Tengdar greinar

Tilburðir í veröldinni sem gætu þróast í snarvitlausa átt

Sigurður Sigurjónsson leikari var lítill strákur í Öldutúnsskóla í Hafnarfirði þegar hann sá Charlie Chaplin í fyrsta sinn, á myndasýningu þar sem Haukur Helgason skólastjóri sýndi nemendum svart hvítar kvikmyndir með Chaplin.  „Þá hvarflaði ekki að mér þá að ég ætti eftir að verða leikari, hvað þá að ég myndi reyna að máta mig í skóna hans Chaplins“ segir hann þegar Lifðu núna slær á þráðinn til hans. Hann hefur verið einlægur aðdáandi Chaplins frá fyrstu tíð og á stórt safn muna sem tengjast honum.

Chaplin var ekki hreinn gamanleikari

Siggi segir að allir, ekki síst leikhúsfólk sæki í smiðju snillinganna í greininni. Margir hafi haldið uppá Chaplin „Hjá því verður ekki komist í mínu fagi“, segir hann. Um hvort aðdáun hans á Chaplin hafi valdið því að hann varð gamanleikari, segir hann. “Ég skal ekki segja, en það hefur örugglega hjálpað til“. Hann bætir við að Chaplin hafi ekki verið hreinn gamanleikari, hann hafi verið eins og hann orðar það „Gamanleikari með kjöt á beinunum. Hann var hugsandi maður og réttsýnn“, segir hann.

Siggi í hlutverki einræðisherrans

Leikgerðin dönsk

Einræðisherrann, meistaraverk Chaplins er jólasýning Þjóðleikhússins að þessu sinni. Leikgerðin er eftir danann Nikolaj Cederholm, sem er einnig leikstjóri verksins. Siggi fer þar með  hlutverk flækingsins, sem verður einræðisherra fyrir röð mistaka.  Aðrir leikarar í sýningunni eru Ilmur Kristjánsdóttir, Guðjón Davíð Karlsson, Hallgrímur Ólafsson, Þröstur Leó Gunnarsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Pálmi Gestsson, Oddur Júlíusson og Sigurður Þór Óskarsson. Tónlist er mikilvægur þáttur í sýningunni, og tónlistarstjórinn Karl Olgeirsson leikur á píanó af fingrum fram og sér um leikhljóð.

Mannskepnan á villigötum

Kvikmyndin Einræðisherrann fjallar um seinni heimsstyrjöldina og Siggi segir að hún sé ekki dæmigerð Chaplin mynd. En efnið eigi fullt erindi við okkur í dag. „Það er ein af ástæðunum fyrir því að við setjum þetta á svið, sýningin talar til okkar í dag, það er snarpur broddur í þessu verki sem við verðum, að halda á lofti“, segir hann. „Í lok verksins kemur fram að mannskepnan er á villigötum og boðskapurinn er ekki flókinn, hann snýst um að við þurfum að hugsa okkar gang og vera aðeins betri við hvert annað, og um það eru allir sammála, að minnsta kosti í orði kveðnu. En við sjáum alls kyns tilburði í veröldinni í dag sem eru ekki æskilegir og gætu þróast í snarvitlausa átt ef við höldum ekki vöku okkar“ segir hann að lokum.

Sló í gegn í Kaupmannahöfn

Listrænir stjórnendur sýningarinnar eru að mestu danskir en verkið var upphaflegt sett upp á síðasta ári hjá Nørrebro-leikhúsinu í Kaupmannahöfn, þar sem það sló rækilega í gegn. Gagnrýnendur hlóðu lofi á sýninguna og naut hún mikilla vinsælda, segir í tilkynningu frá Þjóðleikhúsinu. Þar segir einnig að sýningin sé  heillandi, bráðskemmtileg og frumleg leiksýning um valdasýki, möguleika mennskunnar í trylltri veröld og baráttuna fyrir friði í heiminum.  Að venju er boðið upp á umræður eftir 6. sýningu, laugardagskvöldið 12. janúar.

Ritstjórn desember 20, 2018 15:25