Þurfum ekki að óttast ellina

Sumir vilja helst gleyma afmælisdeginum sínum, vegna þess að það minnir þá á að þeir eru að eldast. Þeim finnst æðislegt þegar fólk heldur að þeir séu yngri en þeir eru. „Það er synd að fólk skuli óttast það að eldast.Við höfum almennt miklu neikvæðari hugmyndir um efri árin, en ástæða er til, segir Anne Leonora Blaakilde í samtali við DR. Sjá meira. Anne er lektor við Stofnun kvikmynda og fjölmiðla í háskólanum í Kaupmannahöfn. Hún hefur skrifað bækurnar Den store fortælling om alderdommen og Livet skal leves – forlæns, baglæns og sidelæns.

Sjö góð ráð fyrir þá sem óttast að eldast.

Hérna fyrir neðan er gerð grein fyrir skoðunum hennar á því, hvers vegna við þurfum ekki að óttast ellina og hvernig okkur getur liðið betur með aldrinum.

Margar rannsóknir hafa sýnt að mörgum sem eldri eru, finnst að þeir séu á besta aldri. Með öðrum orðum að besta aldursskeiðið hafi verið geymt þar til síðast. Þannig að það eru aðallega þeir sem eru að byrja að eldast sem finnst aldurinn ógnvekjandi. Ekki þeir sem eru þegar komnir á efri ár.

Því meira sem við vitum um ellina, því minna óttumst við hana. Þannig að þeir yngri ættu að ræða við þá eldri um það, hvernig lífið er þegar maður eldist. Við tölum í dag mest við fólk sem er á sama aldri og við sjálf, þannig að við þekkjum ekki jafn vel lífið hjá elstu kynslóðinni og menn gerðu hér áður fyrr. Það skapar fordóma og neikvæða mynd af ellinni.

Mundu að þú mátt hegða þér eins og þú vilt, alveg sama á hvaða aldri þú ert. Hér áður fyrr var búist við því að þeir sem eldri eru, hegðuðu sér á alveg ákveðinn hátt og í samræmi við aldur sinn. En í seinni tíð er búið að finna upp nýtt hugtak, svokallaðan al-aldur eða uni age. Það er til dæmis hægt að renna sér á hjólaskautum, sama hvort maður er barn eða eftirlaunamaður.

Ekki ljúga til um aldur. Þegar við af einskærum hégómaskap þykjumst vera yngri en við erum, því neikvæðara verður viðhorfið til ellinnar.

Við eigum að hætta að hrósa hvert öðru fyrir það hvað við erum ungleg, því tungumálið skilgreinir hvernig við lítum á ellina. Að vera unglegur er versta hrós sem hægt er að nota um gamalt fólk. Það á að tala um eldra fólk eins og alla aðra. Ekki taka svona til orða „Hann er 84 ára og getur enn synt!“ Eins og það sé hreint ótrúlegt kraftaverk. Segðu bara „Hann er 84 ára og syndir mikið“.

Munið að það að tala um aldur fólks er ekki neikvætt. Það er betra að verða áttræður, en að verða það ekki.

Margir halda að þeir séu ekki lengur jafn mikils virði, ef þeir geta ekki gert allt sjálfir. Við þurfum að vera betri í að trúa því að manneskjur á öllum aldri eiga virðingu skilið – líka þeir sem einhverra hluta vegna eru ekki alveg sjálfbjarga.

 

Ritstjórn október 19, 2015 14:23