Þurfa letibelgir virkilega að hefja nýjan lífsstíl um áramót?

Inga Dagný Eydal.

Inga Dagný Eydal hjúkrunarfræðingur skrifar:

Nýja árið, 2021, gekk í garð fyrir rúmum þremur vikum og öll glöddumst við ómælt yfir því enda árið 2020 metár í allskyns hörmungum, aðallega af völdum Covid auðvitað. Við sáum það líklega fyrir okkur að nýja árið, yrði árið þegar allt færðist í samt lag og við gætum tekið upp fyrri lifnaðarhætti, komið okkur undan sængunum og rifið í lóðin. Nú var enginn lengur að spá í jesúbarnið og jólasveinana enda jólin að baki og útsölurnar hafnar. En þau voru auðvitað yndisleg á meðan þau vörðu og það þrátt fyrir að stóru fjölskylduboðin væru fjarri góðu gamni.

Ég ætla hinsvegar að fjalla um áskoranir sem yfir okkur dynja að áramótum liðnum, til bættrar heilsu andlegrar sem líkamlegrar. Nú eigum við sykurfíknir letibelgir að taka á honum stóra okkar og hefja nýjan lífsstíl. Það eru skilaboð sem við fáum um hver einustu áramót og hvað þá núna þegar við erum ekki bara að tala um jólakíló heldur kóvidkíló og líkamsræktarstöðvar og sundlaugar hafa verið lokaðar um langa hríð. Bóluefnið kemur kannski ekki eins fljótt og við vonuðum en okkur er uppálagt að vera að minnsta kosti tilbúin. Fötin sem áður fóru á mannamót hafa rýrnað í skápunum og það er hver að verða síðastur að gera eitthvað í málum.

Áskoranirnar eru eins fjölbreyttar og þær eru margar og þær dynja á okkur á samfélagsmiðlum, í hefðbundnum fjölmiðlum og í umræðu fólks . Margar þeirra fjalla um mataræði, veganúar, ketó, paleó, hreint fæði, plöntumiðað fæði og svo auðvitað sykurlaust fæði, kjötlaust fæði, glútenlaust fæði, já og það nýjasta, bólguminnkandi fæði. Svo framarlega bara sem þér dettur ekki í hug sú ósvinna að þú getir bara haldið áfram að kjammsa á kornflexi og ristuðu brauði. Svo að ég tali nú ekki um að laumast í afganginn af jólasmákökunum. Þetta mataræði miðar að því mér sýnist, mest að því að bæta orku, verða hraust og sterk stelpa/strákur eða eitthvað slíkt þar sem það er jú eiginlega ekki í tísku að tala um megrun. Það þykir samt voða frábært ef kílóin fjúka með og auðvitað kosta leiðbeiningar um þetta gæðafæði einhverja aura, það hlýtur að vera þess virði.

Svo eru það áskoranir um líkamsrækt, áskoranir um að æfa armbeygjur, upphífingar, burps, skvats og ýmislegt sem ég kann engin skil á enda skussi í alvöru líkamsrækt (og efast um að gönguferðirnar með hundinn þyki mjög merkileg áskorun). Svo eru öll hofin þar sem hægt er að svitna og spila á gong eða drekka kakó allt eftir áhuga.

Síðast en ekki síst eru það svo sjálfshjálparáskoranir sem snúast um að ná markmiðum, stefna hærra og lengra og bæta sig sem manneskju. Á þeim markaði er sannarlega af nógu að taka.

Allt á þetta greiða leið til okkar sem þegar höfum samviskubit af því að borða of mikið ásamt því að sofa meira en venjulega og gera of lítið af einhverju og of mikið af öðru. Nú skal gera eins og lóan sagði og vaka og vinna. Í svartasta skammdeginu! Ennþá í miðju kófi! Í kulda og hálku!

Okkur er nefnilega talin trú um það af sömu neysluöflum sem reyna svo ákaft að selja okkur allskonar, til dæmis jólin, að við höfum á allan hátt staðið okkur illa og þurfum að gera betur. Á nýju ári sé kominn tími til að bæta úr öllu því sem gladdi okkur um jólin og í síðari bylgjum faraldursins. Strax í janúar og borga vel fyrir. Og við, sumsé þjökuð af fyrrgreindu samviskubiti, bítum á agnið. En kannski er málið að kaupa ekki öfgarnar strax heldur skoða aðeins málin.

