„Þessari kynslóð hefur verið líkt við fljóðbylgju sem skellur á ströndinni og hrifsar til sín það sem fyrir verður“ segir Helgi Pétursson sem var kjörinn formaður Landssambands eldri borgara á landsfundi sambandsins á Selfossi í gær. Honum er enda ofarlega í huga, sú kynslóð sem er að fara á eftirlaun um þessar mundir. Hann segir mikið verk framundan við að skilgreina þennan hóp. „Hver erum við þessi kynslóð sem hefur lifað einhverjar mestu breytingar sem orðið hafa í veraldarsögunni? Kynslóð sem er frískari en þeir sem voru á undan og hefur meira og minna alla sína tíð stundað einhverja afþreyingu og íþróttir. Hún hefur haft tíma til slíks og er miklu betur stödd fjárhagslega en fyrri kynslóðir. Þetta fólk hefur leikð golf, átt sumarbústaði og ferðast um allan heim. Það sér efri árin öðruvísi en fyrri kynslóðir“, segir Helgi.
Ástand hjúkrunarheimilismála skelfilegt
„Þessi kynslóð hefur horft uppá breytingar í stjórnmálunum, hið opinbera stendur undir þeim sem eru ekki á vinnumarkaði og umfang þess verkefnis á bara eftir að aukast. Hún hefur líka verið með í að skapa það þjóðfélag sem við upplifum í dag“, heldur Helgi áfram . „Það hefur ýmislegt gerst á okkar vakt sem við getum ekki hlaupið frá.Við horfum á þau kerfi sem hafa verið byggð upp og veltum fyrir okkur hvernig til hefur tekist. Við horfum á skerðingarnar í almannatryggingakerfinu og nú hefur í fyrsta sinn komið fram hvaða upphæðir það eru, sem málið snýst um. Þessar skerðingar, það sem tekið er af eldra fólki eru 45 milljarðar króna á ári. Þetta var samt ekkert mikið rætt þegar þetta kom fram. Við erum líka að horfa uppá galla í þessum kerfum, lífeyrissjóðakerfið okkar til dæmis, átti að verða viðbót við greiðslur ríkisins. Við verðum að vera gagnrýnin á þessi kerfi. Við erum svo að horfa á ástand í hjúkrunarheimilisumálum sem er alveg skelfilegt. Það lýsir svo miklu sinnuleysi að við skulum geyma 100 manns, veikburða háaldraða einstaklinga inná hátæknispítala og kalla þá fráflæðisvanda. Þetta heldur áfram árum saman“.
Allir sammála um að millistig vanti milli heimilis og hjúkrunarheimilis
Landssamband eldri borgara hefur sent frá sér fimm áhersluatriði fyrir alþingiskosningarnar í september. Eitt þeirra snýst einmitt um nauðsyn fjölbreyttari búsetuúrræða fyrir elstu kynslóðirnar, millistig milli heimils þar sem fólk hefur búið og hjúkrunarheimilis. „Við höfum verið að kynna þetta og áttum okkur á því að það eru hópar útum allt samfélagið sem vilja gera þær breytingar sem við erum að tala um. Það eru allir sammála um að það vanti það millistig milli heimilis og hjúkrunarheimilis sem við erum að benda á. Það taka allir undir með okkur og vilja að þetta verði að veruleika“, segir Helgi og bætir við að öll áhersluatriðin fimm hafi fengið góðar undirtektir. „Og hvað svo, getum við lagt eitthvað svona fram og svo gerist ekki neitt?“ heldur hann áfram. „Við höfum rætt það að á einhverjum tímapunkti á næstu mánuðum, munum við kalla saman hóp sem kæmi saman í einn dag, til að hugsa skapandi um búsetumálin og koma með hugmynd að því kerfi sem við viljum, hvernig það eigi að líta út, þannig að þetta haldi ekki bara áfram að viðgangast eins og verið hefur“.
