„Þurfum að fá úr þessu skorið“

Helgi Pétursson

Hæstiréttur samþykkti nýlega  umsóknir Gráa hersins um áfrýjunarleyfi beint til réttarins. Málin þrjú fara því beint til Hæstaréttar án viðkomu í Landsrétti og reiknað er með að þau verði á dagskrá réttarins síðla vors eða snemma næsta haust. Það er ljóst að þetta mun stytta heildarmálsmeðferðartímann umtalsvert. Eftir því sem best er vitað er þetta einungis í þriðja sinn frá stofnun Landsréttar sem þessari heimild er beitt, að fara með mál beint til Hæstaréttar og því um nokkur tíðindi að ræða.  Þeir sem að málaferlunum standa eru mjög ánægðir með þessa þróun mála og Helgi Pétursson formaður Landssambands eldri borgara og fyrrum hershöfðingi Gráa hersins er ánægður með niðurstöðu Hæstaréttar. „Þetta er stórmál og  skiptir mjög miklu. Ég er bjartsýnn að eðlisfari og hef tröllatrú á dómsstólunum í þessu tiltekna máli. Þarna eru í húfi gríðarlegir hagsmunir fyrir fjölda fólks og einnig fyrir ríkið. Við þurfum að fá úr þessu skorið, það er ekki hægt að hafa þetta hangandi í lausu lofti endalaust. Það hefur aldrei verið nægilega vel útskýrt hvers vegna farið var út í þessar miklu skerðingar eða breytingar á því hver fyrsta stoð kerfisins skyldi vera, né hver tók þá ákvörðun. Það skilur eftir vantrú á kerfinu og tilfinningu um mikla ósanngirni hjá fjölda fólks“, segir hann.

Ritstjórn mars 11, 2022 14:32