinn veitir auk þess svo kallaða 3H styrki, þ.e. starfsfólki sem vinnur að framtaki gegn hungri, fyrir heilbrigði og til heilla í þjóðlífi. Svo er að nefna mesta framtak Rotarysjóðsins, svokallað Políóplús-átakið en það hófst sem sérstakt verkefni árið 1985. Takmarkið var að safna 120 milljónum dollara fyrir árslok 1988 til að standa straum af bólusetningu allra barna í þróunarlöndunum gegn lömunarveiki og öðrum smitsjúkdómum og ljúka verkefninu fyrir 100 ára afmæil Rotarý-hreyfingarinnar 2005. Árangurinn er meiri en menn óraði fyrir og er einmitt ein ástæða þess að mörgum líður vel með þátttöku í slíkum samtökum sem láta svo gott af sér leiða.

Tónlistin meðal og slökun fyrir Jón Karl

Jón Karl byrjaði ungur að spila á píanó og átti sér snemma drauma um að komast í hljómsveit. ,,Frændi minn, Pétur Hjaltested, fékk mig til að vera rótari með sér og ég fékk bakteríuna beint í æð,“ segir Jón Karl og hlær. ,,Ég var flótlega kominn í nokkrar hljómsveitir og endaði í einni sem náði næstum  frægð og hét Basil fursti.  Sú hljómsveit starfaði á árunum 1978 og 1979. Þetta var hörkuband, með góðum hljómlistarmönnum.  Einn af stofnendum var Andri Clausen, söngvari og leikari, sem lést því miður langt fyrir aldur fram.  Þarna voru líka Mikki, bróðir Andra, Bibbi og Elli og síðan Eiríkur Hauksson, sem varð enn frægari eftir veru sína í Basil. Seinna sumarið sem við spiluðum fann ég, að þetta væri ekki fyrir mig og ég hætti og hélt mína leið. Þá dró ég mig að mestu út úr poppinu, var í Háskólanum og við stofnuðum litla hljómsveit sem spilaði m.a. á árshátíðum og öðrum skemmtunum. Eitt af verkefnunum var,  að við tókum að okkur að spila gömlu dansana í Templarahöllinni sem hentaði vel með náminu í nokkur ár. Þessi hljómsveit er enn þá til og má segja að hún sé orðin nokkurs konar ,,cult“ hljómsveit, sem spilar þessa tónlist sem sífellt færri hafa á takteinum og er ógurlega skemmtilegt að spila,“ segir Jón Karl og brosir.

,,Formaður í félagi launalausra hljómlistarmanna“

Hljómsveitin Nostal sem Jón segir brosandi frá að sé sú skemmtilegasta á svæðinu. Í henni eru frá vinstri: Svavar H. Viðarsson, Baldur Ketilsson, Þröstur Leósson, Jón Karl, Ragnar Z. Guðjónssons og Bjarni Ómar Haraldsson.

,,Í dag er ég að spila með hljómsveit sem heitir Nostal og sú hljómsveit hefur meira að segja farið í hljómsveitarútu um landið með tónleika, eins og gert var í gamla daga,“ segir Jón Karl og hlær. ,,Þetta er svona eins og saumaklúbbur eldri karla. Við hittumst reglulega og skemmtum okkur konunglega í gegnum tónlistina.“

Jón Karl segist vera nokkurs konar ,,formaður í félagi launalausra hljómlistarmanna“ en tekur fram að þátttakan sé ígildi hárra launa.

Jón Karl hefur nóg fyrir stafni þessa dagana en fyrir utan sjálfboðaliðastörf veiðir hann og golfar. Síðan er fjölskyldan, Vala, eiginkona hans, fjögur börn og sjö barnabörn stór

Jón Karl hefur náð nokkuð góðum árangri í golfíþróttinni.

þáttur í skemmtiefni tilverunnar. Hann segir að eftir því sem hann eldist og þroskist sjái hann skýrar hvernig hann vilji verja tíma sínum. ,,Það eru ekki lengur sömu hlutirnir sem mér finnst skipta máli og þegar ég var yngri. Enda væri það ekki björgulegt eins og dæmin sanna. Ég vel núna verkefnin sem ég vil taka mér fyrir hendur og nýt þeirra.Ég hitti spilafélaga í tónlist, golfi og bridge eins oft og ég get  og það gefur mér mjög mikið. Ég hef alltaf litið á tónlist eins og meðal eða slökun og nota það óspart og spila eitthvað á hverjum einasta degi.“

Vinnur verkefni sem ráðgjafi

Jón Karl kvartar ekki undan verkefnaleysi þótt hann sé kominn með kennitölu sem sé ekki eftirsótt á vinnumarkaði. ,,Ég er að vinna alls konar verkefni sem ráðgjafi þar sem reynsla mín í tengslum við ferðaþjónustuna nýtist svo ég get ekki kvartað,“ segir Jón Karl sem mun ótrauður halda áfram að skemmta sjálfum sér og öðrum með píanóleik þótt kennararnir hafi gefist upp á að fá hann til að spila eins og þeir vildu á sínum tíma. Nú eru aðrir tímar!

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar

Ritstjórn maí 5, 2023 07:00