Tengdar greinar

Þýðingarmikil skilaboð nærri tíræðs hugsjónamanns

Nýjasta mynd Sir Davids Attenborough var frumsýnd í Smárabíó á föstudag. Myndin heitir Hafið og hefur náttúruverndarsinninn og baráttumaðurinn látið hafa eftir sér að í henni sé að finna þýðingarmestu skilaboð sín til þessa. Sir David hélt upp á 99 ára afmæli sitt þann 8. maí síðastliðinn en hann er enn að vinna og einstaklega ern.

Meðal þeirra skilaboða sem hann vill senda í þessari nýju mynd er að minna á mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni. Hann telur að hún geti skipt sköpun í að snúa við loftslagsbreytingum og vernda lífríkið fyrir afleiðingum þeirra. Hann bendir á að hafið sé mikilvægara fyrir varðveislu lífs á Jörðinni en land. Í myndinni leitast hann við að varpa ljósi á hvert hlutverk hafsins er í lífkeðjunni og hvernig allt umhverfi þar hefur breyst á þeim tæplega hundrað árum sem Sir David hefur lifað. Hann byrjaði að kafa árið 1957 við Stóra kóralrifið í Ástralíu og upplifði þar slíka yfirþyrmandi fjölbreytni og iðandi líf að hann sagðist hafa gleymt að anda um stund. Mikil breyting hefur orðið á og við Stóra kóralrifið síðan þá og við erum að verða of sein til að snúa við þróuninni.

Sjávarbotninn hefur verið skrapaður af veiðarfærum stórra fiskiskipa alls staðar í heiminum og undirstöðum þar með kippt undan margvíslegum lífverum. Hvergi sést betur en í sjónum hve nátengt allt vistkerfið er og hver eining háð annarri. Fiskveiðar eru ekki sjálfbærar í heiminum í dag og miklu magni af afla kastað aftur í sjóinn. Svokölluð drauganet fljóta um höfin og margvísleg dýr flækjast í þeim og deyja. Áður fyrr var rusli einnig fleygt í sjóinn og þar safnaðist það upp og olli mikilli mengun. Mörgum tegundum sjávardýra hefur þegar verið útrýmt vegna þessa og mikill fjöldi í útrýmingarhættu. Sir David vonast til að myndin veki almenning og stjórnvöld til umhugsunar og menn bæti umgengni sína við höfin. Hann segir að stórkostlegasta uppgötvun hans við gerð myndarinnar hafi einmitt verið sú að höfin geti endurnýjað sig og lífríkið náð sér á strik aftur á ótrúlega skömmum tíma.

Þegar myndin um hafið var frumsýnd í London á afmælisdag Sir Davids var rúllað út bláum dregli en ekki rauðum og eftir honum gengi helstu stjörnur sem boðið hafði verið til frumsýningarinnar ásamt þeim sem stóðu að myndinni. Meðal þeirra sem komu var Karl III konungur Bretlands, Geri Halliwell-Horner fyrrum kryddpía, söngvarinn James Blunt og fyrirsætan Cara Delevingne. Myndin er sýnd núna í Bíó Paradís og var leikstjórinn Toby Nowlan viðstaddur frumsýninguna. Þess má einnig geta að inn á vef RÚV er að finna margar mynda Sir David Attenborough og um að gera að horfa á þær aftur og kynna sér verk þessa margfróða og óþreytandi hugsjónamanns.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

 

Ritstjórn maí 11, 2025 07:00