Ríkjandi stefna er að ganga sér til húðar
Helgi segir aðalatriðið að hugsa þetta mál útfrá einstaklingum, þeim sem eigi að njóta þjónustunnar en ekki útfrá hagsmunum kerfisins. „Það er verið að gera ýmislegt í áttina að þessu sem við erum að tala um, en það er ekki búið að viðurkenna að það þurfi að breyta kerfinu. Við erum ennþá í þessu að allir búi heima hjá sér eins lengi og þeir vilja og geta. Það er stefnan sem hefur verið ríkjandi en hún er augljóslega að ganga sér til húðar, sem er vegna þess að fólk lifir lengur. Svo fellur annar makinn kannski frá og þá verður fólk eitt og er svo lengi eitt. Þetta gekk frekar upp á meðan fólk lifði skemur. Fólk lifir lengur og lengur og kerfið eins og það er, var ekki hugsað út frá því. Það verður að vera millistig í búsetunni, meira val um hvernig fólk býr. Mér finnst að það eigi að vera hægt að velja búsetueiningar, sem fólk getur leigt eða keypt sig inní, þar sem það upplifir öryggi og félagsskap við aðra. Menn fara þá ekki á stofnun, heldur búa í grennd við þónustuna sem þeir þurfa þegar fram líða stundir. Þetta er nánast fullfrískt fólk sem vill kannski komast í skjól, en hefur ekkert við það að gera að vera á hjúkrunarheimili sem eru orðin líknarstofnanir“. Helgi segir ekki raunhæft að leggja það á afkomendur að sjá um eldra fólkið. Börnin geti verið búsett annars staðar og jafnvel í útlöndum. „Þessi valkostur er ekki fyrir hendi í dag. Það er svo hægt að kaupa „þjónustuíbúðir“ eða íbúðir fyrir sextíu plús þar sem þjónusta er ekki fyrir hendi“.
Helgi segir að varðandi þessar breytingar sé hægt að taka sér til fyrirmyndar hvernig staðið var að málum þegar samþykkt var að samræma þjónustuna við börn. Sama sé hægt að gera fyrir eldra fólkið. „Við verðum að hugsa þetta kerfi uppá nýtt“.
Vill nota tæknibyltinguna til að efla starf LEB
Helgi segist hafa mikinn áhuga á að efla samskiptin við aðildarfélög Landssambandsins enn frekar og nota til þess þá tækni sem nú sé fyrir hendi. „Það var haldinn fjarfundur á Zoom með formönnum félaganna sem tókst vel“, segir Helgi og bætir við að það sé bæði hægt að nýta þessa tækni til að hafa samskipti við félögin og til að efla fræðslu og benda á þjónustu sem menn eigi rétt á. „Við getum nýtt tæknina til að auka samtakamáttinn og efla upplýsingamiðlun og þjónustu á vegum LEB með stórri og öflugri heimasíðu og fjarfundaþjónustu. Veröldin er orðin flókin, það væri til dæmis hægt að bjóða uppá fræðslufundi um fasteignaviðskipti, heilbrigðisþjónustu og erðamál. Við eigum að efla þann þátt þjónustunnar við okkar félagsmenn“, segir hann. „Það er líka hægt að hugsa sér sérfræðingadag um ákveðið málefni, eða kvöld, þar sem við eigum innan okkar raða fullt af sérfræðingum og fólki með gríðarleg reynslu. Þetta er fólkið sem við eigum að kalla á. Það þurfa einnig að vera í boði tungumálanámskeið og fleira fyrir litlu félögin. Mig langar að ná til þessa fólks og held ef eitthvað er, að ég byrji á að heimsækja félagið á Raufarhöfn“, segir Helgi brosandi.
Þetta er bara svona
Helgi er hugsi yfir samskiptum fulltrúa eldra fólks og ríkisvaldsins og segist hvergi hafa séð frá stjórnvöldum tillögur um eitthvað sem þau vilji „semja“ um við eldra fólk. „Þegar það rann upp fyrir mér og fleirum að það væru 45 milljarðar króna sem væri verið að færa frá þessum hópi á hverju ári, sást líka að það þykir sjálfsagt mál að reikna með þessu inní ríkiskassann. Eldri embættismaður sagði við mig; Ef þessar skerðingr eiga að falla niður þá mun það kosta okkur. Okkur hverja? spurði ég þá. Það er þannig að einhvers konar samningar um þetta virðast ekki vera á dagskrá. Ég hef aldrei fundið fyrir vilja ríkisins til að breyta þessu. Menn hafa sagt, þetta er bara svona og verður bara svona. Helgi segir að Grái herinn hafi ekki sætt sig við þessi svör og þess vegna hafi málið verið höfðað gegn ríkinu. „Þrátt fyrir að þetta mál sé komið af stað, veit ég ekki til þess að menn hafi gefið eitthvert vink um að nú ætti að segjast niður og ræða málin. Ég hef að minnsta kosti ekki heyrt af því. En það hafa birst greinar og fréttir um skerðingarnar og hvað þetta eru háar upphæðir. Fleiri og fleiri eru að átta sig á því hvað um er að ræða“.
