Nú ertu orðinn svo stór að þú getur þetta alveg. Þú ert nú ekkert smábarn lengur. Þetta eru setningar sem við segjum við börnin okkar þegar við viljum sjá þau taka meiri ábyrgð, reyna að vera sjálfstæðari. Í bókinni, Barnæska, eftir Jona Oberski fá orðin hins vegar aðra og óhugnanlega merkingu. Barn má ekki og getur ekki lengur verið barn því það hefur verið flutt í ómanneskjulegar aðstæður.
Bókin segir sögu ungs drengs í Amsterdam á tímum seinni heimstyrjaldarinnar. Foreldrar hans eru annað eða bæði af gyðingaættum því þau bíða flutnings til Palestínu. Áður en af því verður ráðast hermenn inn í húsið þeirra og flytja fjölskylduna í fangabúðir. Þar verður drengurinn vitni að mörgu sem börn eiga aldrei að þurfa að sjá og þarf að upplifa margvíslegan órétt og grimmd.
Þetta er sérstaklega átakanleg bók vegna þess hve trúr höfundur er sjónarhóli barnsins og það hreinlega sker lesandann í hjartað hve saklaus drengurinn er í upphafi og skilningur hans á því sem er að gerast takmarkaður. Hér er ruglaður lítill drengur að reyna að finna leið til að skynja og skilja breytingarnar sem hafa orðið á högum hans en hefur í raun engar forsendur til þess. Það er svo sárt til þess að hugsa að þessi grimmdarverk áttu sér raunverulega stað og svipaðir hlutir eru að gerast enn í dag.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







