Loksins passaði eitthvað

Apríl sólar kuldi, er ný skáldsaga eftir Elísabetu Jökulsdóttir. Þetta er frásögn um ást og geðveiki og huggun. Og höfundurinn tekur efnið engum vettlingnatökum. Bókin er feikilega vel skrifuð og  aðalsögupersónunni Védísi og lesandanum er kastað út í ástina með miklu offorsi. Það er sannarlega kafað til botns í tilfinningunum, þegar Védís verður ástfangin af Kjartani og allt breytist.

Og sumarið kom með biluðum ævintýrum. Þau lágu í grasinu á Austurvelli og sólin sleikti þau, þau sleiktu vínið, þau voru alltaf í sleik. Einu sinni sem oftar voru þau þúsundmilljónár í sleik í sófa á Hótel Borg og þegar þau hættu, klöppuðu mennirnir í sófanum á móti sem höfðu tekið tímann. Einu sinni fóru þau inní Alþingishúsið tilað kyssast og fara í sleik á áhorfendapöllunum eins og frægt er orðið. Þau flæktust um bæinn og allir bæjarbúar dáðust að því hvað þau voru með fallegt hár.

Þau voru alltaf sæl og glöð, þunn og timbruð og áttu heima út um allan bæ, í niðurgröfnum jarðhýsum og himinháum turnum. Þau voru í því að finna leynistaði, hlusta á leynilög í útvarpinu og segja leyniorð. Og hvísluðu. Þau voru síhvíslandi. Pst Pst. Ég elska þig, hvíslaði hann. Ég elska þig hvíslaði hún á móti. Hann var alltaf að segja eitthvað fallegt við hana og þegar þau elskuðust, sagði hann og notaði tón örlaganna.

-Finnurðu hvað við pössum vel saman?

Allt var eins og það átti að vera. Þau pössuðu saman. Allt passaði. Loksins passaði eitthvað. Loksins passaði hvað við annað. Þetta var í fyrsta skipti á ævinni sem eitthvað passaði og þá passaði það svona stórkostlega. Það hafði aldrei neitt passað. Allt hafði verið á ská og skjön eða hvolfi eða í fjarlægð. En nú passaði allt.

 

Það dregur upp ský á himninum þegar líður á söguna. Kjartan fer til útlanda. Védís er ein hér heima og á þessum tíma nær geðveiki tökum á henni. Eins og ástinni er geðveikinni lýst hreint ótrúlega vel  í bókinni.

Þegar hún var send svona út á götu og vissi ekki hvert, þá gat hvað sem er verið skilaboð til hennar og það fór mest eftir hvernig hausverkurinn hagaði sér, jókst eða minnkaði eða ef augu hennar opnuðust skyndilega fyrir einhverjum augljósum skilaboðum. Biðskyldumerki gat til dæmis þýtt að hún ætti að stoppa og bíða eftir skilaboðum, að hún kæmi auga á eitthvað tilað fara eftir næst. Ör í ákveðna átt gat þýtt að hún ætti að fylgja örinni. Hún varð að vera vakandi og á verði tilað skilaboð og vísbendingar færu ekki framhjá henni. Hún mátti allsekki gera mistök. Hún varð að reyna að finna útúr þessu og enginn mátti vita neitt. En bara ef hann kæmi; hann myndi skilja hana og kannski geta hjálpað henni. Kannski áttu þau að frelsa heiminn saman. Maður og kona. Og ef hann kæmi ekki eða gæti ekki hjálpað henni þá gæti hún sýnt honum hvers hún væri megnug, hverskonar hetjudáð hún gæti drýgt. Með þessu móti tækist henni að sanna honum ást sína. Sýna houm hvers ást hennar væri megnug. Því hún var knúin áfram af ást. Bara ef henni tækist að fara uppí Sjónvarp. Hún átti örugglega að fara uppí Sjónvarp. Hún fann það. Það var stórkostlegt hvað hægt var að elska mikið. Allar tilfinningar hennar streymdu í sama farveginn. Kröftugan, ógnvekjandi farveg. Ástin, ástin til Kjartans og ástin til heimsins. Og þetta að taka á öllu sínu, drýgja afrek, eitthvað sem krefðist allra hennar hæfileika, allra hennar tilfinninga, eitthvað sem hún þyrfti að leggja sál sína í. Hún hafði verið valin.

Hún vissi þess dæmi úr mannkynssögunni að slíkt hafði gerst. Hún hafði lesið söguna um Jóhönnu af Örk, þegar hún fór að heyra raddirnar og allir héldu að hún væri klikkuð en henni tókst svo að sigra Frakkland úr klóm óvinarins. Þetta var ekkert sem Védís réði sjálf, hún stjórnaði þessu ekki, hún fann að henni var stjórnað. Henni far einfaldlega stýrt um bæinn  og hún var að reyna að fyglja leiðbeiningunum, tilað bregðast ekki þessu trausti, að hafa verið valin til að gera eitthvað sérstakt.

Eitthvað alveg sérstakt.

Ritstjórn nóvember 24, 2020 09:38