Þurfum ekki að finna upp hjólið
En hvað telur Grái herinn að eigi að koma í staðinn fyrir skerðingarnar? „ Við þurfum ekki að finna upp hjólið, við getum litið í kringum okkur og gert eins og aðrar Norðurlandaþjóðir sem nota bara skattkerfið. Fólk með mismunandi tekjur er skattlagt. Í Noregi fá allir grunnlífeyri, en það borga ekki allir skatt. Þar er ekki verið að krukka í tekjur fólks með þeim hætti sem er gert hér. Í mínum huga, á bara að láta fólk í friði. Fólk hefur tekjur, þær koma héðan og þaðan, en það borgar skatta. Ég hef ekki rekist á upplýsingar um af hverju þessar skerðingar eru hér eða útskýringar á því af hverju ekki er hægt að nota skattkerfið eins og þjóðirnar í kringum okkur gera. Af hverju má ég ekki fá tekjur frá TR og lífeyrissjóðum og borga skatta af þeim eins og ég hef gert alla tíð? Af hverju þarf að breyta þessu þegar ég verð 67 ára? Þetta er hvergi gert svona þar sem ég þekki til. Hvergi á byggðu bóli. Þetta er bara hér, þetta er séríslenskt fyrirbæri. Ég hef ekki fengið fullnægjandi svar við því, af hverju þetta þarf að vera svona? Ef ég fæ þetta útskýrt, skal ég éta þetta allt ofan í mig“.
Orðræðan og orðfærið
Það hafa margir eftirlaunamenn spurt sig, hvers vegna þeir séu kallaðir eldri borgarar. Já og af hverju heitir lífeyririnn sem þú greiðir í lífeyrissjóð á meðan þú ert á vinnualdri, ellilífeyrir þegar hann er greiddur út úr sjóðnum? Að ekki sé talað um þær skilgreiningar sem er að finna í almannatryggingalögunum. Þar sem orðin lífeyrisþegar, greiðsluþegar, bætur og tekjutengdar bætur eru útskýrð. Í framhaldinu hefur svo orðið til orðið bótaþegi. Helgi er einnig hugsi yfir þessu. „Við ættum að draga úr þessum skilgreiningum þannig að það verði ekki sérhópar. Ég hef líka velt fyrir mér hvort það sé tímabært að breyta heiti Félaga eldri borgara. Mörgum finnst það neikvætt að tengja félögin við aldur. Þessi neikvæða orðanotkun hefur áhrif á viðhorf yngri kynslóða sem leiða þessa umræðu hjá sér. Yngra fólkið stendur til hliðar, enda hver vill verða lífeyrisþegi að ekki sé nú talað um bótaþegi? Það veltir lífeyrismálunum ekki fyrir sér vegna þessarar neikvæðu orðræðu“.
Grái herinn um land allt
Helgi var einn stofnenda Gráa hersins, en hvernig lítur hann á Gráa herinn þegar hann er kominn í stól formanns Landssambands eldri borgara? „Mér finnst eðlilegt að Grái herinn sé hluti af Landssambandinu, hann á að ná um allt land. Hann er aðgerðahópur innan hreyfingarinnar og þannig er hægt að leita til hans um að hrinda í framkvæmd málum sem sambandið telur nauðsynlegt að vekja athygli á, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu heldur um allt land, í samráði við aðildarfélögin“. Helgi er bjartsýnn á framtíðina og segist taka við góðu búi hjá Landssambandinu þar sem Þórunn Sveinbjörnsdóttir hefur veirð formaður síðustu fjögur árin. Landssambandið og málefni eldra fólks hafi verið í stöðugri sókn. „Ég held að stjórnamálstéttin sé að átta sig á því hversu stór kjósendahópur við erum, það er að síast inn bæði hjá okkur og þeim“, segir hann.