Hugleiðing séra Karls Sigurbjörnssonar fyrrverandi biskups fyrir páskadag fjallar um sorgina og upprisuna, Hún er úr bók hans Dag í senn, sem geymir 365 hugleiðingar, eina fyrir hvern dag ársins.
Páskadagur
Þessar konur voru þær María Magdalena, Jóhanna og María móðir Jakobs og hinar sem voru með þeim. Þær sögðu postulunum frá þessu. En þeir töldu orð þeirra markleysu eina og trúðu þeim ekki. (Lúk.24.10)
Þær höfðu hraðað sér um dimmar götur í grárri morgunskímunni, harmi lostnar konur að vitja grafar ástvinar. Ég held þú vitir hvernig þeim leið. Þú sem þekkir vanmáttinn og sorgina og þú sem þekkir mikilvægi umhyggju og kærleika. Þær eru systur þínar, þessar konur. Þú þekkir þær. Jafnvel þótt ásjónur sorgarinnar og aðstæður manna séu svo margvíslegar sem raun ber vitni.
Þú ert kannski einn af þeim sem fékk bréfið sem kippti grundvellinum undan fótum: „Því miður verðum við að tilkynna þér að vegna nauðsynlegra hagræðinga í fyrirtækinu þá …“ Eða var það boðskapur læknisins, ákveðin röddin hans sem gat þó vart dulið kvíða hans og ótta við þær fréttir sem hann varð að færa þér: „Því miður, þetta er illkynja!“ Eða er sorg þín sorg þess sem á við þann sjúkdóm að stríða, sem sér ekki út úr svartnættinu sem grúfir yfir og lamar þrek og trú og von. Eða býrð þú við missinn og sorgina þegar þögnin og tómlætið leggur sína lamandi hönd yfir samskipti og umgengni ykkar sem eitt sinn bundust ævitryggðum, sérhver snerting er kvöl og orðin megna einungis að tjá sársauka, og byrgða reiði. Ástin kulnaði og dó, ástin sem þið eitt sinn hélduð að myndi sigra allt. Eða stóðstu ef til vill og horfðir á helstríð ástvinar. Fannst sem sólin missti birtu sinnar og jörðin gliðnaði undir fótum þér og Guð þinn hvarf í sortanum.
Já, þú þekkir afl dauðans og sársaukann. Og þú þekkir líka broddinn beitta sem nístir sárast í hverri sorg og missi: of seint! Allt sem átti að gera, segja, framkvæma, allt sem hefði átt að fara á annan veg, en nú er það of seint.