En nú er best að ég leiðrétti mig strax ef einhver skyldi vera að misskilja mig. Allt ofantalið getur samt virkað vel og meira að segja eru til rannsóknir sem styðja gagnsemina. Ég er t.d. sannfærð um það sjálf að allt sem fær okkur til að slaka betur á, er gott fyrir heilsuna. Það er bara þetta með hinn gullna meðalveg og ef við getum alls ekki fetað hann, að taka þá frekar breiða og mjúka veginn heldur en þann mjóa og þrönga. Ég held að hann leiði alls ekki til glötunar amk. ekki á næstu vikum. Klórum nýju ári á maganum og bjóðum því upp í hægan vals og ég er að minnsta kosti sannfærð um að það reynist okkur betur. Góðir hlutir gerast hægt og það hefur alltaf verið talið gæfulegt að æfa sig, byrja smátt og bæta rólega við árangurinn. Velja eitt í einu og gera það vel.

Við þurfum til dæmis ekkert að borða óhollt upp á hvern dag og við getum stungið afganginum af konfektinu í frysti og skellt okkur í hafragrautinn á morgnana. Notað svo janúar til að prófa alla indversku og austurlensku réttina, baka gómsæt gróf brauð og góðar súpur og halda áfram að njóta,- bara að njóta þess að borða hollan og fjölbreyttan mat. Ekki „hreinan” eða „lausan við þetta og hitt” heldur fyrst og fremst fjölbreyttan. Við getum líka veitt okkur af og til, borðað smáköku með kaffinu eða fengið okkur skyndibita og notið þess, því að það er ómissandi hluti af lífinu að njóta. Við getum gengið úti þegar viðrar, skellt okkur í sund, dansað á stofugólfinu, gert jógaæfingar heima, stundað djúpöndun- þetta sem kostar lítið, nú eða stundað þá líkamsrækt sem við erum vön og höfum gaman af, svo lengi sem við getum gert það á öruggan máta í faraldrinum og njótum þess.

Náttúra og útivera er endalaus uppspretta góðra stunda og rannsóknir hafa sannað hollustu náttúruskoðunar fyrir andlega líðan.. Nú birtir með hverjum degi en auðvitað er ennþá bæði kalt og dimmt. Góður snjógalli og mannbroddar eru auðvitað skyldueign og gott er að komast út að ganga en gleymum því ekki að það gerir sálinni líka gott að horfa á fallega og óspillta náttúru út um gluggann eða á skjánum. Skoðum myndirnar sem við tókum í sumar og rifjum upp góða daga.. Það er jafnvel hægt að setjast út á pall eða á svalirnar með ullarteppi og dúnsæng, heitt kakó á brúsa og njóta norðurljósa eða snjókomu svona fyrir þá ævintýragjörnu..

Svo er þetta með að bæta sjálfan sig. Fáu trúum við frekar en því þegar okkur er sagt að við séum ekki nógu góð. Dugnaður er jú þjóðaríþrótt og metnaður til að stefna hærra, vera duglegri, kraftmeiri er það sem okkur mörgum finnst skorta í eigin fari. Það getur vissulega átt við einhverja þarna úti og þeir geta sannarlega sótt sér aðstoð til að bæta úr því. Ég held hinsvegar að langflest okkar séu alveg nógu góð og eiginlega miklu frábærari en við höldum. Þegar grannt er skoðað þá er kannski stærsti ágallinn okkar sá hversu ósátt við erum við okkur sjálf og það gerir okkur döpur og þunglynd. Hvað ef við lítum betur inn á við og sjáum hvaða frábæru, ófullkomnu og dásamlegu manneskju við höfum að geyma? Manneskju sem hefur þraukað Covid hingað til, hlýtt Víði, haldið áfram að anda og elska og lifa þrátt fyrir ógnina. Hvað ef við leyfum þessari manneskju að njóta sín og gleðjast yfir því að vera nákvæmlega sú sem hún er? Hvað ef við hlúum að henni á nýju ári, gefum henni ráðrúm til að finna út hvað gleður hana og nærir? Hægt og rólega, skref fyrir skref með hækkandi sól.

Kannski þarf þá minna að selja okkur af áskorunum og við getum frekar eytt tíma og fé í að læra að njóta þess sem við erum og að vera þar sem við erum. Í að minnsta er von til þess að við kaupum það sem við þurfum sjálf á að halda en ekki það sem okkur er sagt að við þurfum.

Lifið vel!

 

 

Inga Dagný Eydal janúar 24, 2021 12:40