Getuleysi, hárlos og þunglyndi

Sigrún Stefánsdóttir

Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar:

Fyrir margt löngu fékk ég símahringingu frá dagvistuninni þar sem aldraður faðir minn var hluta úr degi á síðustu árunum hans.  Ég var beðin um að fara með hann á sjúkrahús til þess að láta kanna hvort hann væri rifbeinsbrotinn. Það var tekin mynd sem afsannaði það en læknirinn sagði að hann væri marinn. Hún lét mig hafa lyfseðil, lyf gegn mari og annað lyf gegn aukaverkunum af lyfinu við mari  Ég leysti þetta samviskusamlega út en fannst samt svolítið skrýtið að þurfa lyf við mari. Ef ég fæ mar hverfur það yfirleitt af sjálfu sér, lyfjalaust. En læknar hljóta alltaf að vita betur. Þetta voru stór box, örugglega 200 töflur i hvoru.  Ég er viss um að minn samviskusami pabbi var að borða þessar töflur mánuðum eftir að marið hvarf.

Þetta atvik rifjaðist upp fyrir mér í morgun – en dagurinn í dag er tímamótadagur í mínu lífi. Ég stóð berskjölduð fyrir framan spegilinn og reyndi að koma dropa af glákulyfi í vinstra augað á mér. Ég sem aldrei hef notað lyf á ævinni er komin með glákulyf sem ég á að setja í „sjúka“ augað einu sinni á dag.

Langur fylgiseðill fylgir lyfinu þar sem kynntar voru hugsanlegar aukaverkanir og mér fyrirskipað að lesa þetta allt vandlega. Með sjúka augað dregið í pung eftir lyfjagjöfina settist ég og rýndi í þennan texta. Kafli 4 fjallar um aukaverkanir. Gríp ég nú ofan í þá lesningu: almenn og jafnvel lífshættuleg ofnæmisviðbrögð, bólgur og ofsakláði, blóðsykurslækkun, svefnerfiðleikar, þynglyndi, martraðir, og minnisleysi. Yfirlið, heilablóðfall, minnkað blóðflæði til heilans, augnerting, þokusýn, linun á efra augnloki, hægur hjartsláttur, bjúgur, hjartabilun, krampar í fótleggjum, helti, lágur blóðþrýsingur, bragðtruflanir, ógleði, niðurgangur, hárlos, húðútbrot, minnkuð kynhvöt, getuleysi og vöðvaslappleiki og þreyta.  Þetta er ekki allur listinn en ég vel að stoppa hér, enda farin að finna fyrir verkjum um allan skrokk.

Í fylgiseðlinum er mér bent á að láta lækni vita um allar aukaverkandir. Og nú er það spurning hvort ég þurfi ekki að ná mér í lyf við öllum þessum hugsanlegu aukaverkefnum eins og pabba var ráðlagt á sínum tíma.  Í kjölfarið get ég svo sótt um inngöngu í lyfjaneysluklúbb aldraðra Íslendinga sem fer örugglega fljótlega á lista í heimsmetabók Guinners.

Sigrún Stefánsdóttir maí 3, 2019 13:42